133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:02]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að mótmæla þessum meldingum um að ég hafi ekki hlýtt á umræðuna. Ég hef hlustað á nánast hverja einustu ræðu sem hér hefur verið haldin þrátt fyrir að ég geti játað að ég var ekki svo heppinn að hlusta á alla ræðu hæstv. umhverfisráðherra.

Auðvitað á að nýta auðlindir hér við land til hagsbóta fyrir þjóðina. Ég tel að það hafi verið rétt. Vilji stjórnarliða er alveg skýr í þessu máli. Hann er sá að grafa ekki undan þeim réttindum sem menn hafa aflað sér. Ég veit hins vegar að hv. þm. Sigurjón Þórðarson vill gera það. Hann vill breyta stjórnkerfi fiskveiða. Það er hins vegar ekki rétt hjá honum að þetta kerfi hafi ekki verið gjöfult vegna þess að hv. þingmaður á að vita að áður en kvótakerfi í sjávarútvegi var tekið upp var sú atvinnugrein rekin á gengisfellingum.