133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:53]
Hlusta

Ingvi Hrafn Óskarsson (S) (andsvar):

Ég þekki ekki til forsögu þess frumvarps sem hv. þingmaður minntist á og mér er ekki kunnugt um nein tengsl milli þess og þess frumvarps sem hér er til umræðu. Hið eina sem ég hef bent á er að þingnefndir þurfi að skoða stöðu þjóðlendna í ljósi frumvarpsins.

Varðandi þjóðareignarhugtakið er um að ræða, eins og hefur komið fram í umræðunni, tvenns konar nálgun í túlkun á því ákvæði. Það er sú nálgun sem er að finna í frumvarpinu, þjóðareignarhugtakið byggist á því að um sé að ræða tilvísun í stjórnskipuleg yfirráð ríkisvaldsins til þess að setja almennar reglur um auðlindanýtingu. Þar af leiðandi er hinn skýringarkosturinn útilokaður sem á rætur að rekja til sovésku stjórnarskrárinnar, eins og ég vísaði til áðan, þ.e. einhvers konar sameignarhugtaks sem í reynd mundi þýða eignarréttur ríkisvaldsins, ef um einhvers konar eignarrétt væri að ræða.