133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[00:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekki hægt að skilja orð hv. þingmanns nema á einn veg, þ.e. að þjóðareign í þeim skilningi að þjóðin eigi eitthvað sameiginlega til framtíðar, samkvæmt þessu frumvarpi, sé þá ekki til, hún sé ekki möguleg.

Það er í sjálfu sér mjög gott að menn átti sig á því að hér sé sá skilningur ríkjandi hjá þeim sem hafa þann skilning. Það er mjög til bóta ef það kemur fram hjá öllum þeim sem líta þannig á málið að í raun og veru sé ekki um neins konar þjóðareignarréttindi að ræða sem þarna geti orðið til vegna þess að ákvæðið eigi eiginlega ekki að þýða það.

Ég hef hins vegar skilið það af þeim útskýringum sem menn hafa verið með hér að það sé meiningin að með einhverjum hætti verði til tvenns konar réttindi sem séu kölluð þjóðareignir, annars vegar þjóðareignir sem eru kallaðar svo en eru séreignir manna eða fyrirtækja í landinu. Hins vegar einhver réttindi sem sett verði sérstök lög um og eigi að heita að séu sameiginlegar eignir landsmanna eða ríkisins.

Þess vegna er mjög mikil ástæða til að reyna að átta sig á því með hvaða hætti menn aðgreina þessa hluti eða hvort skilningurinn er sá að þjóðareign sé ekki til eins og mér finnst mega lesa út úr orðum hv. þingmanns.