133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:37]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að aflamarkskerfið, réttara sagt kvótakerfið öðru nafni, hefði sannað gildi sitt. Ég bendi hæstv. ráðherra á að það er bara alls ekki rétt. Aflinn núna er helmingi minni en fyrir daga kerfisins, verðmæti sjávarafurða hefur dregist saman á síðustu árum eða staðið í stað, það kemur fram í opinberum skýrslum. Síðan hafa skuldir sjávarútvegsins aukist og helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar á sviði þorskveiðiráðgjafar segir að með óbreyttu kerfi eða óbreyttri sókn sé hætta á því að þorskstofninn deyi út. Þetta eru hans eigin orð.