133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:41]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sagði að hún teldi að það gæti orðið samstaða um það að skýra þau ákvæði sem mönnum finnst óskýr í vinnu þeirrar nefndar og afgreiðslu Alþingis sem mun fjalla um málið.

Ég vil bera upp spurningu við hæstv. ráðherra. Ég er út af fyrir sig sammála því að það sé heppilegt að þetta ákvæði sé víðtækara en bara um sjávarútvegsauðlindina en það sem menn hafa verið að tala um í því samhengi eru fyrst og fremst auðlindir sem eru sameiginlegar auðlindir okkar og eiga að vera það til framtíðar litið en í frumvarpinu er þetta ákvæði miklu víðtækara. Þar er verið að tala um auðlindir sem eru háðar einkaeignarrétti. Það sem við höfum talað um er að auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti verði þjóðareign og ég spyr hæstv. ráðherra hvort (Forseti hringir.) hún sé mér ekki sammála um að það eigi að vera skilgreiningin.