133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:49]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi það þannig að þessi blaðamannafundur hefði aðallega verið haldinn til að ræða við framsóknarmennina, þannig skildi ég málið og heyrði hvernig menn ræddu á þeim fundi um stöðuna sem þá var uppi.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni, það má ekki setja lög sem eru andsnúin því sem við erum að segja hér. Við segjum bara mjög skýrt, og þetta hefur formaður Framsóknarflokksins sagt skýrt í umræðunum og fleiri þingmenn, hæstv. ráðherra Jónína Bjartmarz og núna ég sem er að tala hér fyrir hönd Framsóknarflokksins líka, hver megintilgangur þessa frumvarps er, að tryggja að litið sé á náttúruauðlindirnar sem sameign þjóðarinnar, (Gripið fram í.) þjóðareign, og að við séum að tryggja að ekki skapist hefðarréttur á þeim nýtingum sem núna eru fyrir hendi eins og á fiskveiðiheimildinni, fiskveiðiauðlindunum. (MÞH: … sjálfstæðismenn …) (Forseti hringir.) Þetta er meginmarkmiðið. (Gripið fram í.)