133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið athyglisverð umræða þar sem hún hefur upplýst fákunnáttu ráðamanna um aðalútflutningsveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Meira en helmingur af vöruútflutningi landsmanna kemur úr sjávarútvegi. Þegar maður verður vitni að svo furðulegum fullyrðingum úr jafnvel munnum hæstvirtra ráðherra að skipan þessara mála okkar hafi tryggt okkur mikla velsæld, fyrirtækjum í þeirri grein hagsæld og að þessi atvinnugrein hafi orðið til góða um hvernig við höfum hagað hér málum opinberast skýrt að menn þekkja ekki staðreyndir málsins og hafa ekkert velt fyrir sér hlutunum.

Maður bendir t.d. á að tekjur sjávarútvegsins hafi staðið í stað eða dregist saman og það er ekkert gert með það. Það er jafnvel sagt í framhaldinu að fyrirtækin blómstri. En hvað segja fréttir? Hér er stærsta sjávarútvegsfyrirtækið og það eru 2 þús. millj. í tap á síðasta ári, 2 milljarðar. Það er hagsældin þar. Það eru í kringum 5–6 millj. á dag, virka sem helga, sem fyrirtækið tapar. Það er ekki hægt að segja að þetta sé eitthvað meiri háttar jákvætt.

Ef við lítum þá á efnahagsreikninga þessara fyrirtækja eru skuldirnar gríðarlegar, jafnvel tvöföld veltan. Það er ekki að sjá að þessi fyrirtæki blómstri. Það sem er þó verst í þessu ástandi sjávarútvegsins er að það er komið í veg fyrir nýliðun. Það er mjög slæmt, það að vera með atvinnuveg þar sem engin nýliðun er hlýtur að enda illa, menn hljóta að sjá það. Þegar ástandið er eins og það er nú, engin menntun í fiskvinnslu og aðsókn að sjómannaskólum dregst saman, ættu einhverjar viðvörunarbjöllur að hringja hjá stjórnvöldum. Svo er þó alls ekki. Menn koma hér með einhverjar fullyrðingar, jafnvel hv. þingmenn, um að ástandið sé jafnvel blómlegt á Vestfjörðum og að ekki sé hægt að rekja eitt eða neitt til sjávarútvegsins um ástandið þó svo að það hafi verið til umfjöllunar. Meðal annars rakti Kristinn Pétursson það hversu illa kerfið hefur farið með ákveðin byggðarlög en samt sem áður reyna menn að spila einhverja falska plötu um að allt sé í himnalagi.

Meira að segja sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar segja að með áframhaldandi sams konar nýtingu sé hætta á að fiskstofninn, þorskurinn, deyi út við Íslandsstrendur. Björn Ævarr Steinarsson hélt því fram í fyrrahaust. Menn ættu að spyrja sig hvort það sé björgulegt þegar þeir sem búa til líffræðilegar forsendur fyrir kerfið gefa því þennan dóm. Ég er að vísu ekki sammála viðkomandi fiskifræðingi, alls ekki, en það er önnur saga. Þetta er þó sá fræðingur sem kerfið hvílir á og sem stjórnvöld taka hvað mest mark á.

Ég bendi líka á að þetta kerfi er alls ekki forsenda þess að við náum að hámarka verðmæti úr aflanum, langt í frá. Það væri miklu nær að setja fisk á markað þannig að þeir sem treysta sér til að vinna hann fyrir hvað hæst verð gætu þá sótt hann þangað. Nei, það er ekki gert, heldur hefur Sjálfstæðisflokkurinn ítrekað komið í veg fyrir að fiskverð sé markaðstengt og að fiskur fari á markað. Það er enn einn þátturinn í því að koma í veg fyrir nýliðun. Það er líka skoðun mín að þegar hægt er að króa hráefnið svona af valdi það líka gríðarlega óeðlilega háu kvótaverði. Ef það skipti engu máli fyrir fiskvinnsluna, hún hefði greiðan aðgang og þyrfti ekkert að vera í tengslum við útgerð skipti minna máli hver fiskaði vegna þess að sú fiskvinnsla sem gæti þá búið til hvað mest verðmæti úr hráefninu fengi aflann. Það er ekki gert, heldur hafa menn kerfi sem króar aflann af og tryggir alls ekki að þeir sem geta búið til hvað mest úr hráefninu hafi aðgang að aflanum.

Síðan er enn einn þátturinn sem er neikvæður fyrir aflamarkskerfi og kvótakerfi, það að kvótakerfið hvetur til brottkasts. Það er óumdeilt að þar sem menn stýra veiðum með sóknarstýringu er enginn hvati til brottkasts. Þá er ekkert endilega hvati til að sækja í stærsta fiskinn eins og hér er, heldur er hvatinn að sækja í sem mest verðmæti á sem stystum tíma. Þá er miklu frekar sótt í allar stærðir í stað þess að menn sæki í stærsta fiskinn eins og kerfið er hér uppbyggt.

Það eru fleiri þættir sem ættu að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum hjá stjórnvöldum, t.d. eftirlitsþátturinn. Þegar menn eru komnir með eftirlit sem slagar hátt í 1 þús. millj. ætti það að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum hjá stjórnvöldum um að kerfið sé svo óréttlátt og vitlaust að það þurfi gríðarlegt eftirlitsbákn til þess að heiðarlegir og duglegir menn haldi reglurnar.

Ungur þingmaður Framsóknarflokksins flutti tillögu um að flytja Fiskistofu út á land og þá kom upp úr dúrnum að á annað hundrað manns eru að fylgjast með kerfinu. Það er alveg ótrúlegt að verða vitni að því hvað þjóðin er komin í mikla þvælu með stýringu sína á fiskveiðum. Þetta kerfi snýst orðið um allt annað en að tryggja hag heildarinnar. Það er miklu fremur rekið áfram á einhverjum hugmyndafræðilegum forsendum.

Hér voru þeir sem eru í stjórnarandstöðu og vildu fá að ræða þessi hluti af skynsemi sakaðir jafnvel um einhver kommúnísk viðhorf. Ég segi við stjórnarliða að það kerfi sem hér er rekið er ekkert annað en áætlanabúskapur í undirdjúpunum þar sem menn eru að byggja upp þorskstofna sem þeir vita ekkert hvað eru stórir. Út frá einhverjum reiknilíkönum telja þeir að þeir séu visst stórir en raunvitneskjan er afar rýr. Mér finnst vafasamt þegar menn fara í svona kerfi sem hefur valdið mikilli biturð og sárindum víða um land og það rekið áfram á einhverjum hugmyndafræðilegum forsendum þó svo að ekki standi steinn yfir steini í nokkrum röksemdum fyrir kerfinu, ekki fiskifræðileg, a.m.k. ekki á forsendum kerfisins sjálfs. Það kemur fram að helsti sérfræðingurinn segir að óbreytt stefna geti leitt til útdauða. Síðan er það hagræðingin, það er gríðarleg skuldasöfnun hjá fyrirtækjunum, tekjur dragast saman eða standa í stað á síðustu árum og það er engin nýliðun í kerfinu.

Þegar menn tala um að ástandið hafi verið eitthvað svo slæmt fyrir daga kerfisins er það alrangt. Ef eitthvað lék sjávarútveginn illa var það fastgengisstefna sem var rekin hér á ákveðnu árabili en ég er á því að stjórnvöld skuldi betri röksemdir fyrir því að halda óbreyttu kerfi. Þeir sem lesa þingtíðindi, fara í gegnum þessa umræðu og verða vitni að rökstuðningi t.d. hæstv. heilbrigðisráðherra sjá að rökin eru vægast sagt veigalítil og nánast engin.