133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[02:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hugur minn stendur svo sem ekki til þess að lengja umræðuna mikið en ég get þó eiginlega ekki orða bundist við lok hennar sem virðast nú ætla að verða, eftir að hafa fylgst með henni hér í allan dag. Ég verð að segja alveg eins og er að svo ruglingslegar hafa túlkanir orðið að hefði hér verið einhver áhugasamur laganemi á pöllunum og ætlað að reyna að átta sig á hvað í frumvarpinu væri fólgið og hver raunveruleg réttaráhrif af lögtöku þess mundu verða, spái ég því að honum væri nokkur vandi á höndum að gera grein fyrir niðurstöðu umræðunnar.

Staðreyndin er sú, það er algerlega ljóst, eftir þessa umræðu að stjórnarliðar hafa hér verið á hlaupum í umræðunni til að reyna að túlka málið þannig sem þeir telja koma best út fyrir sig og flokka sína í aðdraganda kosninga. Það er heldur lágt risið á því þegar maður verður þess var að svo langt er seilst í þeim efnum að meira að segja stjórnarskráin er undir þegar menn eru að reyna að bjarga sér í land varðandi þann málflutning sem þeir hafa haft uppi eða loforð við kjósendur í einhverjum stjórnarsáttmálum. Óvissan og ruglingurinn í þessum málum er til muna meiri en hann var fyrir tilkomu þessa frumvarps, það er held ég hverjum manni ljóst sem hefur fylgst með umræðunni.

Svo bætir nú ekki úr skák það sem menn kalla hér greinargerð með frumvarpinu. Ég mundi ætla að þessi áhugasami lögfræðinemi á fyrsta ári, sem ég tók sem dæmi áðan, væri hann til og hefði hann með sæmilega kunnáttu á netinu tekið sig til hefði hann gert betur á tveimur til fjórum tímum að tína saman efnivið í greinargerðina, sem er auðvitað ekkert annað en pínulitlir bútar sem sóttir eru í greinargerðir með frumvörpum um lög um stjórn fiskveiða á sínum tíma og annað í þeim dúr. Það er engin sjálfstæð lögfræðileg greining á bak við það hvað í þessu máli er fólgið, engin, greinargerðin er aumkunarverð satt best að segja.

Það sem veldur mér kannski mestri umhugsun í þessum efnum er sá sláandi munur sem er á framsetningu málsins í frumvarpi formanna stjórnarflokkanna og ítarlegrar, vel rökstuddrar niðurstöðu auðlindanefndar á sínum tíma. Það er sú staðreynd að inn í frumvarpið vantar mörg kjarnaatriðin af niðurstöðu auðlindanefndar.

Þar er í fyrsta lagi málið afmarkað við náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Hér er hins vegar í greinargerð með frumvarpinu gefið í skyn að allt sé undir án slíkra takmarkana.

Í öðru lagi er sagt í niðurstöðu auðlindanefndar að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign megi ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Því er sleppt hér. Þó að veita megi þeim heimildir til afnota eða hagnýtingar þá skal það vera gegn gjaldi, sagði auðlindanefnd á sínum tíma, og að því tilskildu að hún sé tímabundin, þ.e. heimildin, og henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Þessu er sleppt í frumvarpinu. Hvers vegna? Það er ekkert sem vísar til þess í sjálfu sér að um slíka skýra tímabundna og afmarkaða heimild skuli vera að ræða og að innibyggt sé að löggjafinn geti eftir því sem hann sér ástæðu til gert breytingar á fyrirkomulaginu. Sá réttur veikist sem menn hafa þó talið sig hafa, t.d. á grundvelli 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða til að gera slíkar breytingar.

Síðan verð ég að segja að ég sakna líka mjög þeirrar nálgunar sem var í niðurlagsorðum þessarar málsgreinar í tillögum auðlindanefndar á sínum tíma þar sem sagt var að náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign bæri að nýta á sem hagkvæmastan hátt, að sjálfsögðu, en á grundvelli sjálfbærrar þróunar og að arðinum skuli varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim.

Hvað er hér verið að segja? Í raun var hugsunin að lögtaka meginreglur umhverfisréttarins inn í sjálf ákvæðin sem fjölluðu um heimildir til afnota af auðlindinni. Það hefur ekki verið gert í íslenskum rétti. Það liggja að vísu fyrir núna í frumvarpi, sem sjálfsagt dagar hér uppi, fyrstu tilburðir í langan tíma til að lögtaka meginreglur umhverfisréttarins eins og þær voru fram settar í Ríó á sínum tíma, en þetta var útgangspunktur og hugsun auðlindanefndar.

Þegar maður ber þetta saman og hefur í huga að auðlindanefnd á sínum tíma vísaði í öll hin samtengdu ákvæði stjórnarskrárinnar sem hér þarf að hafa í huga, þ.e. að sjálfsögðu einkaeignarréttinn samkvæmt 72. gr. en líka jafnræðisregluna og einnig atvinnuréttindin, þá voru hlutirnir þar settir í allt annað samhengi og hafðir í miklu meira jafnvægi en hér er gert. Hafandi hlustað á t.d. túlkanir hvers þingmannsins úr stjórnarherbúðunum á fætur öðrum, eins og ungu lögfræðinganna úr Sjálfstæðisflokknum sem hér komu upp í röðum, verð ég að segja alveg eins og er að mér líst ekki allt of vel á málið.

Ég segi líka að sú nefnd sem á að taka við málinu þarf heldur betur að vanda til verka og má ekki bregðast rannsóknarskyldu sinni því að ég öfunda ekki þá menn sem ætla að fá að fara með það á bakinu að standa að afgreiðslu þessa frumvarps hafi það ekki verið vel og rækilega unnið og bera ábyrgð á því hvað þeir eru í raun að samþykkja. Ég ætla það að mönnum sé nú ekki sama, jafnvel þó pólitísk nauð þeirra sé mikil — og það væri gott ef hv. þm. Jóhann Ársælsson stæði ekki í vegi milli mín og formanns Framsóknarflokksins því að ég hef gaman af því að horfa á hann þegar ég segi þetta — ég ætla það að ábyrgð manna sé þó sú, þó að pólitísk nauð þeirra sé mikil, að þeim sé ekki sama um þær stjórnarskrárbreytingar sem þeir ætla að taka ábyrgð á með atkvæði sínu. Hver veit hvað kann út úr því að koma ef menn gera þetta svona og kasta höndum til verkanna. Eða ætla menn þá bara að láta það ráðast, láta kylfu ráða kasti og dómstólana um það að reyna að finna einhvern veginn út úr því hvað Alþingi Íslendinga hafi þá verið hér að gera?

Ég þarf ekki að endurtaka orð mín frá því fyrr í umræðunum um vinnubrögðin í aðdraganda málsins, þau eru auðvitað mjög dapurleg. Það er mjög dapurlegt að órofa hefð lýðveldistímans um að flokkar leiti samstöðu í aðdraganda málflutnings af þessu tagi, að hún skuli hafa verið rofin með þessum hætti, það er auðvitað mjög dapurlegt. Og það að svona lagað sé soðið saman í (Gripið fram í: Ertu búinn að gleyma fjölmiðlafundinum?) hrossakaupum á örfáum klukkutímum ef ekki sólarhringum — ég hef engu gleymt, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Steingleymt.) Ég hef engu gleymt í þeim efnum. (Gripið fram í: Það er alveg greinilegt.) Ég er með yfirlýsinguna þaðan í höndunum og er tilbúinn til að standa við hvert orð sem í henni stendur. Kostur hennar er sá, herra forseti, að hún er mjög skýr. Hún tilgreinir efnisforsendur málsins, bindur þær við álit auðlindanefndar frá 2000 og vinnuhóp stjórnarskrárnefndar og býður upp á samstarf, sem var ekki þegið, og talar þar um ríkisstjórnina en ekki Framsóknarflokkinn, svo það sé bara enn einu sinni endurtekið og haft á hreinu. Menn eiga að venja sig á að vitna rétt í skriflegar heimildir. Það er mönnum ekki til sóma að reyna að snúa út úr þeim. Menn eru mikið í því þessa dagana, sérstaklega talsmenn flokka sem hafa lítið fram að færa frá eigin brjósti, að reyna að snúa út úr annarra orðum og gera þeim upp skoðanir en það er öllu verra ef menn lenda meira að segja út í það fúafen að reyna að afflytja og rangtúlka skriflegar heimildir sem liggja fyrir.

Þessi yfirlýsing er algerlega skýr. Hún er hérna, ég er með hana í höndunum. Það er svo barnalegt af talsmönnum stjórnarliðsins, sérstaklega Framsóknarflokksins, að reyna að afflytja hana sem nokkuð getur verið og sýnir auðvitað hinn hörmulega málstað og málatilbúnað ríkisstjórnarflokkanna í þessu, að þeir eru á þeim rosalega flótta í skjól af þessari yfirlýsingu frá stjórnarandstöðunni. Eða er stjórnarandstaðan bara búin að taka völdin? Er ríkisstjórnin orðin viljalaust verkfæri í höndum stjórnarandstöðunnar? Er það það sem formaður Framsóknarflokksins er að segja? Hvernig á maður að fá einhvern botn í þetta? Nei, þetta er frumvarp frá ríkisstjórninni, þetta er komið út úr hinni pólitísku nauð sem varð á stjórnarheimilinu í kringum landsfundarhelgi framsóknarmanna. (Gripið fram í.) Öll ábyrgð þessa máls er á herðum stjórnarflokkanna og verður ekki þaðan tekin. Þaðan koma þeir henni ekki. Ég skil þá vel, herra forseti, að þá langi til þess, ég skil vel hina löglærðu menn í þeirra röðum að þeim líði illa og t.d. fyrrum formanni í stjórnarskrárnefnd og -vinnu hér, Geir H. Haarde, sem er stoltur af framlagi sínu til þeirra hluta t.d. á árinu 1995 þegar þá var gerð stjórnarskrárbreyting. Hvernig var hún gerð? Að undangenginni mjög ítarlegri og vandaðri vinnu og góðri sátt allra flokka. Það er hægt að vera stoltur af slíku en ekki (Forseti hringir.) þessu.