Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 11:05:14 (6312)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:05]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sökum þingæsku hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar fer hann hér villur vegar. Ég kom ekki að því á sínum tíma, heldur var það þvert á móti þannig að ég var undanfari einkavæðingarinnar sem hér hefur átt sér stað í hinu íslenska samfélagi. Þegar ég var umhverfisráðherra lagði ég til að það sem mig minnir að þá hafi verið komið niður í 15% hlut ríkisins í fyrirtækinu yrði selt, þessu yrði komið af höndum ríkisins. Ég taldi að það ætti ekki að eiga þetta, málið var komið á það stig þá að þetta gat séð um sig sjálft án aðkomu ríkisins.

Við notum yfirleitt fyrstu umræður um mál í þinginu til að grafast fyrir um og rannsaka mál. Hjá mér vöknuðu spurningar við mál hv. þingmanns og ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við það þótt hann eigi kannski erfitt með að skýra flókin tæknileg atriði. Ég kann hugsanlega að misskilja það enn en mér sýnist sem sagt að í sumum tilvikum sé um það að ræða að ofan á úrvinnslugjaldið leggist virðisaukaskattur sem í sumum tilvikum rennur þá beint til ríkisins. Þetta hefur kannski verið svona áður, ég er ekki kunnugur því. Í öllu falli virðist mér sem þarna kunni að vera um nýja skattheimtu að ræða þó að hin raunverulega upphæð sem tekin er með þessum hætti inn til ríkisins, þ.e. mismunur á 24,5% og 7% vaski á tilteknar umbúðir, sem er þá stofninn að því sem ríkið fær.

Ég hefði gjarnan viljað ræða það og skoða. Ég hef, eins og hv. þingmaður kannski man, mjög oft fett fingur út í þetta tiltekna atriði. Af því að málið er flutt hér af nefndinni eru engin tækifæri fyrir mig til að skoða þetta. Væntanlega þýðir flutningur nefndarinnar að það fer ekki aftur til nefndar þannig að þetta er dæmi um færibandavinnslu sem fer hér í gegn og menn eru ekki klárir á hvað í því felst. Ég rifja aðeins upp að þegar aðrir menn voru umhverfisráðherrar fluttu þeir sjálfir frumvarp af þessu (Forseti hringir.) tagi.