Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 11:29:26 (6315)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni Merði Árnasyni sem gerði þá játningu að okkur í umhverfisnefndinni hefðu yfirsést ákveðnir hlutir þegar þetta mál var lagt fyrir nefndina. Okkur yfirsást að hér væri gert eitthvað annað en að leiðrétta þá lækkun sem virðisaukaskattslækkunin margumrædda hefur í för með sér á skilagjaldsskyldar umbúðir og úrvinnslu þeirra. Hér lítur út fyrir að sé um nýja skattheimtu að ræða. Endurvinnslan hf. þarf áfram umsýsluþóknun til að standa undir rekstri starfseminnar, ég dreg það ekki í efa, en það breytir ekki því ekki að málið var ekki kynnt þannig í umhverfisnefnd enda ekki við því að búast þegar nefndin situr í blóðspreng á síðustu dögum þessa þings við að afgreiða gríðarlega stór og flókin mál á tíma sem er í raun kreistur undan blóðugum nöglunum á starfsmönnum þingsins sem reyna að útdeila þessum litla tíma á milli nefndanna og gengur mjög illa að fá það svigrúm sem þarf til þess að afgreiða þau viðamiklu mál sem fyrir liggja.

Ég nefni mál eins og losun gróðurhúsalofttegunda, mál sem er fullur vilji í nefndinni til að vinna vel og skila vel til 2. umr. Ég nefni mál eins og Vatnajökulsþjóðgarð og breytingu á náttúruverndarlögum. Þessi þrjú mál eru viðamikil og taka tíma. Það skiptir verulegu máli að nefndin reyni að sinna því starfi sínu sem best hún má og þá er afar önugt að umhverfisráðherra hæstv. skuli ætlast til að nefndin flytji frumvarp af þessu tagi sem er þröngvað með skóhorni á milli þyngri og erfiðari mála sem nefndin er í blóðspreng við að vinna að og reyna að skila til 2. umr.

Það er kapítuli út af fyrir sig, hæstv. forseti, hvernig staðið hefur verið að vinnunni af hálfu ríkisstjórnarinnar í allan vetur. Ég vil sérstaklega beina augum mínum að hæstv. umhverfisráðherra og þeim málum sem komið hafa frá ráðuneyti umhverfismála. Svo háttaði til lengi framan af vetri að umhverfisnefnd þurfti ekkert að funda og gat ekki fundað vegna þess að engin stjórnarþingmál voru komin til nefndarinnar og hv. formaður nefndarinnar sá ekki ástæðu til að vera eyða tíma nefndarinnar í að fjalla um stjórnarandstöðumál, þ.e. þingmannamál frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.) Reyndar voru nokkur slík mál inni í nefndinni. Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum var eitt þeirra og friðlýsing Jökulsár á Fjöllum annað. (Umhvrh.: Rammaáætlun um náttúruvernd.) Hún kom reyndar aðeins síðar, en á fyrstu mánuðum þingsins voru þessi tvö mál í nefndinni. (Gripið fram í.) Til upprifjunar fyrir hv. þm. Guðlaug Þ. Þórðarson kom stækkun friðlandsins í Þjórsárverum inn í nefndina 10. október, og friðlýsing Jökulsár á Fjöllum reyndar síðar, en fékkst ekki rædd fyrr en í lok janúar.

Lengi framan af blasti við nefndinni var að hún hefði ekki nægan fjölda mála til að nýta fundartíma sinn. Á fyrstu tveimur og hálfum mánuði starfstíma þingsins, þ.e. alveg fram að jólahléi, voru einungis fimm fundir haldnir í umhverfisnefnd. Síðan gerist það að hæstv. umhverfisráðherra gubbar inn málum eftir jól. Þá koma til nefndarinnar stór og viðamikil mál, t.d. meginreglur umhverfisréttar, sem er vísað til nefndarinnar 15. febrúar og losun gróðurhúsalofttegunda, sem ekki er vísað til nefndarinnar fyrr en 2. þessa mánaðar og frumvarp til laga um breytingu á náttúruverndarlögum sem sömuleiðis er vísað til nefndarinnar 2. mars ásamt tveimur viðamiklum málum sem við höfum ekki haft tækifæri til að líta á, enda mun það hafa verið ætlun hæstv. umhverfisráðherra að þau mál yrðu einungis sett til kynningar inn í nefndina svo að nefndin gæti sent þau til umsagnar. Þar er um að ræða frumvarp til heildarlaga um skipulagslög og sömuleiðis mannvirkjalög.

Þótt hæstv. umhverfisráðherra hafi í orðu kveðnu gefið til kynna að hún legði þetta til nefndarinnar eingöngu til skoðunar þá sagði hún engu að síður í flutningsræðum sínum að hún teldi sjálfsagt og vildi í sjálfu sér helst af öllu að nefndin tæki málin til skoðunar. Það var ekki í neinu sambandi við þann veruleika sem blasti við nefndinni. Auðvitað hefur nefndin ekki haft tækifæri til að líta á þau veigamiklu mál enn sem komið er og þurfa þau að sjálfsögðu að bíða næsta þings.

Þetta gefur þá mynd að umhverfisnefnd hefur þurft að búa við þær aðstæður að hæstv. ráðherra hefur komið allt of seint með sín mál inn í þessa nefnd. Það leiðir síðan af sér að nefndinni er núna gert að flytja, ekki bara eitt frumvarp, ekki bara tvö heldur þrjú frumvörp: þ.e. það sem hér er um rætt, breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða; það sem verður rætt á eftir, breyting á lögum um úrvinnslugjald og í þriðja lagi breytingu á lögum um brunavarnir þar sem er um að ræða flutning verkefna Brunamálastofnunar. Það mál dúkkaði allt í einu upp hjá umhverfisnefnd á síðasta fundi, fullbúin hugmynd að frumvarpi þar sem breytt er nokkuð mörgum greinum umræddra laga. Nefndin hefur ekki haft svigrúm til þess að fjalla um það mál svo neinu nemi enda, eins og ég hef áður vikið að, upptekin við önnur mál.

Hæstv. forseti. Þetta sýnir í hnotskurn hvert ástandið er hjá þessari ríkisstjórn. Málin koma of seint inn í nefndirnar. Þingmenn og þingflokksformenn hafa ekki það svigrúm sem eðlilegt getur talist til að vinna þessi flóknu mál. Svo verður lagasetningin með þeim hætti sem þessi frumvörp bera með sér, hún er flaustursleg, unnin í óðagoti og gerðar vitleysur. Það eru gerðar vitleysur í máli eins og þessu, um breytingu á lögum til að lækka virðisaukaskatt á matvælum. Þar yfirsést mönnum, starfsmönnum ráðuneyta og hæstv. ráðuneytum að breytingarnar komi til með að hafa áhrif á endurvinnslu og skilagjaldið. Sömuleiðis eru gerðar villur í lögunum um úrvinnslugjald, sem við afgreiddum frá Alþingi fyrir nokkrum vikum af því að hér er fljótaskrift á öllu. Hvernig halda menn þá að takist til með stærri mál? Ég nefni t.d. auðlindafrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra sem var afgreitt í flaustri úr iðnaðarnefnd í gær. Ég nefni heilbrigðislög sem afgreidd voru frá heilbrigðisnefnd í gær. Það má nefna þau mál sem við erum við það að afgreiða út úr umhverfisnefndinni í flaustri af því að við höfum haft ónógan tíma til að skoða þau og þau koma illa undirbúin inn í nefndirnar.

Þetta er ástandið á þessum síðasta þingvetri ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Er að furða þótt þjóðin sé farin að átta sig á því hvers lags sleifarlag er á hlutunum og er furða að fólk sé farið að kalla eftir breytingum í samfélaginu, þótt ekki væri nema til þess að tryggja að þeir sem sýsla með lagasetningu fyrir hönd þjóðarinnar nái að vinna verk sín með sóma?

Málið um brunavarnirnar verður tekið fyrir á hálftímafundi í hádeginu hjá umhverfisnefnd. Mér var að berast í hendur miði með fundarboði frá kl. eitt til hálftvö. Á meðan þingmenn eiga að fá tíma til að snæða skulum við sett yfir það frumvarp sem hæstv. umhverfisráðherra var í lófa lagið að flytja fyrr í vetur meðan tími var til.

Hæstv. forseti. Þetta var ekki svo mikið um efni frumvarpsins sem hér um ræðir en manni rennur í skap að sjá þetta, að umhverfisnefnd skuli stillt upp við vegg og látin flytja þrjú þingmál sem eru með þessum hætti komin í okkar hendur. Varðandi málið sjálft verður að skoða hvaða áhrif hækkunin á þessu umsýslugjaldi hefur á verðið til neytenda af því að nú höfum við nýverið gumað af því að hér sé verið að lækka vöruverð með virðisaukaskattslækkuninni. En eigi síðan að hækka umsýslugjaldið á þeim nótum sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir erum við þá ekki að tala um að þar með hækki aftur þær drykkjarvörur sem um ræðir? Ég fæ ekki betur séð. Um það sagði hv. formaður nefndarinnar ekkert í flutningsræðu sinni en spurningin er þessi: Hvaða áhrif hefur þetta á verð til neytenda? Þeirri spurningu verður að svara og þó ekki sé nema til þess að fá henni svarað verður þetta mál að koma aftur til umfjöllunar inni í nefndinni.

Varðandi ábyrgð stjórnvalda í þeim efnum að draga úr myndun sorps og úrgangs vil ég segja að komið hefur í ljós, sérstaklega í þéttbýlinu, kannski helst í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu, að neytendur eru margir hverjir afar fúsir og viljugir til að flokka sorp og skila á endurvinnslustöðvar, á gámastöðvar. En það er ekki stjórnvöldum að þakka. Stjórnvöld hafa staðið sig slælega í fræðslu og hvatningu sem eðli málsins samkvæmt þarf í þessum efnum. Til þess að breyta hegðun og hugarfari fólks bera stjórnvöld ábyrgð. Í orði kveðnu hafa þau gengist við henni því að í stefnu ríkisstjórnarinnar, um velferð til framtíðar, sem er stefna um sjálfbæra þróun til ársins 2020, viðurkennir ríkisstjórnin að stjórnvöld beri fræðsluhlutverk og hvatningarhlutverk sem þurfi að sinna. Hins vegar hafa þessi sömu stjórnvöld ekki staðið sig í stykkinu í þeim efnum. Fjármunir hafa verið af skornum skammti, ef nokkrir, til þessara þarfa þannig að þessu veigamikla hlutverki stjórnvalda hefur ekki verið sinnt sem skyldi. Ég tel því að stjórnvöld beri hér ábyrgð á því að neytendur bregðist við og leggi sitt af mörkum til þess að draga úr urðun sorps. Þar þurfa að koma til ýmis úrræði sem spennandi er að takast á við sem kosta nokkra fjármuni og vinnu sem menn virðast hafa verið að spara sér. Það er auðvitað ámælisvert í sjálfu sér.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda lengri ræðu um þetta. Ég ítreka bara það sem ég hef sagt að það er nauðsynlegt að nefndin fái málið aftur inn og fari yfir ákveðna þætti þess sem ég hef gert grein fyrir í mínu máli. Ég sé svo sem ekki hvar tíminn til þess á að koma ef ríkisstjórnin ætlar að standa við starfsáætlun þingsins sem gerir ráð fyrir því að þinghaldi ljúki á fimmtudag, sem mun vera ekki á morgun heldur hinn.