Umhverfismengun af völdum einnota umbúða

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 11:59:14 (6321)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[11:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er verið að breyta útsöluverði á þessum vörum sem þetta tekur til, á einnota umbúðum um drykkjarvörur o.s.frv. Það er verið að breyta verði. Það er verið að lækka virðisaukaskatt. Það getur þess vegna leitt til magnaukningar og á grunni magnaukningar getur Endurvinnslan haldið tekjum sínum uppi.

Ekki er ólíklegt að neyslan hafi aukist. Var ekki verið að lækka gjöld á gosdrykkjum og sykurdrykkjum? Umdeilt mál reyndar í þinginu. Atriði sem gekk þvert á ráð Lýðheilsustöðvar sem lagðist gegn því að verið væri að lækka stórlega verð á gosi og öðrum sykurdrykkjum.

En þetta getur leitt til magnaukningar þannig að Endurvinnslan getur í sjálfu sér haldið uppi tekjustofnum sínum á grunni þess. Því er það ekkert sjálfgefið, þó svo að þessi vörugjöld lækki og grunnurinn lækki hvað það varðar, að það þurfi að hækka hann með öðrum hætti beint á móti.

Þetta er bara ábending. Hlutirnir eiga samhengi, bæði í magni og verði eins og í þessu tilviki. Þetta er ábending til hv. umhverfisnefndar um að skoða þessi mál. Það er ekki alltaf sjálfgefið að það þurfi að taka allar hækkanir inn eins og verið er að leggja til.