Íslenskur ríkisborgararéttur

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 16:50:32 (6372)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[16:50]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, með síðari breytingum. Þetta nefndarálit er frá meiri hluta allsherjarnefndar.

Hér er á ferðinni frumvarp sem leggur til töluverðar breytingar á gildandi lögum um efnið og ber þar helst að nefna að skilyrði sem útlendingar þurfa að uppfylla til að geta öðlast íslenskt ríkisfang eru samræmd og tengd skilyrðum fyrir búsetuleyfi hér á landi. Sú meginregla er áréttuð að valdheimildir og veitingar á íslensku ríkisfangi er að meginstefnu til hjá Alþingi. Þá eru lögð til nokkur ný skilyrði þess að veita megi íslenskt ríkisfang með stjórnvaldsákvörðun, hnykkt á skilyrðum sem hafa verið tíðkuð í framkvæmd og lagt til að sett verði nýtt ákvæði í lögin sem lýtur að því þegar umsækjandi veitir rangar upplýsingar. Loks er lagt til að lögunum verði skipt í kafla.

Ég tel ástæðu til að fara yfir nokkur atriði úr nefndarálitinu þar sem eins og áður segir er um töluverða breytingu að ræða á gildandi lögum um efnið. Eins og fram kemur í nefndarálitinu ræddu nefndarmenn stöðu flóttamanna, þ.e. fólks sem hefur fengið dvalarheimili hér á landi af mannúðarástæðum, en margir umsagnaraðilar sem nefndin leitaði til gerðu stöðu þessa fólks að umtalsefni í umsögnum sínum og á fundum með nefndinni var farið yfir þörfina fyrir sérstakt tillit til þessara aðila.

Eins og segir í nefndaráliti er þessum aðilum t.d. oft illmögulegt að sanna með fullnægjandi hætti hverjir þeir eru og fólk sem hefur þurft að flýja heimaland sitt getur verið í þeirri aðstöðu að það þurfi að þiggja framfærslustyrk frá sveitarfélagi og slíkt getur valdið vandkvæðum þegar kemur að því að uppfylla skilyrði þess að geta sótt um ríkisborgararétt, eins og lesa má af gildandi lögum um efnið.

Af þessum ástæðum velti nefndin því fyrir sér hvort bæta ætti við frumvarpið undanþáguheimild til handa dómsmálaráðherra um að taka sérstakt tillit til aðstæðna þessa hóps en með hliðsjón af þeirri meginreglu frumvarpsins að öll vafamál skulu fara fyrir Alþingi ákvað meiri hlutinn að ráðast ekki í þá breytingu. Það er því niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að þingið verði alltaf í aðstöðu til þess að meta sérstakar aðstæður eins og þær sem þessir aðilar eru í og út frá því gengið að þegar tilefni er til muni þingið víkja frá þeim skilyrðum laganna sem koma í veg fyrir að viðkomandi geti fengið leyfinu úthlutað frá ráðuneytinu.

Þó er lögð til ein tiltekin breyting á frumvarpinu sem kemur til móts við þessi sjónarmið. Þannig segir í 6. tölulið 1. mgr. b-liðar 5. gr. frumvarpsins að gert er ráð fyrir því að flóttamaður sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna hafi verið búsettur hér í fimm ár til að geta sótt um íslenskt ríkisfang. Meiri hlutinn telur eðlilegt að ákvæðið taki einnig til þeirra sem hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Hér er um að ræða fámennan hóp til viðbótar sem ætti færi á að sækja um réttinn eftir fimm ár í stað sjö og taldi nefndin enga ástæðu til að gera greinarmun á þessum tveimur hópum.

Nefndin tók til sérstakrar umræðu þau nýju skilyrði sem lagt er til að umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt uppfylli svo unnt sé að veita ríkisfangið með stjórnvaldsákvörðun og einkum þá meginreglu að umsækjendur skulu hafa sýnt fram á nokkra kunnáttu í íslensku. Meiri hlutinn bendir á að ekki eru gerðar kröfur um íslenskukunnáttu þeirra sem óska eftir dvalar- eða búsetuleyfi hér á landi en telur eðlilegt að gerðar séu ríkari kröfur til þess að útlendingar sem óska eftir íslenskum ríkisborgararétti sýni fram á lágmarkskunnáttu í íslenskri tungu með hliðsjón af mikilvægi hennar fyrir aðlögun þeirra í samfélaginu. Þannig telur meiri hlutinn að ástæða sé til að leggja áherslu á að íslenskukunnátta fyrir útlendinga verði byggð upp þannig að unnt verði að standa við tímamörk í gildistökuákvæði frumvarpsins, sé miðað við að skyldan til að standast próf í íslensku taki gildi 1. janúar 2009. Jafnframt bendir meiri hlutinn á mikilvægi þess að framboð kennslunnar verði nægjanlegt og aðgengilegt öllum þeim sem hana vilji sækja.

Fyrir liggur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að verja 100 millj. kr. sérstaklega til þessa málefnis þannig að meiri hluti nefndarinnar er vongóður um að fyrirætlanir í þessu efni geti gengið eftir.

Nefndin tók til umræðu ákvæði 1. mgr. e-liðar 5. gr. frumvarpsins sem kveður á um að hafi umsækjandi um íslenskan ríkisborgararétt gefið rangar upplýsingar sem lágu til grundvallar við ákvörðun um ríkisborgararétt sé dómsmálaráðherra heimilt að svipta viðkomandi umsækjanda ríkisfangi enda verði hann ekki ríkisfangslaus við það. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu eftir að hafa skoðað þetta ákvæði sérstaklega og þá einkum með hliðsjón af 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem kveður á um að engan megi svipta íslenskum ríkisborgararétti, að verulegur vafi væri á því hvort ákvæði frumvarpsins stæðist stjórnarskrá og eins og segir í nefndaráliti vísar meiri hlutinn m.a. til rits Gunnars G. Schrams lagaprófessors, Stjórnskipunarréttar, þar sem fram kemur að þeir sem hafa fengið ríkisfang verði ekki sviptir því aftur þótt þeir brjóti af sér og heldur ekki þótt þeir hafi aflað þess með vísvitandi röngum upplýsingum. Meiri hluti nefndarinnar leggur sem sagt til að þetta ákvæði frumvarpsins verði fellt brott.

Nefndin ræddi einnig hvort ástæða væri til að hverfa frá því fyrirkomulagi að heimila tvöfaldan ríkisborgararétt og ég ætla að leyfa mér að vísa til nefndarálitsins varðandi þau sjónarmið sem þar voru uppi.

Loks tók nefndin til sérstakrar umræðu hvort ástæða væri til að breyta verklagi við meðferð ríkisréttarumsókna sem lagðar eru fyrir Alþingi eftir gildistöku ákvæða frumvarpsins. Fram til þessa hefur svo háttað til að þær umsóknir sem óskað hefur verið eftir þinglegri meðferð á hafa verið sendar til allsherjarnefndar sem hefur fjallað um þær í sérstakri undirnefnd og undirnefndin hefur síðan borið tillögur sínar undir allsherjarnefndina sem lagt hefur fyrir þingið frumvarp um þá einstaklinga sem veita á íslenskt ríkisfang. Þess er að vænta að málum af þessum toga muni fjölga nokkuð í náinni framtíð verði frumvarpið að lögum og þar sem með þessu máli er verið að undirstrika þá meginreglu að þingið fari með veitingu ríkisborgararéttar þá telur meiri hluti nefndarinnar að þingið þurfi að taka það til sérstakar skoðunar hvort ástæða sé til að breyta þingsköpum þannig að skipuð verði sérstök sérnefnd um ríkisborgararéttarmál sem þá mundi fjalla um þessar umsóknir. Auðvitað er sá möguleiki enn þá opinn að allsherjarnefnd fari með þessi mál og eftir atvikum taki þau til umfjöllunar í nefndinni sjálfri eða haldi núgildandi verklagi um að fjalla um þetta í undirnefnd en í öllu falli held ég að ástæða sé til við þá breytingu sem nú er að verða á þessum málum að taka þetta til skoðunar. Hefði auðvitað farið best á því ef allsherjarnefnd hefði haft rýmri tíma til að kafa ofan í þennan þátt málsins.

Þar sem frumvarpið sjálft gerir ekki neinar tillögur í þessu efni sendir nefndin málið aftur inn á þingið með ábendingum um að það þurfi að huga að þessu og í sjálfu sér er auðvitað ágætur tími fyrir þingið til að taka þetta mál til skoðunar og það er að sjálfsögðu að mínu áliti engin hætta hér á ferð þó að haldið verði áfram við núgildandi verklag. Hins vegar er full ástæða til að nota þessi tímamót til að huga að þessu sérstaklega. Ég geri einnig ráð fyrir því að eftir atvikum muni þá vera ýtt á eftir því af hálfu nefndarinnar ef það verður þá ekki einfaldlega tekið upp af forsætisnefnd í tilefni af ábendingu nefndarinnar eins og hún kemur fram í þessu nefndaráliti.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir á þskj. 1071. Undir þetta nefndarálit skrifa Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson, Birgir Ármannsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Sigurjón Þórðarson en Björgvin G. Sigurðsson og Kjartan Ólafsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.