Íslenskur ríkisborgararéttur

Þriðjudaginn 13. mars 2007, kl. 17:18:15 (6375)


133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[17:18]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp um breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Við í allsherjarnefnd fórum þokkalega vel yfir þetta mál, fengum fjölmargar umsagnir og allmarga gesti. Eins og stendur í frumvarpinu sjálfu er í rauninni að einhverju leyti verið að samræma þær kröfur sem eru gerðar til leyfis til að fá búsetu annars vegar og leyfis til að fá ríkisborgararétt hins vegar. Í sumum tilfellum voru gerðar vægari kröfur hvað varðar ríkisborgararétt en búsetuleyfið. Eins og komið hefur fram, bæði við 1. umr. þessa mál og í máli þingmanna sem hafa talað í dag, eru hér nokkur nýmæli. Í sumum tilfellum er verið að þrengja réttinn til að fá ríkisborgararétt í öðrum ekki. Þetta eru nokkur nýmæli sem mig langar að fara yfir.

Lítum á 3. tölul. c-liðs 5. gr. sem lýtur að kröfum um að umsækjandi hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfu sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð. Þetta er eitt af þeim efnisatriðum sem við skoðuðum nokkuð vel í nefndinni og voru skoðanir skiptar hvað þetta varðar. Í greininni kemur einnig fram að setja skuli í reglugerð þær undanþágur sem eru frá þessu skilyrði fyrir þá sem teljast verður ósanngjarnt að gera slíkar kröfur til. Ég kallaði ítrekað eftir því hjá allsherjarnefnd að fá drög að þessari reglugerð. Fulltrúar ráðuneytisins töldu sig ekki færa um að sýna okkur slíkt. Ég held að þeir hafi fullyrt að slíkt hafi ekki verið fyrir hendi. Það er vissulega bagalegt. Það er alveg ljóst að ráðherrarnir fá allmikið vald í þessari reglugerðarheimild og hægt er að ímynda sér efnisatriði reglugerðarinnar með ýmsum hætti. Það hefði skipt miklu máli að við hefðum fengið einhvers konar hugmynd um hvað á að standa í reglugerðinni í ljósi þess hvað ráðherra fær mikið vald til að ákveða þessar undanþágur.

Íslenskuskilyrðið, eins og ég segi, er umdeilt. Mér sýndist þó flestir umsagnaraðilar vera tiltölulega sáttir við grundvallaratriðið. Á það var bent, það þurfti að draga það sérstaklega fram, að tryggja þarf, ef menn vilja fara þessa leið á annað borð, að framboð af íslenskukennslu sé til staðar og það sé frambærilegt, og sé til staðar um allt land. Það þarf einnig að tryggja að sú kennsla sé ókeypis. Í þriðja lagi þarf að tryggja að slík kennsla geti átt sér stað í vinnutíma fólks. Það hefur ítrekað komið fram í samtölum við samtök innflytjenda og nýbúa á Íslandi að það er grundvallaratriði til að aðlagast samfélaginu að ná einhverjum tökum á íslensku. Einnig hefur ítrekað verið bent á að ef sú kennsla á að fara fram eftir vinnutíma minnka líkurnar á að viðkomandi einstaklingar hafi einfaldlega tíma og svigrúm til að sinna því námi. Þetta er auðvitað atriði sem við verðum að hafa í huga ef við ætlum að stíga þau skref sem hér er mælst til að við gerum, þ.e. að gera það beinlínis að skilyrði fyrir ríkisborgararétti að umsækjandi hafi staðist próf í íslensku.

Þetta þarf allt að komast í lag áður en gildistaka á þessu ákvæði rennur upp en eins og kemur fram í frumvarpinu mun þetta ákvæði ekki taka gildi fyrr en 1. janúar 2009. Það er því einhver tími til að huga að undirbúningi þessarar íslenskukennslu og að sama skapi að ræða þær undanþágur sem ráðherra mun ákveða í reglugerðinni.

Mér finnst gagnrýnisvert að ætlast sé til þess að við í allsherjarnefnd samþykkjum ákvæðið án þess að hafa fyrir framan okkur reglugerðina. Mörg fordæmi eru fyrir því að drög að reglugerð fylgi frumvörpum. Það hefði verið afskaplega hentugt í þessu tilviki.

Við sjáum, ef við förum aðeins yfir umsagnir helstu umsagnaraðila, að Mannréttindaskrifstofa Íslands segir, hvað varðar íslenskuskilyrðið, með leyfi forseta:

„Hér er kveðið á um að umsækjandi um ríkisborgararétt hafi staðist próf í íslensku samkvæmt kröfu sem dómsmálaráðherra setur í reglugerð. Þá segir að í reglugerð skuli jafnframt mælt fyrir um undanþágur frá þessu skilyrði fyrir þá sem telja verður ósanngjarnt að gera þessar kröfu til. Í athugasemdum við þetta ákvæði segir að þeir sem undanþegnir verða þessu skilyrði hljóta einkum að vera þeir sem flust hafa til landsins nokkuð eftir miðjan aldur auk þeirra sem búa við einhverja fötlun sem gerir kröfu um góða íslenskukunnáttu óraunhæfa. Mannréttindaskrifstofan tekur undir þetta en leggur til að sérstakt tillit verði tekið til flóttafólks og þeirra sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum þar sem þessir einstaklingar hafi gjarnan þurft að þola miklar raunir sem geta skert getu þeirra til íslenskunáms. Þá ber einnig að taka tillit til þeirra sem koma frá málsvæðum sem eru mjög ólík okkar og þeirra sem ekki eru læsir og skrifandi við komuna til Íslands. Þá má í þessu samhengi benda á að í finnskri löggjöf er sérstaklega kveðið á um táknmálskunnáttu. Þannig væri til bóta að íslenskt táknmál skilgreindist sem jafngildi hefðbundinnar íslenskukunnáttu við mat á hvort umsækjandi uppfylli skilyrði laganna.

Mannréttindaskrifstofa leggst ekki gegn kröfu um íslenskukunnáttu en telur varhugavert að lögfesta slíkt ákvæði að svo stöddu, jafnvel þó því sé ætlað að taka gildi 2009.“

Ef við skoðum einnig hvað Rauði krossinn segir um þetta tiltekna skilyrði, um íslenskuprófið, þá stendur hér, með leyfi forseta:

„Rauði kross Íslands leggst ekki gegn þessu sjónarmiði í sjálfu sér en vill beina þeim tilmælum til allsherjarnefndar að íhuga vandlega hvort slíkt ákvæði sé endilega tímabært. Fram til þessa hefur aðgengi útlendinga að íslenskunámi verið ábótavant. Bæði hafa námskeið verið kostnaðarsöm og framboð ef til vill ekki nægjanlegt. Heildarstefnumótun í íslenskukennslu fyrir útlendinga hefur skort en nú má vænta breytinga í þeim efnum ef marka má nýlega samþykkt ríkisstjórnarinnar um að leggja aukna fjármuni til málaflokksins. Enn er þó ekki ljóst hvernig skipulagi íslenskukennslu fyrir útlendinga verður háttað í landinu.“

Litlu síðar í umsögninni stendur, með leyfi forseta:

„Þá er mikilvægt að komið verði til móts við þá umsækjendur sem voru ólæsir við komuna til Íslands, bæði hvað varðar kennslu og hvernig íslenskukunnátta þeirra er metin við umsókn um ríkisborgararétt.“

Þriðji umsagnaraðilinn sem mér finnst ástæða til að draga sérstaklega fram er Alþjóðahús. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum með framangreindu ákvæði segir að einkum hljóti að koma til greina að undanþiggja þá skilyrði um íslenskukunnáttu sem flust hafa til landsins eftir miðjan aldur auk þeirra sem búa við einhverja fötlun. Undir þetta tekur Alþjóðahús, en leggur til að jafnframt verði tekið tillit til þeirra sem koma frá gerólíku málsvæði sem og þeirra sem hvorki eru læsir né skrifandi á eigið tungumál en hvorir tveggja eiga erfitt um vik við íslenskunámið.

Þá telur Alþjóðahús vænlegra að í stað þess að umsækjendum verði gert að standast próf í íslensku þá eigi þeir fremur að uppfylla skilyrði um námskeiðssókn, eins og áskilið er í norskum lögum um ríkisborgararétt og á við um búsetuleyfi samkvæmt útlendingalögunum.“

Sjónarmið þessara umsagnaraðila eru nokkuð skýr. Þeir slá ákveðna varnagla við umræddu skilyrði. Vilja að sjálfsögðu sjá myndarlegt framboð á íslenskukennslu, eins og við öll væntanlega, og við þurfum að huga mjög fljótlega að því ef við gerum þetta að lögum. En nóg um þetta atriði frumvarpsins.

Það er eftirtektarvert að rauður þráður er í flestum umsagnanna og ég get fullyrt að í umsögnum frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossinum og Alþjóðahúsi er gerð krafa um að bætt verði í frumvarpið sérstöku ákvæði sem gerir ráð fyrir að ráðherra geti tekið tillit til flóttamanna og þeirra sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Við höfum haft hug á að leggja fram slíka breytingartillögu við 3. umr. um að slík heimild verði færð ráðherra, þ.e. að ráðherra hafi svigrúm til mats í mjög sérstökum tilvikum sem lúta að flóttamönnum og þeim einstaklingum sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum þegar kemur að veitingu ríkisborgararéttar. Ekki er verið að opna á almenna heimild fyrir ráðherra en hins vegar finnst okkur rök umsagnaraðila sannfærandi hvað þetta varðar.

Ég ítreka að þetta er mjög þröngur hópur, flóttamenn annars vegar og einstaklingar sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum hins vegar. Í meðförum nefndarinnar kom fram að aðeins hefur einn einstaklingur fengið pólitískt hæli á Íslandi undanfarinn áratug. Þar fyrir utan eru hinir svokölluðu kvótaflóttamenn. Einstaklingar sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafa, að því er mig best minnir, verið u.þ.b. fimm á ári, stundum enginn. Ekki er um mikinn fjölda að ræða. Aðstæður þessa hóps geta hins vegar verið það sérstakar að eðlilegt sé að ráðherra hafi svigrúm til að taka tillit til þess. Ég vil einnig minna á að þeir einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrði fyrir ríkisborgararétti hafa alltaf möguleika á því að skjóta máli sínu til þingsins. Alþingi hefur enn það vald að veita ríkisborgararétt þó að sá einstaklingur sem í hlut á uppfylli ekki þau skilyrði sem eru í lögunum. Ekki er verið að hrófla við því valdi og ég tel mikilvægt að það komi fram. En ég ítreka að ég boða breytingartillögu um að sett verði heimild fyrir ráðherra til að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna.

Það er fróðlegt að skoða, ég tek hér af handahófi það sem Rauði krossinn segir hvað þetta varðar, með leyfi forseta:

„Rauði krossinn beinir þeim tilmælum til allsherjarnefndar að dómsmálaráðherra verði heimilt að taka til greina sérstakar aðstæður flóttamanna og annarra umsækjenda sem hefur verið veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum þegar metið er hvort slíkir umsækjendur uppfylli skilyrði laga um veitingu ríkisborgararéttar.“

Þetta er efnislega sama athugasemd og finna má í grein eftir grein hjá lykilumsagnaraðilum og hagsmunaaðilum sem starfa hvað mest með útlendingum og innflytjendum hér á landi. Mér finnst eðlilegt að Alþingi taki tillit til þeirra athugasemda og stígi þetta skref.

Mig langar einnig að boða aðra breytingartillögu sem verður lögð fram við 3. umr. Hún lýtur að 5. tölul. c-liðs 5. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Umsækjandi geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sl. þrjú ár. Er umsækjanda skylt að sýna fram á að hann hafi framfært sig með löglegum hætti hér á landi og er dómsmálaráðuneytinu heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattyfirvöldum því til staðfestingar.“

Í stuttu máli er verið að lengja tímabilið sem kemur til skoðunar. Í núverandi lögum er miðað við tvö ár. Frumvarpið gerir ráð fyrir að einstaklingur hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélögum sl. þrjú ár. Við teljum enga ástæðu til að lengja þetta tímabil. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur þarf að þiggja framfærslustyrk og því finnst okkur rétt að hafa þetta eins og það er núna, þ.e. tveggja ára tímabil. Ég bendi einnig á að í fyrri breytingartillögunni, sem ég boðaði áðan, verður einmitt veitt svigrúm fyrir ráðherra að ganga fram hjá þessu skilyrði í tilviki flóttamanna og einstaklinga sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Ég ítreka að þeir einstaklingar sem ekki fá ríkisborgararétt hjá ráðherra og ráðuneytinu hafa tök á að leita til þingsins.

Mannréttindaskrifstofa segir varðandi þetta atriði, með leyfi forseta:

„Hér er sá tími sem umsækjandi um ríkisborgararétt má ekki hafa þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi lengdur úr tveimur árum í þrjú ár. Mannréttindaskrifstofan telur þrjú ár of langan tíma og leggur til að áfram verði miðað við tvö ár.“

Við gerum ráð fyrir því í breytingartillögu okkar sem verður kynnt við 3. umr.

Rauði krossinn segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lagt til að sá tími sem umsækjandi skal hafa verið án framfærslustyrks sveitarfélags verði lengdur úr tveimur árum í þrjú ár fyrir umsókn um ríkisborgararétt. Gerir Rauði krossinn athugasemdir við ofangreint enda kunna að vera fyrir því ýmsar réttlætanlegar ástæður að umsækjandi þurfi að óska eftir framfærslu frá sveitarfélagi, sem oft kann að vera tímabundin aðgerð.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur réttilega fram að upp geta komið tilvik þar sem umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt þurfi á opinberri framfærslu að halda. Í athugasemdum með frumvarpinu eru tiltekin tilvik vegna bágs efnahags þegar umsækjandi kemur til landsins eða vegna veikinda.“

Rauði krossinn fjallar ítarlegar um þetta. Alþjóðahús er á svipuðum slóðum í athugasemd sinni.

Aftur tel ég réttlætanlegt að taka tillit til athugasemda þessara lykilaðila hvað þennan málaflokk varðar. Það er rétt að benda á að sumir umsagnaraðilar, þar á meðal BSRB, höfðu athugasemdir um skilyrði sem lýtur að 4. tölul. c-liðs 5. gr. um að árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert hjá umsækjanda sl. þrjú ár, bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta eða hann í vanskilum með skattgreiðslur.

Auðvitað eru sum þessara skilyrða allströng. Hér er að einhverju leyti verið að samræma þau skilyrði sem eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar og veitingu búsetuleyfis. Við þurfum því að huga að því á hvaða vegferð við erum. Regluramminn þarf vissulega að vera skýr og skynsamlegur en við þurfum að huga að mörgum öðrum hlutum þegar kemur að þessum málaflokki í heild sinni.

Það er sérstakt fagnaðarefni að samstaða náðist í nefndinni um nokkrar breytingar, m.a. sem lýtur að e-liðnum, breyting á 11. gr. sýnist mér. Það átti að vera hugmyndin að hægt væri að svipta viðkomandi umsækjanda ríkisborgararétti, en það kemur skýrt fram í stjórnarskrá að það er ekki heimilt. Ekki er heimilt að svipta einstakling ríkisborgararétti eftir að hann hefur verið veittur. Samstaða náðist um að taka þetta út. Það var einnig fagnaðarefni að samstaða náðist um að taka að einhverju leyti tillit til fólks sem fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum þegar kemur að 6. tölul. b-liðs 5. gr. Þar segir:

„Flóttamaður, sem fullnægir skilgreiningu í alþjóðasamningi um stöðu flóttamanna sem gerður var 28. júlí 1951, hafi verið hér búsettur sem slíkur í fimm ár.“

Hér hefur einnig verið ákveðið að taka tillit til einstaklinga sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Ég hef lokið yfirferð minni. Ég ítreka að við þurfum að vanda okkur afskaplega vel og bjóða upp á frambærilega kennslu í íslensku ef við ætlum að gera það að skilyrði fyrir ríkisborgararétti. Sem betur fer höfum við einhvern tíma í það en tíminn er fljótur að líða. Gildistaka þessa ákvæðis er síðar en hinna ákvæðanna. Þær tvær breytingartillögur sem ég boðaði verða lagðar fram við 3. umr., hin fyrri um að tekið verði tillit til flóttamanna og þeirra sem fá dvalarleyfi af mannúðarástæðum og sú sem lýtur að því að lengja ekki það tímabil sem litið er til, hvort einstaklingur hafi fengið framfærslustyrk frá sveitarfélagi eða ekki, hafa það tvö ár en ekki þrjú. Við teljum að ekkert kalli á að stíga þurfi það skref á þessu stigi.

Þetta er málaflokkur sem alltaf þarf að vera í umræðunni og í endurskoðun. Við höfum oft tekist á um málefni útlendinga. Ég man að á fyrsta ári mínu sem þingmaður tókumst við harkalega á um þær breytingar sem voru gerðar á útlendingalögunum, svokallaða 24 ára reglu og 66 ára reglu, um öfuga sönnunarbyrði o.s.frv. Þar endurspeglaðist grundvallarmunur á stjórnarandstöðuflokkunum og ríkisstjórnarflokkunum. Við munum að sjálfsögðu stefna að því að breyta því að einhverju leyti til baka þegar við loks komumst í ríkisstjórn, sérstaklega hvað varðar 24 ára regluna. Ég get nokkurn veginn fullyrt að sú regla fari í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta þarf allt að skoða í samhengi og ég legg til að lokum að við förum varlega en tökum ekki gagnrýnislítið upp þær breytingar sem eiga sér stað í Danmörku og í Noregi á sínum tíma. Ríkisstjórnir þeirra landa, eins og t.d. í Noregi, það hefur reyndar breyst núna, en núverandi ríkisstjórn í Danmörku er varin af flokki sem hefur róttæka stefnu hvað þetta varðar. Við þurfum að huga vel að þeim fyrirmyndum sem við veljum í þessum málaflokki.