Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 15. mars 2007, kl. 16:38:04 (6503)


133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[16:38]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég á sæti í landbúnaðarnefnd og tók þátt í að fjalla um þetta mál þar. Við fulltrúar Samfylkingarinnar skrifuðum ekki undir þetta nefndarálit og því er kannski ástæða til að fara nokkrum orðum um málið nú við 2. umr.

Eins og ýmsir muna kannski er hér verið að gera breytingar á lögum sem ekki hafa tekið gildi. Það eru vatnalögin sem urðu afar umdeild á síðasta þingi og urðu tilefni mikilla átaka milli stjórnar- og stjórnarandstöðu sem enduðu með því að um sátt náðist um að gildistakan yrði ekki fyrr en í október 2007. Þau lög eru á margan hátt þannig að í þeim er fólgin stefnubreyting sem var ákaflega umdeild og var mjög erfitt að fá menn til að viðurkenna að fælist í þessari lagabreytingu. Það er reyndar dapurlegt að umræða um slíkt grundvallarmál skuli hafa farið fram með þeim hætti að menn fengust aldrei til að viðurkenna í raun og veru hver breytingin væri. Sagt var að þetta væri einungis formleg breyting en hún er það aldeilis ekki. Í þessu er fólgin mjög mikil breyting frá því sem var í gömlu vatnalögunum frá 1923. Breytingin felst í raun og veru í því að í stað þess að lög um þessi efni, um vatn og það sem því tilheyrir í þessari lagasetningu, séu sett þannig að í þeim komi fram hvað sé leyfilegt þá er málinu snúið við. Það felst mjög mikil breyting í þessu, því að með því að telja upp í lögunum hvað sé leyfilegt að gera hefur Alþingi möguleika á að grípa inn í með lagabreytingum ef eitthvað nýtt hefur gerst sem er ástæða til að taka á í lögum.

Eftir þessa breytingu, ef þessi lög taka gildi, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að menn geti sótt ríkið til skaðabóta vegna lagabreytinga sem leiða af einhverjum nýjum veruleika sem kemur upp hvað þessi efni varðar. Slíkt er ekki hægt á grundvelli þeirra laga sem nú eru í gildi frá 1923. Það er þess vegna ástæða til að minna á það núna, þegar menn eru byrjaðir að gera breytingar á þessum lögum áður en þau taka gildi, að þau fela þetta í sér.

Þeir flokkar sem eru í stjórnarandstöðu lýstu því yfir að þeir ætluðu sér að afnema þessi lög ef þeir gætu einhverju um það ráðið eftir næstu kosningar. Ég hef fulla ástæðu til að trúa því að það verði gert en auðvitað get ég ekki spáð fyrir um niðurstöður kosninganna. Ég tel að menn þurfi að skoða þessi mál mjög vandlega og fara yfir þau að nýju og setja lögin út frá sömu grundvallarsjónarmiðum og menn höfðu þegar vatnalögin frá árinu 1923 voru sett. Það var vönduð lagasetning sem hefur staðið tímans tönn betur en flest annað sem sett hefur verið í lög á Íslandi. Það ættu menn að virða þegar verið er að fást við jafnmikilvæg mál og þau sem hér um ræðir og skoða hvernig það sem best hefur dugað hefur verið gert. Menn tóku sér langan tíma til að vinna að þeirri lagasetningu og niðurstaðan varð sú sem raun ber vitni. Það var ekki þannig núna. Nú var farið af stað á vegum ríkisstjórnarinnar og tekinn til þess tiltölulega stuttur tími að ljúka endurskoðun á þessum lögum og gera á þeim þá grundvallarbreytingu sem ég nefndi áðan.

Ég ætla ekki að fara yfir vatnalögin í ræðu minni núna en ég vildi bara nefna þetta vegna þess að hér er til umræðu breyting á vatnalögunum. Hæstv. landbúnaðarráðherra rankaði við sér á göngum Alþingis undir lokin á þeirri löngu umræðu sem varð um vatnalögin. Hann áttaði sig allt í einu á því að verið væri að færa eitthvað frá honum af því sem er á valdsviði hans. Nú er hann að reyna að ná því til baka. Vill ekki fara með þá skömm á bakinu heim af þessu þingi, síðustu ferðina úr stól landbúnaðarráðherra, að sitja uppi með það að hafa sofið á verðinum og ekki passað upp á það sem hann átti að passa upp á. Það er auðvitað dapurlegt fyrir hann.

Ég sé ekki betur en að ríkisstjórnin öll sé að ganga í lið með honum. Það er eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar núna þegar kemur að lokadögum Alþingis að hysja upp um landbúnaðarráðherrann og reyna að koma þessu inn í lög sem ekki hafa tekið gildi. Það er kannski hægt að virða það að fólk vilji láta landbúnaðarráðherranum líða betur. En ég tel að margt annað mikilvægara bíði afgreiðslu Alþingis á síðustu dögum þingsins en þetta mál, sérstaklega í því ljósi að það eru mjög litlar líkur á því að það reyni nokkurn tímann á þennan lagatexta því að hann á ekki að taka gildi fyrr en um leið og vatnalögin sem ættu taka gildi á næsta hausti ef þau verða ekki afnumin. Þess vegna ágætt að rifja þetta upp núna.

Ég ætla ekki að hafa mjög langa ræðu. Það stóð aldrei til enda bíða mörg verkefni þeirra sem eru að vinna í nefndum og að undirbúningi mála í þinginu. Mér skilst að nú eigi að fara að halda fund í þeirri sérnefnd sem er að fjalla um stjórnarskrána og það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt ef þar er einhver möguleiki á að ná sátt um það mál sem þar er til meðferðar. Ég er satt að segja ekkert allt of bjartsýnn á að von sé til að sátt náist um það en það skal a.m.k. ekki standa á okkur samfylkingarmönnum að ganga til þess verks og reyndar veit ég að sú afstaða er uppi í öllum stjórnarandstöðuflokkunum að það mál eigi að ganga fyrir.

Nú hef ég fengið miða í ræðustólinn þar sem segir að sú nefnd eigi að koma saman eftir 12 mínútur. Ég hef þann heiður að fá að sitja á þeim fundi þannig að ég ætla að leyfa mér að ljúka ræðu minni hér, hæstv. forseti, og láta þetta duga um þessa tilraun til að hysja upp um landbúnaðarráðherrann okkar.