133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[18:27]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Nefndin fjallaði um þetta mál á reglulegum fundum og fékk til sín fulltrúa frá forsætisráðuneyti og Barnaverndarstofu.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. Einnig er í frumvarpinu mælt fyrir um stöðu nefndarinnar og valdheimildir hennar sem er nauðsynlegt til þess að hún geti rannsakað mál með tilhlýðilegum hætti.

Þetta frumvarp er til komið vegna nýlegrar umfjöllunar um rekstur vistheimilisins Breiðavíkur á árunum 1950–1980, en rétt þykir að kanna jafnframt hliðstæðar stofnanir og sérskóla sem börn dvöldu í.

Nefndin bendir á að frumvarpið girðir ekki fyrir að rannsókn nefndarinnar taki til einkaheimila sem börn hafa verið vistuð á fyrir tilstuðlan opinberra aðila. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að í nefndina verði skipaður að lágmarki einn aðili með sérþekkingu á sviði barnaverndarmála.

Nefndin fagnar frumkvæði ríkisstjórnarinnar að því að hefja framangreinda rannsókn en bendir á að jafnframt er rétt að taka mið af þeim upplýsingum sem þegar eru komnar fram þannig að þær geti orðið stjórnvöldum að leiðarljósi við farsæla stjórn og eftirlit með barna- og unglingameðferðarheimilum.

Ég vil jafnframt láta þess getið hér að þetta mál fór ekki víða til umsagnar. Nefndin hefur haft afar skamman tíma til að vinna að málinu þar sem það er seint fram komið á þessu þingi. En ég læt þess getið í þessari umræðu að mér hafa munnlega borist athugasemdir frá Blaðamannafélaginu af því tilefni að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að upplýsingalög gildi ekki um málið. Fyrir mitt leyti breytir það ekki afstöðu minni til frumvarpsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt eins og það liggur fyrir. Tveir nefndarmanna gerðu fyrirvara við samþykki sitt.