Þjóðskjalasafn Íslands

Fimmtudaginn 15. mars 2007, kl. 22:26:42 (6543)


133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[22:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók til máls um þetta frumvarp við 1. umr. og hafði á því sterkar skoðanir en ég kem hingað upp til að þakka hv. formanni nefndarinnar og nefndarmönnum öllum fyrir þær breytingar sem þeir hafa gert á frumvarpinu. Þó að ég hefði töluvert önnur viðhorf til málsins í heild en ýmsir af sjálfstæðismönnunum, einkum þeir sem í yngri kantinum eru, lýsti ég hins vegar mikilli ánægju með tillögur nefndarinnar á sínum tíma, þ.e. hinar svokölluðu kaldastríðsnefndar. Mér fannst hún fara mjög lipurlega í málið og gera tillögur sem voru jafnvel mun rýmri en við höfðum umþenkt sem samþykktum þetta mál upphaflega með þingsályktunartillögu á síðasta þingi. Kaldastríðsnefndin kom fram með skilgreiningu á fræðimönnum sem mér fannst rýmka verulega aðganginn og var ánægður með það.

Nú heyri ég að menntamálanefnd hefur bætt um betur og hún hefur í reynd útvíkkað aðgang að gögnum sem varða látna menn töluvert. Ég er mjög ánægður með það. Ég hlýddi á mál hv. þingmanns og formanns nefndarinnar og fannst sem að þarna hefði verið vel að verki staðið. Ég vildi einungis segja það, því að ég hafði eins og ég sagði sterkar skoðanir á þessu máli við 1. umr. og ég þakka hv. þingmönnum og nefndarmönnum fyrir þetta.

Almennt verð ég að segja að tillögugerðin í málinu öllu er mjög jákvæð. Hins vegar hefði ég auðvitað viljað að samþykkt hefði verið tillaga eða hugmynd sem við í Samfylkingunni vorum með um að gerð hefði verið allsherjarúttekt á þessu máli. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson með því máli, a.m.k. ekki að svo stöddu. Hugsanlega kann sá andi að koma yfir mig þegar líður á umræðuna en ég þakka honum fyrir þetta.