Þjóðskjalasafn Íslands

Fimmtudaginn 15. mars 2007, kl. 22:29:50 (6545)


133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[22:29]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að vel hafi farið fyrir þessu máli í vinnu nefndarinnar þar sem það tengist máli sem sprakk með miklum hvelli í íslensku samfélagi fyrir tæpu ári þegar bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings kom út, Óvinir ríkisins. Þar greindi Guðni frá nokkuð umfangsmiklum hlerunum og njósnum, má segja, og alvarlegum brotum á friðhelgi þekktra forustumanna af vinstri væng stjórnmálanna og verkalýðsbaráttu Íslendinga um miðbik síðustu aldar og fram eftir öldinni miðri. Var aðgangsharka stjórnvalda gagnvart þessum einstaklingum mjög alvarlegt mál sem vakti mikla athygli og um það var deilt víða, hér á Alþingi sem og úti í samfélaginu. Talið barst að ásökunum um sérstakar njósnadeildir einstakra stjórnmálaflokka o.s.frv. sem leiddi til þess að í júní 2006 var samþykkt hér þingsályktunartillaga um skipan nefndar sem var falið að gera tillögur um tilhögun á frjálsum aðgangi fræðimanna að framangreindum gögnum. Eins og hv. formaður nefndarinnar sagði er frumvarpið afrakstur þess starfs.

Það er fagnaðarefni hvernig í rauninni var farið með hugtakið fræðimaður þar sem við töldum mikilvægt að svonefndir alþýðusagnfræðingar ættu ekki síðri aðgang að þessum gögnum, þessu sérstaka öryggismálasafni þar sem varðveita má öll skjöl og skráðar heimildir sem hafa verið í vörslum skilaskyldra aðila og snerta öryggismál Íslands, hvorki meira né minna, innra og ytra öryggi á árunum 1945–1991. Hér er um að ræða stórmál og mjög mikilvægt að það sé sátt um aðganginn að þessum gögnum. Þetta kallar á mikla rannsóknarvinnu sem mun sjálfsagt taka mörg ár, lögfræðinga, sagnfræðinga og alþýðusagnfræðinga, fræðimanna sem stunda slíkar rannsóknir hver sem formleg menntun þeirra er. Hún á ekki að skipta nokkru einasta máli ef það er starfi þeirra og markmið með fræðagrúskinu að vinna í slíkum gögnum. Það er fagnaðarefni að hugtakið fræðimaður sé skýrt rúmt við beitingu laganna eins og segir hérna, enda hafi fjölmargir aðrir en menn með próf í eiginlegum hug- og félagsvísindum stundað sagnfræðilegar rannsóknir. Nefndin telur einnig að hugtakið hug- og félagsvísindi eigi að túlka rúmt og bendir m.a. á þær heimildir sem um er að ræða og kunna að vera fróðlegt rannsóknarefni fyrir lögfræðinga. Það má heldur ekki einskorða aðganginn að hinu mikla öryggismálasafni við sagnfræðinga með formlega sagnfræðimenntun, með fullri virðingu fyrir þeim, heldur verður að gæta þess að aðrir fræðimenn, sjálfmenntaðir alþýðufræðingar sem og fræðimenn á sviði lögfræði, mannfræði og heimspeki þess vegna, heimspekingar og mannfræðingar, fái aðgang. Það eru ekkert margir í þeim stéttum en þeir hafa örugglega áhuga á að koma að rannsóknum á þessum málum. Þetta er stórmerkilegt mál og þessar grófu hleranir og þessi grófu friðhelgisbrot á einkalífi manna kalla á viðamiklar rannsóknir. Það er makalaust að lesa lýsingar á því hvernig gengið var fram gagnvart mönnum eins og Hannibal Valdimarssyni og mörgum öðrum þekktum vinstri mönnum og verkalýðssinnum á þessum tíma.

Þegar þetta mál sprakk með þeim hvelli sem það gerði í fjölmiðla- og þjóðmálaumræðu á sínum tíma var svo sem ekki útlit fyrir að það fengi neitt sérstaklega farsælan endi sem yrði sátt um, eins og þetta frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er ástæða til að taka undir þakkir til allra sem að því komu fyrir málefnalega vinnu þar sem bæði meiri hluti og minni hluti nefndarinnar lagði sig fram um að ná sátt um málið og sérstaklega með breytingum á aðgangi að safninu og skilgreiningum á hugtakinu fræðimaður þannig að ekki væri verið að loka skjölin af gagnvart þeim sem gætu haft og eiga að hafa aðgang að þeim rétt eins og þeir sem eru með formlega menntun. Það hefði getað falist í hugtakinu ef það væri skilgreint og notað mjög þröngt.

Ég er ánægður með þessar málalyktir og megi þær verða til þess að fjölga rannsóknum á þessum alvarlegu og merkilegu tímum í sögu íslenska lýðveldisins, fyrstu 20–30 árunum í lýðveldissögunni, frá lýðveldisstofnun og fram eftir áratugum, þegar kalda stríðið var í hámarki og öll stjórnmálaumræða einkenndist af þeim miklu og djúpstæðu átökum sem voru í samfélaginu á þessum tíma. Átökin skýra að sjálfsögðu að miklu leyti þá makalausu tillögu að ganga svo harkalega gegn friðhelgi manna að fara að hlera síma þeirra, bæði á heimili og vinnustað, svo ótrúlegt sem það nú er. Þessar hleranir áttu sér einnig stað á heimilum og það var fylgst mjög grannt með þessum mönnum. Það var bókstaflega njósnað um þessa einstaklinga þannig að þetta er grafalvarlegt mál sem ber að leiða til lykta. Hér er verið að gera það og það er ánægjuefni að svo varð úr sem varð.