Varnir gegn landbroti

Föstudaginn 16. mars 2007, kl. 17:20:38 (6636)


133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[17:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Komið er til 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti. Hér er verið er að leiðrétta þau lög sem samþykkt voru síðasta vetur, þ.e. svokölluð vatnalög. Það er ansi skemmtilegt að sjá orðalag í nefndarálitinu. Ég vænti þess að forseti hafi sérstaklega tekið eftir því að í nefndarálitinu segir að þar sé verið að leiðrétta — ég man ekki hvernig orðalagið er — mistök sem voru gerð við setningu vatnalaganna á síðastliðnum vetri. Þau mistök voru varðandi verkefni sem hingað til hafa heyrt undir landbúnaðarráðuneytið og landbúnaðarráðherra og verið nánast óaðskiljanlegur hluti af verkefnum landbúnaðarráðuneytisins alla vega á meðan þessi skipan ráðuneyta er. Þegar þetta er skoðað nánar kemur í ljós að þau heyra þar undir.

Ég hef í sjálfu sér ekkert efnislega við það að athuga þó að þessi breyting sé gerð. En vatnalögin eru ekki enn komin til framkvæmda þannig að ástæðulaust er að flytja þessa breytingartillögu. (Gripið fram í.) Við höfum boðið það að taka öll vatnalögin upp því að vatnalögin sem voru samþykkt á síðasta vetri og fólu í sér einkavæðingu á auðlindinni vatni, voru eitt harðasta málið sem tekist var á um á síðasta þingi. Að lyktum, til þess að forða því að allt þinghald færi endanlega í uppnám út af óbilgjarnri kröfu iðnaðarráðherra (HBl: Það verður nú að tala vel fyrir málinu.) um einkavæðingu á vatni, var endanlega sæst á að taka málið út gegn því að gildistökuákvæðinu yrði frestað til 1. nóvember 2007, þ.e. eftir að búið verður að skipta þessari ríkisstjórn út sem verður gert í kosningunum núna 12. maí. Þá lýstu félagshyggjuflokkarnir, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn því yfir að fyrsta verk þeirra yrði að koma í veg fyrir að vatnalögin, eins og þau væru úr garði gerð, tækju nokkurn tímann gildi. Með áformum um að einkavæða vatnið er jú vegið að grundvallarréttindum lífs á jörðinni. (HBl: Hvaða bölvuð vitleysa er þetta!)

Ég minnist þess einmitt í því sambandi að þegar við heimsóttum Palestínu og Ísrael fyrir um tveimur árum sáum við að stríðið var um vatnið. Ísraelsmenn reyndu að koma í veg fyrir að Palestínumenn fengju vatn. Þeir vildu alla vega hafa það í hendi sér hvort þeir fengju vatn eða ekki. Uppi á allmörgum húsum voru svartir tankar, vatnsgeymar, og sagði leiðsögumaðurinn okkur að þetta væru hús Palestínumanna og þeir væru að safna rigningarvatni. Svo komum við upp í Gólanhæðirnar og þar var verið að safna vatni í dunka. Þá sögðu þeir okkur að Ísraelsmenn teldu sig eiga vatnið, eiga vatnið sem auðlind, og ekki bara vatnið á jörðinni heldur rigninguna líka. Þeir reyndu að bjarga sér með því að safna rigningarvatni en okkur var sagt að Ísraelsmenn vildu skattleggja þá fyrir það og að þeir teldu sig eiga rigningarvatnið líka.

Hliðstæða hluti var ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að reyna að leiða í lög á síðasta ári með vatnalögum þar sem kveðið var á um einkavæðingu á vatni og að vatn yrði háð séreignarrétti. (Gripið fram í.) Um þetta var einmitt deilt. Ákafinn var svo mikill í einkavæðingunni á vatninu að iðnaðarráðherra hafði seilst svo langt inn á verksvið landbúnaðarráðherra að landbúnaðarráðherra ofbauð. Ég minnist þess að hæstv. landbúnaðarráðherra kom af fjöllum í umræðum hér á þingi því að hann hafði ekki lesið þetta umdeildasta lagafrumvarp. Hann kom af fjöllum þegar honum var bent á að verið væri að taka heilu, stóru málaflokkana undan landbúnaðarráðuneytinu þrátt fyrir að fyrir lægju umsagnir. Ég minnist umsagna frá Landgræðslunni og frá Veiðimálastofnun. Ég minnist umsagnar frá veiðimálastjóra. Ég minnist umsagnar frá Landssambandi veiðifélaga. Allir þeir lögðust mjög eindregið gegn því að flytja þessi verkefni frá landbúnaðarráðherra til iðnaðarráðherra. Landbúnaðarráðherra hafði engu að síður ekki gert sér grein fyrir þessu.

Við í stjórnarandstöðunni buðumst strax til þess í fyrra að hjálpa ráðherra til að rétta hlut sinn. En þá fékk hann því ekki framgengt meira að segja vegna andstöðu samráðherra sinna og samflokksráðherra, hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra sem taldi það í hæsta máta eðlilegt að allt vatn í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi færi undir umsjá iðnaðarráðherra. Við lögðum líka áherslu á það í þeirri umræðu að sett yrðu svokölluð vatnsverndarlög, lög um verndun vatns, þ.e. að áður en samþykkt yrðu lög um að allt vatn skyldi heyra undir iðnaðarráðherra þá mundi umhverfisráðherra flytja lagafrumvarp um vatnsvernd. Þá var okkur sagt að þau væru rétt að koma fram, vatnsverndarlög.

Ég minnist þess ekki, frú forseti, að lög um vatnsvernd hafi nokkuð komið fram. Er það misminni hjá mér? Hafa lög um vatnsvernd komið fram? Þó höfum við undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um vatnsvernd, um vernd á vatninu sem auðlind fyrir allt líf á jörðinni. Boðað var að hæstv. umhverfisráðherra væri að koma fram með slíkt lagafrumvarp. En ekkert bólar á slíku enn. (Gripið fram í.) Við sjáum því hvernig staðið hefur verið að þessum málatilbúnaði öllum. Það væri fróðlegt að fá að heyra frá núverandi (Gripið fram í.) umhverfisráðherra hvað lögum um vatnsvernd líði sem hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, lofaði að yrðu flutt hér á síðasta vetri, þ.e. frumvarpi til laga um vatnsvernd.

Ég var sannfærður um eindreginn vilja þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigríðar Önnu Þórðardóttur, til að flytja frumvarp um vatnsvernd eins og umhverfisráðherra bar að gera. En eitthvað hefur gerst þannig að ekki hefur hæstv. ráðherrann fyrrverandi fengið vilja sínum framgengt hvað það varðar og ekki heldur næsti umhverfisráðherra Framsóknarflokksins sem var látinn taka við af henni. Ekki hefur hún komið fram með neitt frumvarp um vatnsvernd. Enn stöndum við í sömu sporum og þá. Ekki hefur á nokkurn hátt verið staðið við loforð um að vatnsverndarlög væru að koma fram.

Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra, ef hún heyrir mál mitt, því nú fer að styttast í þinglok: Hvenær er þess að vænta að vatnsverndarlög komi fram, frumvarp til vatnsverndarlaga? Ég veit að hæstv. forseti sá sem nú er í forsetastóli, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir, lagði mikinn þunga á það í máli í sínu í umræðunni um vatnalögin að frumvarp til laga um vatnsvernd kæmi fram og yrði í raun meðhöndlað og unnið nokkuð samtímis því sem unnið yrði að vatnalögunum. Ekkert bólar á því enn.

Nú erum við þegar farin að draga til baka heilu kaflana í vatnalögunum með því orðalagi að hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra hafi orðið á yfirsjón við afgreiðslu þeirra á sínum tíma og því sé nauðsynlegt að flytja núna frumvarp til að lappa upp á þær yfirsjónir. En í stað þess að taka vatnalögin sjálf og breyta þeim, sem hefði verið eðlilegast, er sá kostur valinn að flytja frumvarp til breytinga á lögum sem heyra undir allt annan ráðherra og eru nánast um allt annað málefni til þess að ná fram breytingum á vatnalögum sem heyra undir iðnaðarráðherra. Allt er þetta nú heldur vandræðalegt (Gripið fram í.) og sýnir hvílíkt ofurkapp fyrrverandi iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins lagði á að ná undir sig öllu vatni. Hún gekk erinda virkjunarsinnanna, stóriðjusinnanna. Hún gekk þeirra erinda að vilja selja vatnið sem auðlind og virtist ekkert heilagt í þeim efnum.

Einnig var flutt hér frumvarp, sem var mjög athyglisvert, þar sem afhenda átti Landsvirkjun vatnsréttindi og land við Búrfell, land sem var meira að segja búið að úrskurða að væri þjóðlenda. Í miðri þjóðlenduumræðunni kom forsætisráðherra, fyrst fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson og flutti málið hér af trúarhita. Ég minnist orðaskipta sem við áttum við hæstv. þáverandi forsætisráðherra. Ég minnist þess að hann var einlægur virkjunarsinni. Hann vildi virkja Jökulsárnar í Skagafirði og fannst það mikil skammsýni hjá þeim sem hér stendur að vilja friða þær. Eins fannst honum eðlilegt að afhenda Landsvirkjun land og vatnsréttindi við Búrfell til eignar, svo hún gæti eignfært það, þ.e. fært það út úr þjóðlendu.

Sá hæstv. forsætisráðherra sem tók við af honum, Geir H. Haarde, flutti svo sama mál fyrr í vetur. Ég minnist orðaskipta sem ég átti þá við hæstv. ráðherra. Honum fannst það líka í hæsta máta eðlilegt að afhenda Landsvirkjun land út úr þjóðlendu og vatnsréttindi til eignar við Búrfell. Ég var ekki sammála. Því lyktaði með því að ríkisstjórnin sá að sér, baðst afsökunar og dró málið til baka. Hún sá hvers konar ógöngur hún var komin í. Svona hefur ríkisstjórnin verið rekin til baka í hverju málinu á fætur öðru sem hefur lotið að einkavæðingu á auðlindinni vatni.

Því hefði verið ástæða til að taka ekki bara út þessi tvö atriði sem eru túlkuð sem yfirsjónir í vatnalagafrumvarpinu heldur endurskoða öll vatnalögin sem ekki eru enn komin til framkvæmda. (HBl: Af hverju flytur þú þá ekki frumvarp um það?) Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Halldóri Blöndal enda hafa þeir flokkar sem munu taka við næstu ríkisstjórn lýst því yfir að þeir muni koma í veg fyrir að þetta frumvarp nái nokkurn tímann fram að ganga. Gildistökuákvæðið var sett 1. nóvember og þá verður búið að skipta um ríkisstjórn. Þeir flokkar hafa lýst því formlega yfir að fái þeir einhverju ráðið verði þessi lög endurskoðuð og þessi ákvæði numin úr gildi.

Frumvarpið sem verið er að flytja hér fjallar um að færa hluta af verkefnum sem færð voru yfir til iðnaðarráðherra með vatnalögunum aftur yfir til baka til landbúnaðarráðherra. Þetta er krókótt leið til að játa á sig þær yfirsjónir sem þar voru gerðar og væri miklu eðlilegra að við tækjum bara upp öll vatnalögin frekar en að vera að flytja frumvarp sem tekur til eins eða örfárra þátta sem mönnum voru mislagðar hendur með.

Frú forseti. Ég vildi bara koma því að að það væri nær að við ræddum hér frumvarp til laga um vatnsvernd. Því var búið að lofa. Því var lýst yfir að það yrði lagt fyrir þingið fyrir ári síðan að mig minnir. En það hefur ekki litið dagsins ljós. Ekki hef ég séð það. Ég veit að þáverandi umhverfisráðherra lýsti því einlæglega yfir að verið væri að vinna að frumvarpi um vatnsvernd. En sjálfsagt hefur hin harða iðnaðar- og nýtingarstefna ríkisstjórnarinnar komið í veg fyrir að það yrði lagt fram. Það finnst mér miður. En það segir kannski allt sem segja þarf um hug og gjörðir ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Þar er hugsað um það eitt hvernig tryggja megi séreignarréttinn á sameiginlegri auðlind en ekki hvernig vernda eigi hana og varðveita og bera fram til næstu kynslóða.

Frú forseti. Þetta frumvarp sem lýtur að breytingum á vatnalögum er því að mínu viti óþarft og það er mjög skondið að það skuli nú koma inn á þingið með þessum hætti.