Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Föstudaginn 16. mars 2007, kl. 18:51:19 (6666)


133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér hefur alltaf fundist þetta mál með Verðlagsstofu skiptaverðs afar furðulegt allt saman. Þetta er sennilega ein afleiðing af kvótakerfinu og ein af bótunum sem verið er að lappa upp á í kringum kvótakerfið og að sjómenn hafa ítrekað verið notaðir til þess að fjármagna af launum sínum leigu eða kaup á kvóta.

Í greinargerðinni segir einmitt að nokkur brögð muni hafa verið að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir sínar í samræmi við gerða samninga um fiskverð og Verðlagsstofa hafi ekki haft nægilega virk úrræði til að bregðast við þegar slík mál hafa komið upp.

Svo koma hér upplýsingar um að þetta séu örfá mál sem komi þarna inn. Ég vil bara ítreka eins og ég gerði í nefndinni og spyrja: Er Verðlagsstofa rétta stofnunin til að sjá um þetta eftirlit? Mér finnst það vera lögreglumál þegar mönnum eru ekki greidd laun.

Ég vil spyrja hv. formann sjávarútvegsnefndar hve mörg lögreglumál hafi orðið. Menn eru teknir í búðum fyrir að stela einni kókflösku og auðvitað er það ólöglegt og á ekki að gera það. En þegar verið er að hýrudraga sjómenn og brjóta þar með á þeim lög eða stela af þeim hluta af launum þeirra, er það ekki lögreglumál?

Ég spyr þess vegna hv. formann sjávarútvegsnefndar: Hve mörg lögreglumál hafa orðið þegar vitnað er í það í (Forseti hringir.) í greinargerð með lögunum að mikil brögð séu að þessu?