133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins.

561. mál
[01:27]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breyting á lögum er varða lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins en það er að finna á þskj. 1207.

Í nefndarálitinu kemur fram hvaða gestir heimsóttu nefndina og einnig að umsagnir hafi borist. Þá er þar lýsing á málinu.

Fram kom í umsögn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um frumvarpið að sú lækkun sem hér sé lögð til hefði þýtt 1,7 milljörðum kr. lægri eignir sjóðsins nú ef reiknað væri með 7,5% viðbótarframlagi í stað 9,5% á árunum 1997–2006. Einnig kom fram að sé einungis litið til iðgjaldagreiðslna á árinu 2006 hefði lægra iðgjald haft í för með sér um 100 millj. kr. lægri eignastöðu sjóðsins og þá samsvarandi hækkun á bakábyrgð ríkissjóðs. Nefndin bendir á að sú hækkun á iðgjaldi vinnuveitenda í lífeyrissjóð sem kveðið er á um í lögum nr. 167/2006 sem öðluðust gildi 1. janúar 2007 var almenn og stafaði annars vegar af auknu langlífi þjóðarinnar og hins vegar af aukinni örorku í þjóðfélaginu. Nefndin telur að eðlilegt hefði verið að fara aðra leið en þá sem hér er lögð til og hvetur til þess að áðurnefnt samkomulag, sem gert var vegna flutnings grunnskólans, verði endurskoðað.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Er annars vegar lagt til að lokamálsliður 1. gr. frumvarpsins falli brott enda er slíkt ákvæði þegar í 1. mgr. 7. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þar sem fram kemur að stjórn sjóðsins setji samþykktir í samræmi við lög sjóðsins og önnur lög um lífeyrissjóði. Hins vegar er lagt til að sá hluti gildistökuákvæðisins sem kveður á um afturvirkni 2. gr. verði í ákvæði til bráðabirgða við frumvarpið enda er um tímabundið ákvæði að ræða. Tilgangur þess er sá að sveitarfélögin fái endurgreitt það sem þau hafa greitt frá áramótum, umfram það sem samið var um á sínum tíma, þ.e. við flutning grunnskólans. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndar eru í álitinu.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ögmundur Jónasson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Undir álitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Katrín Júlíusdóttir, með fyrirvara, Dagný Jónsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara, Kjartan Ólafsson, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.