Heilbrigðisþjónusta

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 13:57:24 (6768)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[13:57]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Allt frá því að þetta frumvarp var fyrst kynnt í haust í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hef ég haft allar efasemdir um að við værum á réttri braut. Ekkert hefur gerst síðan sem hefur fengið mig til að skipta um skoðun, enda geri ég almennt lítið af því. Það er rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að með réttu ætti þetta frumvarp að heita frumvarp um stjórnsýslu í heilbrigðismálum.

Vegna þess hvaða dagur er í dag, lokadagurinn hérna, ætla ég alls ekki að fara að ræða þetta mál efnislega en frekar þá upp á síðari tíma sagnfræði, herra forseti, ætla ég að ítreka þá skoðun mína að ég er á móti þessu frumvarpi og tel að við séum á mjög rangri braut. Efnislega mætti fara ofan í það með einni setningu, þeirri að í nútímastjórnun sem við eigum að leggja mjög mikla áherslu á er gengið út frá því að það sé aldrei brýnna en núna að samhæfa á öllum sviðum faglega og fjárhagslega ábyrgð. Því flóknara sem viðfangsefnið er, þeim mun brýnna er að vel takist til. Flóknasta stjórnunin sem við fáumst við er einmitt á hátæknisjúkrahúsum og þess vegna er það mitt álit, virðulegur forseti, að við ættum að doka hér við og hugsa þetta mál allt öðruvísi en verið er að gera. Efnislega ætla ég ekki að fara ofan í þetta, ég stóð aðeins upp til að ítreka fyrri sjónarmið mín sem flokkssystkinum mínum úr Sjálfstæðisflokknum er mætavel kunnugt. Ég undirstrika að ég hef ekki breytt um skoðun.