Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Laugardaginn 17. mars 2007, kl. 15:22:51 (6785)


133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[15:22]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég skrifa ein samfylkingarmanna í hv. samgöngunefnd undir nefndarálitið með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur að breytingu sem aðrir í nefndinni leggja til og greint er frá í nefndaráliti í 4. lið breytingartillagna, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í síðari málsl. 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að tímabundin áfengisleyfi verði eingöngu gefin út þegar atburður fer fram á stað sem ekki hefur rekstrarleyfi en þó almennt ekki oftar en fjórum sinnum ár hvert vegna sama staðar.“

Aðrir nefndarmenn en ég leggja til að lögð verði til breytingin að í stað þess að hafa fjögur skipti verði þau tólf. Nokkuð var um þetta fjallað í nefndinni. Þetta er kannski ekki stórmál í sjálfu sér og ég get alveg skilið hvaða sjónarmið liggja að baki þess að fjölga skiptunum. Hins vegar finnst mér fullvel í lagt að fara úr fjórum skiptum í tólf og auk þess tel ég að þetta ákvæði eitt og sér með svona mörgum skiptum vinni hreinlega gegn markmiðum laganna, af því þetta eru auðvitað undanþáguákvæði um tímabundið leyfi til þess að halda skemmtun þar sem ekki er viðurkenndur veitingastaður. Ég tel að í raun gangi það gegn hagsmunum þeirra lögaðila sem eiga mestra hagsmuna að gæta samkvæmt þessum lögum.

Ég vildi einungis gera grein fyrir þessum fyrirvara. Hann er ekki stór og hann er minn einvörðungu, en ég vildi gera hann við afgreiðslu frumvarpsins.

Hvað varðar ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, sem er áheyrnarfulltrúi í hv. samgöngunefnd, verð ég nú að segja að við ræddum það atriði ekki mjög mikið í nefndinni. Það kom til tals, en ég skil frumvarpið svo, og þannig var það útskýrt fyrir okkur, að meginreglan skv. 4. gr. frumvarpsins er sú að óheimilt sé að bjóða upp á nektardanssýningar. Það sé óheimilt samkvæmt lögunum.

Síðan er gefin útgönguleið úr því og ég veit alveg hvað hv. þm. Jón Bjarnason er að tala um í því sambandi. Þar sögðu umsagnaraðilar, fyrst og fremst sveitarfélögin sem hafa samkvæmt frumvarpinu neitunarvald sem umsagnaraðilar, það er nóg að þau ein segi nei, eða einn umsagnaraðilanna geri það, þá verður leyfið ekki veitt, en þau sögðu: Það nægir okkur. Ef við viljum ekki þessa starfsemi, þá leyfum við hana ekki. Auðvitað útilokar það ekki það, eins og ég veit að við erum sammála um, ég og hv. þm. Jón Bjarnason, að sé viljinn fyrir hendi þá sé það hægt. En þá held ég að við hefðum kannski átt aðeins fyrr í ferli þessa máls, og ég get alveg tekið þá sök á mig eins og aðrir í nefndinni, að við hefðum þá kannski átt að semja um það breytingartillögu eða fara í umræðu með öðrum hætti en gert var, því það var rétt svona snert á því í nefndinni. Það þyrfti hins vegar og alveg örugglega meiri umræðu og svolitla yfirlegu að banna það með öllu. Væntanlega erum við mjög mörg hér inni sem værum alveg til í að styðja slíka breytingu. Algerlega.

En ég ætla að segja að lokum, af því hv. þm. Jón Bjarnason gerði þetta hér að umræðuefni, að mér finnst ábendingin alveg réttmæt og fullrar skoðunar virði. En við verðum bara að vona að við sem erum þeirrar skoðunar náum saman um að breyta þessu eftir kosningarnar í vor.