Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 16:23:32 (481)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:23]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Á að ræða þessi mál saman eða hvert í sínu lagi? Það kemur mér eins og öðrum sannarlega á óvart að heyra sérstaklega fulltrúa Samfylkingarinnar koma hér upp núna og krefjast þess að þau séu slitin hvert frá öðru við umræðu á hinu háa Alþingi því að það er þessi sama Samfylking sem beinlínis hélt því fram að ekki væri hægt að fjalla um Ríkisútvarpið öðruvísi en að gera það í tengslum við fjölmiðlalögin almennt. Svarið við því hvort ræða eigi þessi mál saman eða hvert í sínu lagi fer eiginlega eftir því hvort því er svarað að vori eða hausti þegar Samfylkingin á í hlut.

Við skulum hafa það í huga að fjölmiðlanefnd starfaði og skilaði tillögum til hæstv. ráðherra sem fjölmiðlafrumvarpið byggir á og þar er þverpólitísk samstaða. Í þeirri umræðu og þeim mörgu umræðum sem hafa farið fram á Alþingi um fjölmiðlamál og um Ríkisútvarpið hefur því einmitt verið haldið fram að mikilvægt sé að ræða um hlutverk Ríkisútvarpsins sem hins eina ríkisfjölmiðils í tengslum við þetta allt saman. Þess vegna er það mjög eðlilegt í alla staði, virðulegi forseti, að þessi mál séu rædd saman, bæði vegna sögunnar, vegna þeirra óska og krafna sem áður komu fram og vegna þeirrar stöðu sem þau eru í núna er eðlilegt að sú umræða verði sameiginleg í þinginu. Innan menntamálanefndar að sjálfsögðu og við lok atkvæðagreiðslu verða þau afgreidd hvert um sig, eins og svo oft hefur verið gert hér í sölum Alþingis.

Ég tel því eðlilegt, virðulegi forseti, að við förum að snúa okkur að því sem er efni dagsins, að ræða um fjölmiðlafrumvarpið, Ríkisútvarpið og Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem er auðvitað tengd Ríkisútvarpinu í dag, og við snúum okkur að þeirri umræðu. Hvort það gerist í illdeilum eða ekki — ég geri mikinn greinarmun á því hvort um illdeilur er að ræða eða skoðanaskipti. Ég á seint von á því að almenn samstaða verði um málið. En við þurfum að hafa þann þroska að geta rætt það og komist að einhverri niðurstöðu en ekki að eyða tímanum í að (Gripið fram í.) ræða um form frekar en innihald.