Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 16:48:15 (491)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ekki hef ég tekið orðið málþóf mér í munn. Ég er ekki einn um það í stjórnarandstöðunni að boða baráttu gegn þessu stjórnarfrumvarpi, við tökum þar undir raddir víðs vegar um þjóðfélagið, nú síðast frá Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins.

Hér hafa verið látin falla mjög þung orð í garð stjórnarandstöðunnar á Alþingi. Það hefur verið talað um að hún hafi slegið á útrétta sáttarhönd. (Gripið fram í: Verið rifin af.) Hún hafi jafnvel verið rifin af sú hönd, og þar vísa ég til orða hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hann er formaður menntamálanefndar Alþingis og var helsti talsmaður þessa frumvarps við fyrri umræður. Hann hafði uppi miklar heitstrengingar um að til stæði að styrkja Ríkisútvarpið og aldrei hvarflaði það að nokkrum manni að selja það hér á ríkisstjórnarbekknum. Á sama tíma hefur hann flutt frumvarp á Alþingi um að leggja Ríkisútvarpið niður.

Er að undra að við í stjórnarandstöðunni viljum vera varkár í samskiptum við stjórnarmeirihluta sem talar svona tveimur tungum? Er það undarlegt? Er það undarlegt að við viljum vanda til þess hvernig þessi umræða fer fram? Eru það ekki sanngirnisrök og eðlileg rök að óska eftir því að fyrst fari fram umræða um grundvöll löggjafarinnar, lög sem taka á fjölmiðlaumhverfinu almennt, og síðan verði rædd hin sértæku lög. Er það annað en sanngirniskrafa að saman verði rædd þau frumvörp sem lúta að Ríkisútvarpinu?

Hér liggja fyrir fleiri en eitt frumvarp um Ríkisútvarpið. Þegar litið er lengra aftur í tímann hafa allir flokkar á þingi (MÁ: Ekki Framsókn.) flutt mál sem snúa að Ríkisútvarpinu. Ekki Framsókn, segir hv. þm. Mörður Árnason. Það er dapurleg saga sem verður rifjuð rækilega upp hér við umræðuna. Því get ég lofað mönnum.

Hæstv. forseti. Mér finnst við hafa fært fram efnisleg rök fyrir því að saman fari umræða um það frumvarp sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram og frumvarp ríkisstjórnarinnar og að þessi frumvörp fari samhliða út til umsagnar og þegar gestir koma fyrir menntamálanefnd og hugsanlega aðrar nefndir sem koma til með að fjalla um málið verði tekið á þessum málum samhliða. Mér finnst þetta vera efnisleg rök (Forseti hringir.) og mér finnst þau vera sanngjörn.