Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 17:20:32 (500)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:20]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enda er ég ekki að mæla fyrir því að útvarpið verði tekið af auglýsingamarkaði. Það er sanngirnismál gagnvart einkareknu fjölmiðlunum að umfang þess á auglýsingamarkaði verði takmarkað. Algjört grundvallaratriði. Það er eitt af því sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu mína að málið er í sjálfu sér lítið breytt. Komin er önnur útgáfa af hlutafélagi. Áfram stendur hæstv. menntamálaráðherra hér án þess að geta útskýrt það fyrir þingheimi af hverju það er svona mikilvægt að hlutafélagavæða útvarpið. Af hverju er ekki þrengt að hlutdeild þess á auglýsingamarkaði? Af hverju er versta leiðin til fjármögnunar valin, sem er nefskattur? Af hverju er versta leiðin valin?

Það sem skiptir mestu máli er að inntak hins nýja almannaútvarps nýrra tíma er ekki skilgreint þarna með neinum boðlegum hætti þótt stigin séu skref í rétta átt. Þess vegna segi ég: Málið er að þessu leyti jafnhrátt og það var á síðasta þingi og þarsíðasta og veldur því djúpstæðum vonbrigðum, virðulegi forseti.