Ríkisútvarpið ohf.

Mánudaginn 16. október 2006, kl. 17:26:28 (505)


133. löggjafarþing — 12. fundur,  16. okt. 2006.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:26]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór með vitlaust mál. Það voru ekki tíu klukkustundir heldur átta klukkustundir sem hv. þingmaður hefur talað um þetta mál. Ég segi það enn og aftur. Það er ekkert nýtt í máli hv. þingmanns í málinu. Hann hefur flutt málefnalegar umræður hér. (Gripið fram í.) En það er ekkert nýtt annað heldur en að sá fræjum tortryggni.

Það er nú einu sinni þannig, herra forseti, og verið er að vísa til Norðurlandanna. Í Noregi er hlutafélag, í Svíþjóð er hlutafélag. Hvað hefur verið gert? Hefur ríkið sett það á markað? Að sjálfsögðu ekki. (ÖJ: Hvað með Danmörku?) Menn sjá tækifærin í að breyta Ríkisútvarpinu þar í hlutafélag. Hv. þingmaður talar um Danmörku. Ég vil geta þess að Svíar byrjuðu með sjálfseignarstofnun en voru fljótir að breyta því yfir í hlutafélag af því það er virkara form á markaðnum. Það er virkara form á þeim síbreytilega markaði sem fjölmiðlamarkaðurinn er. Við verðum að veita Ríkisútvarpinu sömu tækifæri til að vinna að á þessum markaði (Forseti hringir.) og aðrir fjölmiðlar gera. (ÖJ: Það er allt önnur staða …) (Forseti hringir.)