Lífeyrissjóðir

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 17:07:17 (1028)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

lífeyrissjóðir.

233. mál
[17:07]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um hækkun á iðgjaldi í lífeyrissjóð um 2%. Fyrir meðaljón í ASÍ sem er með 300 þús. kr. tekjur á mánuði eru þetta 6 þús. kr. á mánuði eða 72 þús. kr. á ári sem við erum að tala um, ekki smápeningar. Þetta eru samanlagt um 11 milljarðar á allan landslýð í aukningu á útgjöldum til lífeyrissjóðanna.

Að einu leyti er ástæðan í sjálfu sér ánægjuleg þar sem 1% hækkunarinnar er vegna aukins langlífis þjóðarinnar og allir vilja jú verða gamlir þótt kannski vilji ekki margir vera gamlir. Menn telja eftirsóknarvert að langlífi aukist. Hitt prósentið er vegna aukinnar örorku í þjóðfélaginu sem er hins vegar ekki eins gott, hvorki fyrir þá sem eru öryrkjar né fyrir þjóðfélagið.

Ég sakna þess að lífeyrissjóðirnir og verkalýðshreyfingin hafi ekki skoðað aðrar leiðir til að lækka þennan kostnað. Það er ljóst að þó að atvinnurekendur greiði gjald eins og tryggingagjaldið þá er það í rauninni launþeginn sem greiðir það því að hækka mætti öll laun í landinu sem því nemur og láta launþega greiða það sjálfa án þess að nokkur yrði var við neitt. Það kæmi nákvæmlega eins út og hið sama á við um tryggingagjaldið. Þetta er því mjög mikið hagsmunamál fyrir launþega og ég sakna þess að menn hafi ekki skoðað aðrar leiðir.

Ellilífeyrir og ellilífeyrismörkin voru ákveðin fyrir langa löngu, eitthvað um 1930. Þau voru þá ákveðin við 67 ára aldur, að þá mættu menn fara á eftirlaun og væru þá búnir að skila starfævi sinni. Síðan þá hefur meðalævin lengst allverulega. Ég hygg að á þeim árum hafi það farið nálægt væntum meðalaldri Íslendinga, þess sem menn gátu vænst, sem nú er kominn í um 85 ár. Ég sakna þess að menn hafi ekki skoðað þá leið að hækka þessi mörk og leyfa þeim sem þess óska að vinna. Ég tek það sérstaklega fram að þeir sem þess óska ættu að eiga þess kost, til að það verði ekki mistúlkað. Þeir sem hafa gaman af því að vera í vinnunni, sem eru sem betur fer margir, og njóta þar félagsskapar — vinnan er félagslegt atriði — megi vinna lengur og þannig sé létt á lífeyrissjóðunum. Ég sakna þess að menn skuli ekki hafa skoðað þá leið að einhverju leyti að nýta vinnugetu og reynslu eldri borgara. Þeir eru margir hverjir mjög sprækir. Hins vegar þyrfti kannski að gera ráðstafanir til að þeir geti minnkað vinnuframlagið, unnið styttra á hverjum degi, tekið lengri sumar- eða vetrarfrí o.s.frv.

Varðandi öryrkjana, það prósent sem fer til aukinnar örorku, þá er það nokkuð sem ætti að vera sameiginlegt baráttumál allra, að örorkubyrði minnki, jafnt öryrkja sem hinna vinnandi. Ég vil að menn fari, í stað þess að líta á vangetu manna, að skoða getu manna til að vinna, þ.e. skoða hvað getur öryrkinn unnið og reyna að rækta þann eiginleika, rækta þann hæfileika með endurhæfingu og endurmenntun og láta það hafa algjöran forgang að fólk sé hvatt til að halda áfram tengslum við atvinnulífið og stunda vinnu eða nýta þá hæfileika sem hver og einn hefur þrátt fyrir fötlun. Þetta vil ég að lögð verði áhersla á.

Það væri til hagsbóta fyrir öryrkjana. Það vill enginn vera öryrki. Örorkunni fylgir ákveðin einangrun sem er slæm fyrir öryrkjann. Ég legg áherslu á að menn reyni frekar að skoða hvort ekki megi horfa frekar á getu manna og reyna að lækka þennan kostnað. Eins og ég gat um áðan vill enginn verða öryrki og þetta er slæmt fyrir öryrkjana og slæmt fyrir þjóðfélagið hve mikið öryrkjum hefur fjölgað.