Opinber innkaup

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 17:33:33 (1033)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

opinber innkaup.

277. mál
[17:33]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Já, það má eflaust hugsa sér þjónustusamninga sem tæki til þess að halda utan um þá þjónustu sem hjúkrunarheimilin veita. En þeir eru hins vegar ekki eina tækið sem hægt er að nota í þeim tilgangi. Til dæmis hefur verið haft annað lag á hjá heilbrigðisráðuneytinu sem felst í því að áður en til framkvæmda hefur komið þar sem hið opinbera hefur komið að eða áður en farið er að greiða daggjöld fyrir þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilunum þarf að koma til sérstök leyfisveiting og síðan hefur verið komið upp sérstöku gæðaeftirlitskerfi með þeirri þjónustu sem þarna er verið að veita og skilgreiningar á því hvaða þjónustu á að veita. Þeir aðilar sem að þessu koma eiga að vita að hverju þeir ganga og eftir því sem ég best veit er verið að þróa enn frekar þetta gæðaeftirlitskerfi hjá heilbrigðisráðuneytinu til þess að það verði enn tryggara en áður að verið sé að veita þá þjónustu sem til er ætlast og í samræmi við þá fjármuni sem verið er að veita til málsins.

Það er oft og tíðum fleiri en ein leið að sama markmiðinu og ég trúi því að hv. þingmaður sé í rauninni að tala um sama markmið og ráðuneytið er að reyna að ná þó að menn geti síðan greint á um hvaða leið sé heppilegust í hverju tilfelli.