Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 17:35:42 (1034)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[17:35]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar í takt við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í júní síðastliðnum til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga ásamt fleiri breytingum.

Fyrsta má nefna að lagt er til að frá og með 1. janúar 2007 lækki tekjuskattur einstaklinga um 1% í stað 2% lækkunar sem áður var fyrirhuguð, þ.e. úr 23,75% í 22,75%. Er þessi tillaga í samræmi við áðurnefnda yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og er hluti af aðgerðum sem ætlað er að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. Verði frumvarpið að lögum kemur breytingin til framkvæmda við staðgreiðslu á næsta ári og við endanlega álagningu tekjuskatts á árinu 2008 vegna tekna á árinu 2007.

Þá er í öðru lagi lögð til breyting á aldursmarki barnabóta. Er sú tillaga einnig í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að „um næstu áramót verði teknar upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs“. Þessi breyting kemur til viðbótar við áður ákveðna 25% hækkun skerðingarmarka barnabóta og lækkun skerðingarhlutfalla. Áætlað er að greiðslur barnabóta muni aukast um 500 til 600 millj. kr. verði frumvarpið að lögum. Þá er til samræmis lagt til í frumvarpinu að aldursmark ívilnunar vegna útgjalda til menntunar barna verði hækkað í 18 ár.

Í þriðja lagi er lögð til hækkun á persónuafslætti, sjómannaafslætti og vaxtabótum frá 1. janúar 2007. Verði frumvarpið að lögum mun persónuafsláttur einstaklinga hækka úr 356.180 kr. í 385.800 kr. á ári. Með þessari hækkun, og breytingu tekjuskatthlutfalls, hækka skattleysismörk einstaklinga úr 79 þús. kr. í 90 þús. kr. á mánuði, eða um 14%. Fjárhæð sjómannaafsláttar mun hækka um 6%, þ.e. úr 787 kr. í 834 kr. á dag og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta munu hækka um 6%. Er það í samræmi við áætlaðar launahækkanir á almennum vinnumarkaði á miðju þessu ári og í byrjun næsta árs. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs vegna hækkunar viðmiðunarfjárhæða vaxtabóta verði um 350 millj. kr.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að persónuafsláttur verði endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008, og breytist fjárhæð hans þannig í samræmi við breytingar á gildandi vísitölu neysluverðs síðastliðinna tólf mánaða.

Þá er í fimmta lagi lagt til með frumvarpinu að undanþegnar verði frá skattskyldu leigugreiðslur til erlendra leigusala sem eru heimilisfastir eða reka fasta starfsstöð erlendis vegna tekna af leigu loftfara og skipa sem notuð eru til flutninga á alþjóðaleiðum. Hluti flugvéla í rekstri íslenskra flugfélaga er ekki í eigu þeirra heldur á leigu frá erlendum leigusölum. Hinir erlendu leigusalar leigja flugvélakostinn út frá starfsstöðvum víðs vegar um heim og rekur enginn þeirra eiginlega flugstarfsemi á Íslandi. Sú breyting sem hér er lögð til mun enga tekjuskerðingu hafa í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem slíkar leigugreiðslur hafa hingað til ekki verið skattlagðar og það sem ræður úrslitum um skattskylduna er staðsetning starfsstöðvarinnar.

Í sjötta lagi er með frumvarpinu lagt til að styrkir sem foreldrar eða forráðamenn barns fá frá sveitarfélagi til að annast barn heima verði undanþegnir skattskyldu. Undanþágunni er ætlað að taka til greiðslna frá því er fæðingarorlofi lýkur og allt til þess er leikskólavistun eða grunnskólanám hefst. Niðurgreiðslur sveitarfélaga á leikskólagjöldum og daggreiðslugjöldum í heimahúsum eru ekki skattskyldar hjá foreldrum eða forráðamönnum barna. Með tilliti til jafnræðis er því lagt til að framangreindir styrkir verði ekki taldir til skattskyldra tekna.

Í sjöunda lagi er með frumvarpinu lagt til að arður sem úthlutað er á milli aðila sem samskattaðir eru skv. 55. gr. laganna verði undanþeginn staðgreiðslu. Arður er frádráttarbær frá tekjum félaga og kemur því ekki til skattlagningar í álagningu.

Að lokum er í áttunda lagi lagt til að það skilyrði arðsfrádráttar frá tekjum af atvinnurekstri hlutafélaga sem skráð eru erlendis, að skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD), taki einnig til aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Þykir það eðlilegt með tilliti til jafnræðis þar sem Eistland, Kýpur, Liechtenstein, Litháen, Malta og Slóvenía eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu en ekki Efnahags- og framfarastofnunin í París.

Frú forseti. Ég legg til að að aflokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr.