Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 18:36:35 (1046)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka hið síðara fyrst. Við höfum reyndar verið talsmenn þess að sveitarfélögin fengju hlutdeild í breiðari tekjustofnum. Það stendur í sveitarstjórnarstefnu okkar. Þar gæti fjármagnstekjuskattur eða veltuskattar vissulega komið inn til að draga úr mismun á tekjudreifingu og tekjustreymi til sveitarfélaga og ríkis. Það er ekki hollt að þar sé mikið ójafnvægi.

Varðandi hið fyrra sem hv. þingmaður spurði um, ummæli þingflokksformanns Vinstri grænna, Ögmundar Jónassonar, þá verður hv. þm. Björn Ingi Hrafnsson að temja sér, ef hann ætlar að spyrja menn út í afstöðu til ummæla annarra, að fara þá rétt með þau. Hefur hann einhvers staðar heyrt eða séð Ögmund Jónasson segja að hann vilji helst koma viðskiptabönkunum úr landi? Þau orð hafði hv. þingmaður hér í ræðupúltinu. Það hefur Ögmundur Jónasson ekki sagt. Ögmundur Jónasson hvatti viðskiptabankana og fjármálamenn til þess að sýna hóf. Það er annað mál. Hann sagði að ef þeir ekki gerðu það og vildu ekki vera í einhverju samræmi við íslenskan veruleika þá yrði að hafa það þó að þeir færu úr landi. Hann sagði að ekki ætti að láta hvað sem er eftir þeim. Það var það sem hv. þingmaður var að segja.

Ætli það sé nú ekki býsna stór hluti þjóðarinnar sammála því, ef rétt er vitnað í Ögmund Jónasson, og það eigi eftir að koma á daginn að stór hluti þjóðarinnar sé sammála honum en ekki hv. þm. Birni Inga Hrafnssyni, a.m.k. ekki útúrsnúningum hans. Menn verða að kunna sér hóf. Það þýðir ekki fyrir þá að setja sig upp á móti öllum hugmyndum um að þeir leggi sitt af mörkum til íslensks samfélags, m.a. í formi hóflegra skattgreiðslna. Hér er t.d. brugðist við hugmyndum okkar um að álagningu fjármagnstekjuskatts verði breytt. Þeir aðilar hafa sett sig upp á móti því og vilja ekki leggja meira af mörkum til íslensks samfélags en þeir gera, þrátt fyrir hina gríðarlega góðu afkomu sem þeir búa við. Við vitum hver launakjör þeir hafa skammtað sér (Forseti hringir.) í þeim geira o.s.frv. Ætli það sé mikið að því að segja að þeir eigi að kunna sér hóf?