Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 18:38:53 (1047)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:38]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gallinn er sá að í þessum ívitnuðu ummælum sagði hv. þingmaður ekki að bankarnir ættu eitthvað sérstaklega að gæta hófs. Hann tók m.a. afstöðu til þeirrar hugmyndar hvort best væri, til að auka á tekjujöfnuðinn í samfélaginu, að þeir færu úr landi. Ég vek athygli hv. þingmanns á að þetta hefur verið umtalað nokkuð í fjölmiðlum síðan þau orð voru viðhöfð. Það eru þá ansi margir sem hafa misskilið það. Ef maður rýnir í málflutning hv. þingmanns þá jaðrar við að hann taki undir það, sem mér finnst að vísu mikið umhugsunarefni. En látum það vera.

Staðreyndin er sú að fjármálastofnanirnar okkar, sem hafa eflst mjög að burðum, m.a. út af hinni svokölluðu útrás, greiða miklu meira til samfélagsins en jafnvel bjartsýnustu menn óraði fyrir hér fyrir fáum árum. Tekjur þeirra af fjárfestingum, hvort sem er í Bretlandi eða Skandinavíu, skila sér í skatttekjum til íslenska ríkisins. Það var upplýst í síðustu viku að KB-banki greiðir meira en Fjársýsla ríkisins, 6–7 milljarða kr. í tekjuskatt. Bara það að hann færði hluthöfum sínum einhvern tiltekinn eignarhlut í öðru fyrirtæki, Exista held ég að það hafi heitið, færði ríkissjóði meira en 2 milljarða kr. í fjármagnstekjuskatt fyrir einhverjum þremur vikum síðan, 2 milljarða sem ég er viss um að hæstv. fjármálaráðherra hefur hvergi gert ráð fyrir í sínum áætlunum. Hann upplýsir örugglega á eftir hvernig hann ætlar að koma því fyrir, vonandi með ráðdeildina að leiðarljósi.

Allt sýnir þetta, hv. þingmaður, að tekjur okkar af þessari starfsemi eru meiri en ráð var fyrir gert. Ég get ekki fallist á það sjónarmið að þessir aðilar kunni sér ekki hóf og tali með þeim hætti að þeir vilji ekki vera hluti af okkar siðaða samfélagi. Ég hef ekki orðið var við þau sjónarmið. Ég mundi helst vilja hrinda í framkvæmd áformum um að Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð til að við getum fengið fleiri slíka aðila hingað til lands.