Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 18:40:59 (1048)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einfaldast að ræða þetta út frá grundvallaratriðum þessa máls og grundvallarstefnu flokka í þessum efnum. Hver er grundvallarstefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað þetta varðar? Hún er sú að skattlagning, bæði tekjuhárra einstaklinga, sem þess vegna gætu þá flúið land ef þeir sætta sig ekki við sín kjör, og fyrirtækja sem eru í alþjóðlegum rekstri og umsvifum vítt og breitt verði að vera samkeppnisfær. Við höfum aldrei talað fyrir því að Ísland fari með skatta upp fyrir það sem er hliðstætt við nágrannalöndin.

Það sem við gagnrýnum hins vegar eru sérstakar niðurgreiðslur og að hér séu búnar til nánast skattasmugur og að það megi ekki einu sinni ræða það að breyta álagningu fjármagnstekjuskatts þannig að hún sé í meira samræmi við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Veruleikinn er sá að við erum með einhverja allra lægstu skattlagningu á fjármagnsgróða sem þekkist innan OECD. Það er veruleikinn.

Þótt frumvarp okkar, um það að taka upp frítekjumark í fjármagnstekjuskatti og síðan hærri prósentu á hærri tekjur, næði fram að ganga væri skattlagning slíkra tekna enn hófleg á Íslandi. Það er okkar stefna. Við þurfum að sjálfsögðu samkeppnisfært umhverfi að þessu leyti því að auðvitað bera menn saman skattakjör eins og margt fleira þegar starfsumhverfi fyrirtækja í hnattvæddum heimi viðskipta er skoðað.

En að við eigum að fara að elta einhverjar Karíbahafseyjar og búa til lágskattasmugur til að halda rekstri í landinu eða lokka til okkar aðra erum við ekki tilbúin að gera, enda gengur öll alþjóðleg viðleitni út á að loka slíkum smugum. Ætlar Ísland þá að verða ein slík úti í Norður-Atlantshafi?

Svo segi ég við hv. þingmann að lokum, sem er ekki seinna vænna en menn fari að átta sig í: Í vissum tilvikum verður ekki bæði sleppt og haldið. Við verðum að átta okkur á því hvernig samfélag við ætlum að hafa í landinu. Á það að vera öflugt, samábyrgt velferðarsamfélag með traustum tekjustofnum undir samneyslunni (Forseti hringir.) eða á það að vera eitthvað annað?