Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 18:43:13 (1049)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta hafa verið athyglisverðar umræður og málefnalegar að mestu eins og oftast. Ég verð því miður að hverfa af vettvangi þar sem ég þarf á fundi vegna prófkjörs. En ég get ekki farið úr salnum án þess að leiðrétta það sem fram kom í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Það eru þrjú atriði.

Í fyrsta lagi sagði hún að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti og vörugjaldi til þess að lækka matarverð væru kosningavíxill. Af langtímaáætlun sem fylgir fjárlagafrumvarpinu er ljóst að ríkissjóður getur vel staðið undir þessum skattalækkunum og þolir að missa þessar tekjur til hagsbóta fyrir neytendur.

Í öðru lagi vísaði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir til þess að skattleysismörk sem færu upp í 90 þús. kr. um næstu áramót væru mun lægri en þau hefðu verið 1995 þegar núverandi ríkisstjórn kom til valda og hún og hennar flokkur fóru úr ríkisstjórn. Hún nefndi að þau hefðu verið 130 þús. kr. Þetta er rangt hjá henni því að þessar 130 þús. kr. sem þar er verið að miða við eru frá því 1988 og mesta lækkunin á persónuafslættinum og skattleysismörkunum varð í þá tíð að hún sat í ríkisstjórn og hennar flokkur. (GAK: Og þið.) Nei, ekki við.

Hins vegar var það þannig 1995 þegar Jóhanna Sigurðardóttir og hennar flokkur fór úr ríkisstjórninni að þá voru skattleysismörkin tæplega 90 þús. að raungildi miðað daginn í dag. Þannig verða skattleysismörkin um áramótin hin sömu og þau voru 1995. Það hefur auðvitað heilmikið gerst á þeim tíma. Hagvöxtur hefur verið mikill og kaupmáttur aukist og skattprósentur lækkað gríðarlega mikið þannig að út frá því má sjá að skattbyrðin er miklu lægri nú en hún var þá.

Í þriðja lagi nefndi hún barnabæturnar, að þær væru lágar í dag og yrðu lágar á næsta ári. Ef við reiknum það hins vegar verða barnabæturnar að raungildi á næsta ári, þegar þær hækkanir sem ég var að ræða um áðan verða komnar til framkvæmda, hærri heldur en þær hafa verið nokkru sinni á tímabilinu frá 1991. Ég hef ekki tölur lengra aftur í tímann. En frá 1991 hafa þær ekki verið hærri. Þær voru hæstar á árinu 1991 en verða hærri á næsta ári en þær voru þá og umtalsvert hærri að raungildi heldur en þær voru 1995 þegar Jóhanna Sigurðardóttir og hennar flokkur fóru úr ríkisstjórn.

Ég vona að umræðan geti haldið áfram, hvort sem hún klárast eða ekki. En við munum örugglega fá tækifæri til að ræða þessi mál frekar í vetur. Ég þakka fyrir málefnalega umræðu.