Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 18:59:12 (1053)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[18:59]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður getum vel verið sammála um þau tvö atriði sem hún nefndi síðast og um það sé ekki neinn ágreiningur.

Spurningin lýtur hins vegar að þessu bili sem ég hef áður nefnt milli þess að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á leikskóla. Við megum ekki gleyma því að það hefur orðið ákveðin grundvallarbreyting í þeim efnum. Börn komast miklu fyrr á leikskóla en áður. Hin almenna regla í Reykjavíkurborg, þar sem ég þekki best til, eru 18 mánuðir, og við ætlum að lækka það enn frekar vegna þess að nú eru ekki lengur fyrir hendi biðlistar á því sviði.

Ekki langt er síðan borgarstjórn Reykjavíkur ákvað samhljóða að lækka leikskólagjöld um 25%. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þessar tillögur um fjölskyldugreiðslur — þetta kveður ekki beinlínis um það, heldur kveður á um skattfrelsi slíkra greiðslna, sem ég held að sé algert lykilatriði til að sveitarfélögin ráðist í þær. Sveitarfélögin hafa hvorki burði né áhuga á að færa fjármagn eitthvað sérstaklega til ríkissjóðs með slíkum greiðslum og þess vegna var þetta algjört grundvallaratriði og ég ætla reyndar í ræðu á eftir að fagna þessu alveg sérstaklega.

Hins vegar er það þannig að í þeim sveitarfélögum þar sem þetta hefur þegar verið ákveðið, t.d. í Kópavogi, var samstaða um þetta meðal meiri hluta og minni hluta. Þegar forráðamenn meiri hlutans í Kópavogi kynntu þetta mál á bæjarráðsfundi stendur bókað í fundargerð að fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði hafi sérstaklega óskað eftir því að fá að vera meðflutningsmaður að tillögunni. Um þetta virðist því vera nokkuð breið pólitísk samstaða þegar að er gáð.