Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 19:15:47 (1057)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:15]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hvergi nokkurs staðar lagt til að laun verði lækkuð. Aldrei nokkurn tíma. Laun hafa hækkað á Íslandi og mér þykir það bara fínt. Laun hafa hækkað miklu meira hér á landi en nokkurs staðar annars staðar og það þykir mér mjög gott. Ég held nefnilega að sú stefna ríkisstjórnarinnar að taka upp algilda skatta hafi leitt til þess að laun hafa hækkað.

Hins vegar er ákveðinn launamunur í þjóðfélaginu og hann stafar af ýmsum náttúrulegum ástæðum. Til dæmis verður fólk sem er með menntun að fá hærri laun en þeir sem eru ómenntaðir vegna þess að það þarf að borga menntunina, fjárfestinguna til baka. Þeir sem eru duglegir fá borgað fyrir það, af því þeir eru duglegir. Sjómenn sem afla mikið fá jafnvel tvöfalt hærri laun en aðrir sjómenn sem afla lítið. Það þykir eðlilegt. Þeir sem vinna uppi á hálendinu vilja fá borgað fyrir að geta ekki skroppið í bíó og vera fjarri fjölskyldum sínum.

Það er ákveðinn eðlilegur launamunur í þjóðfélaginu. Þegar reynt er að skatta hann burtu þá eykst launamunurinn fyrir skatta. Ég held því fram að þegar skattar eru lækkaðir, þegar hátekjuskatturinn er felldur niður, þá munu margir sem voru með há laun sætta sig við lægri laun. Til dæmis hafa þeir sem fengið hafa launatilboð erlendis frá, sérfræðingar og aðrir, komið til landsins af því að skattarnir voru lægri. Þetta hefur áhrif á svo margt.

Mér finnst að samspil launa og skatta eigi að vera miklu greinilegra, að þegar skattarnir eru lækkaðir í prósentum þá eigi hæstu laun ekki að þurfa að hækka eins mikið, það liggur í hlutarins eðli, eins og lægstu laun. Þetta er það sem ég held að verkalýðshreyfingin hafi verið að gera í sumar með 15 þús. kr. hækkuninni til lægstu launanna, það var einmitt að mæta þeirri breytingu sem hefur orðið. Síðan geta menn deilt um hvort launamisrétti sé orðið of mikið, hvort hátekjustörf séu orðin of mörg og hvort gott sé að slík störf fari úr landi. Það finnst mér hins vegar ekki gott.