Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 19:25:32 (1059)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:25]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er hvorki staður né stund til að efna til málfundar um skattastefnu Vinstri grænna né þær ógöngur sem stóriðjustefnan hefur leitt þjóðina í.

En ég vil spyrja hv. þm. Björn Inga Hrafnsson, vegna þess að hann nefndi í andsvörum fyrr í umræðunni að greiðslur sveitarfélagsins sem um er að ræða í 2. gr. frumvarpsins, mætti fólk gjarnan nota til að kaupa einhvern til þess að gæta barnanna, t.d. afa og ömmur eða einhverja aðra:

Óttast formaður borgarráðs Reykjavíkur og formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar ekki að þessi orð hans hvetji til þess að þessi leið verði til þess, ekki bara að draga úr þörf fyrir leikskólapláss og fela biðlista heldur til að grafa undan leikskólakerfinu sem slíku, með því að hægt verði að smala saman börnum úr tilteknum fjölskyldum, hverfum eða hópum og fá fólk til að gæta þeirra á þeim lúsarlaunum sem þarna er um að ræða, 30–40 þús. kr. á mánuði?