Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 19:27:01 (1060)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:27]
Hlusta

Björn Ingi Hrafnsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er nei. Ég held að það hljóti að gæta ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni. Ég og margir aðrir höfum margoft talað fyrir þessu og það hefur aldrei nokkur maður bent á þessa hættu áður. Staðreyndin er sú að ef fjölskyldugreiðslur væru á bilinu 40–50 þús. þá er það svipað og sveitarfélögin nota núna til að niðurgreiða þjónustu dagforeldra.

Gallinn er bara sá að þeir eru allt of fáir. Ég vil leita allra leiða til að fjölga þeim. Það eru mjög margir á biðlista eftir þjónustu dagforeldra. Samningarnir við þá hafa verið endurskoðaðir ítrekað. Það er verið að reyna að gera betur við þá en áður. Hins vegar er ástæða þess að dagforeldrum hefur fækkað eða gengið erfiðlega að fá fólk í þau störf að stórum hluta til vegna breytinga sem voru gerðar af hálfu hins opinbera, t.d. að því er varðar ýmis skilyrði sem dagforeldrar þurfa að uppfylla, sem leiðir til þess að þeir geta ekki haft jafnmörg börn og áður. Það skerðir auðvitað tekjumöguleika dagforeldra, svo sú hlið snúi upp í málinu, og hefur orðið til vandkvæða.

Ég hef hins vegar ekki áhyggjur af því að þessi leið verði farin vegna þess að lausnin yrði valkvæð. Foreldrar geta notað þetta til að vera heima, geta fengið einhverja nákomna aðila til að sjá um barnið og þegar hv. þingmaður talar um einhverja aðila úti í bæ, þá eru þeir aðilar auðvitað til í dag. Margir nota þjónustu dagforeldra. Aðrir nota þjónustu au pair eða skiptinema. Enn aðrir geta notað þetta til beinnar niðurgreiðslu hjá dagforeldrum þannig að ég hef ekki óttast að þessi möguleiki yrði fyrir valinu og hef reyndar aldrei heyrt það sjónarmið áður og hefur nú talsvert verið fjallað um þetta á opinberum vettvangi.