Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 19:28:54 (1061)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:28]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki varð mér rórra við þessa ræðu hv. þingmanns. Það, að gefa upp boltann eins og hann gerir, með að fólk geti notað þessar greiðslur til að kaupa — hann segir nákomna ættingja, hver á að fylgjast með því? — eftirlit með börnum. Það er gerólíkt því góða leikskólakerfi, sem svo sannarlega hefur verið í uppbyggingu hér í Reykjavík og víðar um land, og eins kerfi dagforeldra sem svo sannarlega lýtur mjög ströngum eftirlitsreglum. Það er mjög ólíkt þessum kerfum báðum að fá einhvern til að gæta barna fyrir, hann segir 40–50 þús. kr. á mánuði.

Það kann vel að vera að þetta atriði hafi ekki komið inn í þessa umræðu áður. Það er þá kannski vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki áður orðað þá hugsun sína að þetta væru ekki greiðslur beint til foreldra eða mæðra, sem ég vil fullyrða að verði, heldur megi nota þær til annars.

Ég vil fullyrða að gott leikskólakerfi gerir börnunum okkar mjög gott. Það hefur sýnt sig að börn sem koma úr leikskólunum inn í grunnskólana standa betur að vígi en þau sem ekki hafa getað notið leikskólavistar. Þess vegna óttast ég ekki aðeins að verið sé að senda konur í þessar mömmugildrur sem ég nefndi, heldur að með þessu sé verið að grafa undan því góða leikskólakerfi sem við höfum.