Tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Mánudaginn 06. nóvember 2006, kl. 19:52:46 (1064)


133. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2006.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

276. mál
[19:52]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil gera athugasemdir við í ræðu hv. þingmanns. Í fyrsta lagi sagði hann að skattar hafi hækkað á lægstu laun og vísaði þá til könnunar sem prófessor við Háskóla Íslands hefur gert á tekjuskiptingu landsmanna og skipti þá landsmönnum í tíundir eftir tekjum og bar saman árin 1995 og 2005. Slík könnun væri í sjálfu sér eðlileg ef ekki hefðu orðið þjóðfélagsbreytingar og kerfisbreytingar á tímabilinu. Við erum t.d. núna með um 10.000–14.000 útlendinga sem raða sér allir sennilega í neðsta tekjubilið og ryðja þar með Íslendingum úr því tekjubili upp í næsta tekjubil þannig að það er ekki lengur sambærilegt. Síðan höfum við séð miklu aukningu stúdenta, úr 5.000 í 9.000 sömuleiðis. Þeir eru yfirleitt með lágar tekjur meðan þeir eru í námi og fara þar af leiðandi í lægsta eða næstlægsta tekjuþrepið núna og eru því engan veginn sambærilegir við tekjurnar sem voru 1995. Þetta eru ekki sömu hóparnir.

Í öðru lagi má nefna að fjármagnstekjuskattur var ekki til 1995, var tekinn upp seinna og tekjurnar voru ekki einu sinni taldar fram, þ.e. vaxtatekjur. Það hefur því orðið kerfisbreyting líka og þetta er ekkert sambærilegt. Þegar gamall maður eða kona fer á elliheimili og selur íbúðina sína fær hún oft og tíðum fjármagnstekjuskatt vegna þess að mikill söluhagnaður verður, sérstaklega eftir þessa síðustu hækkun á íbúðaverði og það er oft gamla fólkið sem fær miklar fjármagnstekjur og borgar fjármagnstekjuskatt.

Síðan varðandi það að hækka persónuafsláttinn í staðinn fyrir prósentuna, hv. þingmaður er mjög upptekinn af því að skipta kökunni, hann vill ekki stækka hana. Hann vill búa til fátæktargildru með því að fólk borgi háa prósentu og komist ekki út úr fátæktinni. Mér finnst þetta undarleg afstaða hjá manni sem hefur verið forustumaður sjómanna sem yfirleitt hafa verið mjög duglegir menn og haft háar tekjur.