Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 14:26:18 (1090)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:26]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, að fjármálamarkaðurinn hefur stækkað mjög verulega á undanförnum árum, hefur skapað fjölda vel launaðra starfa og fært mikinn auð inn í landið, og skatttekjur í ríkissjóð. Sú grein hefur í raun verið í hvað mestum vexti á undanförnum árum. Hins vegar hefur verið bent á að möguleikarnir á því sviði kunni að vera enn meiri og nefnd sem forsætisráðherra skipaði hefur reifað ýmsar hugmyndir í þá veru að með lagabreytingum mætti koma til móts við þá starfsemi með það að markmiði að efla Ísland í alþjóðlegri samkeppni á þessu sviði. Raunin er sú að lítið hagkerfi og samfélag sem okkar getur oft og tíðum náð betri árangri í starfsemi á þessu sviði en hin stærri.

Ég undrast nokkuð að hv. þingmaður, sem hefur fært ágæt rök fyrir því að þessi sértæka skattalausn geti styrkt grein eins og kvikmyndaiðnað hér á landi, geti alfarið hafnað því að það geti komið til greina á sviðum eins og í fjármálaþjónustu, þar sem Ísland á í alþjóðlegri samkeppni og möguleikar eru á að draga enn þá meira fjármagn til landsins og enn þá meiri skatttekjur í ríkissjóð, sem mætti þá nýta til þess að efla samfélagsþjónustu á ýmsum sviðum.

Mér finnst viðhorf hv. þingmanns og flokks hennar mótast af töluverðri andúð og jafnvel fordómum í garð fjármálastarfsemi. Ég get ekki annað en metið ummæli hennar í því ljósi.