Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 14:30:34 (1092)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:30]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil aðeins lýsa yfir stuðningi og mikilli ánægju með þetta frumvarp, ekki síst með skírskotun til þeirrar reynslu sem fengin er af gildandi lögum til þess að laða hingað að erlenda kvikmyndagerð. Mér þykir ekki síður merkilegt að það hafi tekið öll þessi ár að heyra hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur átta sig á því að þetta er aðeins angi af líflegri atvinnustefnu hæstv. ríkisstjórnar. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur haldið hér árum saman margar ræður og fullyrt að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir hafi þá atvinnustefnu eina að byggja upp álver og hefur notað til þess tignarleg orð og oft nokkuð ýkjukennd. Auðvitað er það ekki svo og þetta frumvarp er aðeins dæmi um þann fjölbreytileika sem er ríkjandi í atvinnustefnu stjórnarflokkanna og hæstv. ríkisstjórnar.

Hér kom inn í umræðuna í andsvörum einmitt sú útrás og sú starfsemi sem er í fjármálageiranum og byggir að sjálfsögðu ekki einungis á kjarki og krafti einstaklinga þar, heldur líka á vel menntuðum einstaklingum, þar skilar sér menntunin. Við getum nefnt hinn mikla vöxt í lyfjageiranum, í tónlist sem bæði listgrein og iðngrein, í tölvugeiranum og að sjálfsögðu álverunum líka. Allt hangir þetta saman og byggir á markvissri og fjölbreyttri atvinnustefnu en ekki þeirri einhæfu atvinnustefnu sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur stundum talað um hér.

Þess vegna er það auðvitað fagnaðarefni að hv. þingmaður skuli loksins hafa séð ljósið. Þetta frumvarp er einmitt dæmi um þann fjölbreytileika sem stjórnarflokkarnir vilja sjá í atvinnulífinu og við höfum sannarlega í atvinnulífinu í dag. Þetta er eitt af hinum fögru blómum sem við höfum séð skjóta rótum og blómstra, m.a. vegna þess og ekki síst vegna þess að það hefur verið markviss stefna hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarflokkanna að grípa til þessara sértæku en um leið almennu aðgerða fyrir þessa atvinnugrein. Það er vegna skattaívilnana sem erlend kvikmyndafyrirtæki hafa komið hingað með þeim jákvæðu áhrifum sem raun ber vitni. Kvikmyndagerð, eins og hér hefur komið fram, teygir sig ansi víða. Hún lýtur ekki einungis að listamönnum, leikurum, leikstjórum, það er dans, tónlist, tæknimenn, veitingaþjónusta og þar fram eftir götunum.

Við höfum séð, eins og kom fram í fyrri ræðum, að það er ekki síst íslensk náttúra ásamt þessu lagaumhverfi sem hefur verið útbúið sem hinir erlendu aðilar hafa sótt í. Um leið hafa þeir ekki einungis skilað hér 600–900 ársverkum árið 2004 og einhverjum milljörðum króna inn í hagkerfi okkar, heldur eru það ekki síst hin jákvæðu áhrif sem samstarfið við erlenda kvikmyndagerðarmenn hefur haft á íslenska kvikmyndagerðarmenn. Nægir í rauninni að vísa til nýjustu kvikmyndarinnar, Mýrarinnar, sem er líklega gott dæmi um það hvað framfarir hafa orðið glæsilegar í þessari öflugu listgrein. Þetta er einmitt gott dæmi um það hvernig markviss atvinnustefna, markvissar aðgerðir af hálfu hins opinbera, getur leitt af sér svo sannarlega jákvæð atriði fyrir atvinnulífið, fyrir listsköpunina og samfélagið í heild sinni. Þess vegna ber auðvitað að fagna þessu og er ánægjulegt líka að heyra að hér skuli vera þverpólitísk samstaða um málið.

Hvað varðar það sem hæstv. ráðherra nefndi, tilmæli til hv. iðnaðarnefndar um að skoða möguleika á að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 12% í 14%, munum við að sjálfsögðu líta afskaplega jákvætt til þess enda þurfum við að vera samkeppnishæf við nágrannalönd okkar. Ef þau lyfta þessari prósentu þurfum við að fylgja eftir en höfum svo til viðbótar hina einstöku íslensku náttúru sem lokkar kvikmyndagerðarmenn hingað. Það verður ánægjulegt fyrir okkur í hv. iðnaðarnefnd að fylgja þessu glæsilega máli áfram.