Endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 14:48:13 (1097)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

95. mál
[14:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Siðferði atvinnugreina er málefni sem við gætum tekið allan daginn í að ræða. Það er tekið fram í þessu frumvarpi að hér er ekki verið að ræða um stuðning við kvikmyndir eða sjónvarpsefni sem gæti mögulega strítt gegn banni því sem ríkir hér við ofbeldiskvikmyndum eða klámkvikmyndum. Við erum að tala um listrænar kvikmyndir, þ.e. kvikmyndir sem standast ákveðna skala, þó svo að hv. þingmaður hafi talað þannig í ræðu sinni að þar með væri orðið til eitthvert listrænt apparat á vegum hins opinbera sem búi til einhverja listræna mælistiku. Það er auðvitað bara verið að tala um að hér sé ekki verið að gera hluti sem stríði gegn lögum eða fari í bága við almennt siðferði og siðferðisgildi okkar samfélags.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að þetta er ekki eingöngu hugsað fyrir innlenda framleiðslu. Ég vil þá bara segja að stórfyrirtæki sem hingað koma og greiða mögulega há laun, ofurlaun til leikstjóra eða leikara, kæmu ekki hingað ef ekki væri fyrir þetta ákvæði. Þetta er tímabundið ákvæði sem getur virkað sem segull síðar meir á kvikmyndir sem mögulega eiga eftir að koma hingað í náinni framtíð. Ég tel að það sé ákveðið auglýsingatækifæri fólgið í þessu sem við megum heldur ekki láta fram hjá okkur fara.

Við erum líka að styrkja ferðaþjónustuna. Við viljum að hér sé byggð upp öflug ferðaþjónusta og þess vegna höfum við gert átak í þeim efnum. Ég lít þetta átak sömu augum. Ég tel að 300 þúsund manna samfélag á hrjóstugri eyju á hjara veraldar þurfi á því að halda að gera átak í atvinnumálum stöku sinnum og þá finnst mér skipta máli hvernig átak og hvernig atvinna er löðuð hér að. Ég stend með því að hingað séu dregin fyrirtæki sem starfa á sviði lista en ég er ekki höll undir fyrirtæki sem starfa á sviði stóriðju.