Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 17:37:44 (1147)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[17:37]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér varð eiginlega léttara í sinni eftir að ráðherraskipti urðu og þessi málaflokkur komst í hendur núverandi hæstv. iðnaðarráðherra sem, eins og fram hefur komið í máli fyrri ræðumanna, er fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar. Ég fylltist satt að segja ætíð skelfingu þegar fyrrverandi hæstv. ráðherra tók eitthvað á málefnum Byggðastofnunar því, eins og fram hefur komið hér áður líka, og ágætlega í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, hafa málefni stofnunarinnar á alla lund farið á verri veg undir stjórn þess fyrrverandi ráðherra.

Hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði að Byggðastofnun hefði undanfarin ár verið í bullandi vandræðum, öllu heldur að ráðherrann hefði verið í bullandi vandræðum með Byggðastofnun og það er skoðun mín að það hafi algjörlega verið sjálfsköpuð vandræði og í rauninni vandræði búin til af ásettu ráði. Það er mín skoðun að hæstv. ráðherra hafi alltaf verið á móti þessari stofnun, viljað hluta hana niður og færa í sitt eigið kjördæmi. Hún sýndi það, hæstv. ráðherra, í störfum sínum.

Ég er að vona að hæstv. núverandi iðnaðarráðherra fari mjúklega af stað til þess að færa stofnunina til betri vegar því að þó að við sjáum ekki mikla breytingu á þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir í dag frá því sem það var áður eru enn þá tækifæri til að hlusta og taka tillit til athugasemda sem er alveg öruggt að munu koma fram.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram að hér eru sett saman mjög mismunandi svið sem er að ýmsu leyti vandséð hvernig eiga að fara saman svo að vel sé. Ég var að hugsa um það áðan þegar ég sat í sæti mínu hvað það væri fróðlegt að sjá teikningu af skipuriti þessarar fyrirhuguðu stofnunar. Ég ætla að beina því til nefndarmanna í iðnaðarnefnd að þau fari fram á það við ráðuneytið að skipuritið verði teiknað upp, hvernig mismunandi svið og yfirstjórn og deildir og rannsóknastofnanir og hvað þetta allt heitir eiga að tengjast innbyrðis og inn í box sem verður teiknað, þá líka hvað eiga að vera margir yfirmenn og starfsmenn o.s.frv. Ég hef þá trú að þetta verði mjög skrautlegt skipurit, virðulegi forseti.

Ég ætla svo að segja að miðað við nafn þessarar nýju stofnunar, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, finnst mér skilgreining á hlutverki hennar eins og hún birtist bæði í 3. gr. og 5. gr. ansi þröng og jafnvel karllæg. Ég rek þessa skilgreiningu beint til þessara stofnana sem er verið að sameina, þ.e. tæknirannsókna, byggingarannsókna og þess háttar, en það getur varla verið meiningin að nýsköpun eigi bara að eiga sér stað á tæknisviði. Ég legg til að þessi skilgreining eða nafnið á sviðinu verði tekið til endurskoðunar. Það má alveg kalla þetta Íslenskar atvinnurannsóknir eða Íslenskar nýsköpunarrannsóknir og er þá hvort tveggja mun víðara og fellur að því er mér sýnist betur að því sem ég held að þessi stofnun eða þetta svið eigi að hafa með höndum.

Síðan leggst illa í mig, eins og reyndar fleiri sem hér hafa talað, hvernig rannsóknir sem eiga að tengjast þessari stofnun eru tengdar tilteknum háskólum eða rannsóknastofnunum. Ég lít nefnilega á það sem kjörið tækifæri til að efla hina mörgu háskóla sem við höfum á Íslandi að gefa þeim færi á að keppa um að sinna rannsóknastörfum fyrir þessa stofnun. Það eru, eins og bent hefur verið á, margir háskólar á Íslandi og það eru líka til háskólasetur á Ísafirði og á Austurlandi. Þau bæði byggja starfsemi sína að hluta til á vísindalegum rannsóknum. Það er líka háskóli á Hólum í Hjaltadal og háskóli á Akureyri og það er alveg sjálfsagt finnst mér að gefa öllum þessum stofnunum og skólum tækifæri til að þjónusta þetta nýja svið sem þarna er verið að fjalla um.

Síðan vil ég segja um það hvernig aðalstarfsemi þessar stofnunar eftir því sem mér sýnist er sett niður á þrem stöðum, þ.e. Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum, að það er alveg útilokað að horfa upp á það hvernig önnur landsvæði eru sýknt og heilagt vanrækt af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Það verður að segja að það hvernig ríkisstjórnin hefur farið með Norðvesturkjördæmið í heild mun verða henni til ævarandi skammar. Það er í rauninni sama hvaða málefni sem einhvern veginn er hægt að tengja landsbyggðinni kemur að í þinginu, það er alltaf sett niður einhvers staðar annars staðar en á þeim stöðum sem virkilega þurfa á því að halda að opinber starfsemi sé efld. Að kalla Ísafjarðarbæ byggðakjarna á sama tíma og þessu hlutverki er ekki gert hærra undir höfði en svo af hálfu ríkisstjórnarinnar að þar fækkar opinberum störfum stöðugt og fjármagnið sem er sett í þróunarsamninginn sem var verið að gera við þessa byggð er eins og upp í nös á ketti miðað við það sem þarf virkilega að setja í þetta landsvæði er bara hreint út sagt háðulegt, virðulegi forseti.

Það hefur komið fram í máli fyrri ræðumanna að mikil þörf sé á stofnun eins og Byggðastofnun til þess að efla byggð á landinu. Ég ætla að ítreka að það er mikil þörf á slíkri starfsemi. Ég held að það sé skoðun meiri hluta þingmanna á hv. Alþingi að ekki sé ástæða til að leggja niður byggð eða láta byggð á landinu eiga sig annars staðar en á 3–4 stöðum en það er eiginlega í stórum dráttum það sem þessi ríkisstjórn hefur verið að gera. Að hafa stofnun eins og Byggðastofnun sem er ekki gert fært að sinna hlutverki sínu almennilega er eiginlega verra en að hafa hana ekki því að þessi stofnun kallar alveg sýknt og heilagt yfir sig mjög óréttmæta gagnrýni sem byggist á því að hún getur ekki þjónustað þá sem þurfa á þjónustunni að halda vegna þess að hún hefur ekkert fjármagn og engar aðstæður til að sinna starfi sínu.

Ég vona að hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra muni standa betur að málum en forveri hans í embætti og sýna að hann hafi ekki gleymt því sem hann lærði sem formaður stjórnar þessarar stofnunar sem nú er til meðhöndlunar.