Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 17:47:53 (1148)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[17:47]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins í framhaldi af ræðu hv. þingmanns sem mér fannst einkennast af mikilli svartsýni og töluverðu vonleysi en þó var kannski verst að þar gætti örlítils misskilnings og kannski gleymsku. Í fyrsta lagi hélt hv. þingmaður því fram að samkvæmt því frumvarpi sem hér er til umræðu væru Byggðasjóður og Tækniþróunarsjóður eins og skúffa eða deild í Nýsköpunarmiðstöðinni en svo er ekki. Þeir starfa sjálfstætt og það er mjög mikilvægt að halda því til haga. Þarna gætti því einhvers misskilnings hjá hv. þingmanni.

Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að betur mætti gera hvað varðar störf á landsbyggðinni en mér fannst hv. þingmaður tala þannig að Norðvesturkjördæmi væri eins og sviðin jörð eftir hraklega meðferð hæstv. ríkisstjórnar á því kjördæmi og þangað hefðu hæstv. ráðherrar bara aldrei litið varðandi flutning á opinberum störfum. Það kemur mér á óvart að heyra hv. þingmann tala svona, því að ef ég man rétt færði hæstv. dómsmálaráðherra innheimtu umferðarlagabrota alla leið til Blönduóss og síðast er ég vissi til var Blönduós hluti af Norðvesturkjördæmi. Það var mjög verðskuldað að sýslumaðurinn á Blönduósi fengi þá deild, enda annálaður fyrir góða löggæslu. Þá man ég ekki betur en hæstv. félagsmálaráðherra hafi flutt ein 12 störf á Hvammstanga og síðast þegar ég vissi til var Hvammstangi hluti af Norðvesturkjördæmi. Þetta vildi ég aðeins nefna hv. þingmanni til upprifjunar og hugarhægðar eftir það vonleysi sem mér fannst einkenna ræðu hennar.