Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun

Þriðjudaginn 07. nóvember 2006, kl. 17:51:25 (1150)


133. löggjafarþing — 22. fundur,  7. nóv. 2006.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[17:51]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er þó ánægjulegt að upp skuli hafa runnið ljós fyrir hv. þingmanni og hún átti sig á því að það var ekki alls kostar rétt sem hún nefndi í fyrri ræðu sinni þegar hún dró upp þessa svörtu mynd af kjördæmi sínu. Hæstv. ríkisstjórn hefur þó a.m.k. sýnt einhverja tilburði og nokkur störf hafa færst þangað yfir og í fleiri kjördæmi núna nýlega. Það var mjög ánægjulegt að vera viðstaddur þegar hæstv. landbúnaðarráðherra opnaði formlega Landbúnaðarstofnun á Selfossi. Eitthvað hefur því mjakast af störfum úr hinni stóru og voldugu höfuðborg en sannarlega mega þau fleiri fara. Um það erum við örugglega sammála, ég og hv. þingmaður, að næsta ríkisstjórn mun örugglega gera enn betur en núverandi ríkisstjórn hvað varðar landsbyggðina og þjóðmálin almennt. Við erum örugglega sammála um að næsta ríkisstjórn mun gera enn betur og að sjálfsögðu mun Framsóknarflokkurinn standa sig vel í þeirri ríkisstjórn við að sinna þessum mikilvægu málum og ég þakka hv. þingmanni fyrir þá hvatningu til okkar framsóknarmanna.