Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 15:50:30 (1338)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[15:50]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Frumvarp þetta er samið í framhaldi af tillögum nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra 16. janúar 2006 til þess annars vegar að fjalla um búsetu- og þjónustumál aldraðra með tilliti til fjölbreyttari búsetuforma, stoðþjónustu og samþættingar heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu og hins vegar að skoða fyrirkomulag tekjutengingar bóta með hliðsjón af skerðingu bóta lífeyrisþega vegna tekjuöflunar þar sem jafnframt yrði þó horft til tekjujöfnunarhlutverks tekjutengingar bóta. Í nefndinni sátu fulltrúar Landssambands eldri borgara og fulltrúar félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra, utanríkisráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Fulltrúi forsætisráðherra var Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari en hann var jafnframt formaður nefndarinnar.

Nefndin hélt 25 formlega fundi og leitaði upplýsinga víða um viðfangsefni sitt og sem dæmi um gagnlegar upplýsingar frá nefndinni er með frumvarpi þessu látið fylgja skjal sem sýnir tekjuþróun aldraðra á tímabilinu 1991–2004. Upphaflega var stefnt að því að nefndin skilaði af sér haustið 2006 en nefndinni þótti óhjákvæmilegt að flýta niðurstöðum og koma breytingum á lífeyriskjörum í framkvæmd á miðju ári 2006. Nefndin skilaði tillögum til forsætisráðherra 19. júlí sl. og eru tillögurnar fylgiskjal með frumvarpinu. Ríkisstjórnin fjallaði um tillögurnar og samþykkti að beita sér fyrir framkvæmd þeirra. Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara sama dag og tillögunum var skilað til forsætisráðherra var fagnað því góða samstarfi sem tókst í nefndinni. Það var sameiginleg afstaða ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara að tillögurnar væru til vitnis um gagnlegt samstarf og samráð aðila og endurspeglaði samkomulag um aðgerðir ríkisvaldsins í málefnum aldraðra sem koma til framkvæmda á næstu fjórum árum. Jafnframt áréttaði ríkisstjórnin og Landssamband eldri borgara vilja til áframhaldandi samráðs um þau viðfangsefni sem tillögurnar tækju til og annað það sem upp kunni að verða tekið í samráðsnefnd þessara aðila. Sérstaklega yrði árangurinn metinn á miðju umræddu tímabili í ljósi þróunar verðlags, launa og efnahagsmála almennt. Þessi sameiginlega yfirlýsing er fylgiskjal með frumvarpinu.

Nefndin lagði til sem fyrsta skref að ellilífeyrir yrði hækkaður um 5,5% frá 1. júlí 2006 og til bráðabirgða greiddar sérstakar uppbætur á lífeyri á tímabilinu 1. júlí til og með 31. desember 2006. Uppbætur til bráðabirgða skyldu samsvara því í grófum dráttum að heildarhækkun greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins yrði um 15 þús. kr. á mánuði. Einnig skyldu vasapeningar hækka um 25% frá 1. janúar 2007, þ.e. úr 22.873 kr. á mánuði í 28.591 kr. á mánuði, og heimilisuppbót skyldi hækka um 4.361 kr. á mánuði frá sama tíma, þ.e. úr 18.803 kr. í 23.164 kr. á mánuði, þar sem fyrstu skrefum var hrundið í framkvæmd með setningu þriggja reglugerða sem sú er hér stendur undirritaði 21. júlí sl. Reglugerðirnar um hækkanir bóta og tekjumarka voru ekki einungis látnar taka til aldraðra heldur voru öryrkjar einnig látnir njóta hækkananna með sama hætti. Samtals er áætlað að kostnaður vegna reglugerðanna verði 1.930 millj. kr. frá 1. ágúst til 31. desember 2006 og tæpir 3,9 milljarðar á ári frá og með 1. janúar 2007.

Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við þær tillögur nefndarinnar sem kalla á breytingar á lögum. Þetta eru tillögur sem snúa að eftirfarandi atriðum:

1. Að fækka bótaflokkum og með því einfalda lífeyristryggingakerfið. Það þýðir að tekjutryggingarauki og tekjutrygging eru felld saman í einn bótaflokk sem mun nefnast tekjutrygging. Mikil umræða hefur verið undanfarið um að lífeyristryggingakerfið sé flókið og hefur Landssamband eldri borgara m.a. kallað eftir einföldun á kerfinu. Verið er að koma til móts við þær kröfur með því að fækka um einn bótaflokk en í þessu sambandi skal bent á að ástæðan fyrir því að kerfið er flókið í dag er að á síðustu árum hefur verið reynt að ná til þeirra hópa sem mest þurfa á því að halda og það gerir eðli málsins samkvæmt kerfið flóknara. Með frumvarpinu er grunnfjárhæð tekjutryggingar hækkuð og verður óháð hjúskaparstöðu. Samkvæmt núgildandi lögum er fjárhæð tekjutryggingarauka hærri fyrir einhleypinga en fyrir lífeyrisþega sem eiga maka. Nú er gert ráð fyrir að þessir aðilar fái sömu fjárhæð þar sem hjúskaparstaða skiptir ekki lengur máli eins og getið var um áðan.

Einföldun á kerfinu og hækkun grunnfjárhæðar koma til framkvæmda um næstu áramót. Nánar má sjá áhrif þessara breytinga í greinargerð með frumvarpinu. Þar kemur fram að um áramótin 2006–2007 munu bætur fyrir einhleyping, þ.e. óskiptur lífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót, verða 127 þús. kr. á mánuði og bætur til einstaklings sem á maka, þ.e. óskiptur lífeyrir og tekjutrygging, verða 103 þús. kr. á mánuði. Á tímabilinu 2005–2007 hækka þessar bætur því um 17% hjá einhleypingi og 22% hjá þeim sem á maka. Á sama tíma er áætlað að neysluverðsvísitala hækki um tæp 12% og launavísitala um 15%. Um er að ræða talsverða kaupmáttaraukningu á lífeyri sem auk þess er meira en nemur kaupmáttaraukningu launa.

Í greinargerðinni með frumvarpinu kemur einnig fram að á tímabilinu 1995–2007 er áætlað að kaupmáttur lífeyrisþega sem á maka hækki um 80%, og um 50% hjá einhleypingi. Á sama tímabili er áætlað að kaupmáttur launa hækki um rúmlega 40%. Framangreindar upplýsingar um kaupmátt bóta eftir að bætur hafa verið hækkaðar taka ekki tillit til þess að skerðingarhlutfall lækkar með frumvarpinu. Lækkunin á skerðingarhlutfallinu kemur því til viðbótar hækkunum á bótunum.

2. Tillögurnar snúa í öðru lagi að lækkun á skerðingarhlutfalli vegna tekna úr 45% í 38,35% við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar, einnig að samanlögð skerðing lífeyris og tekjutryggingar verði takmörkuð við 38,35% af tekjum. Gert er ráð fyrir að skerðingarhlutfallið verði lækkað í tveimur þrepum. Fyrsta þrepið verði á árinu 2007 en þá fer skerðingarhlutfallið í 30,95% og annað þrepið verði á árinu 2008 en þá lækkar hlutfallið í 38,35%. Þessi breyting kemur til viðbótar umfangsmiklum breytingum sem hafa verið gerðar á undanförnum árum til að draga úr skerðingum á bótum vegna tekna.

3. Tillögurnar snúa í þriðja lagi að því að halda lífeyrissjóðstekjum, þar með töldum séreignarlífeyrissparnaði hjóna, aðgreindum þannig að lífeyrissjóðstekjur annars þeirra hafi ekki áhrif á viðmiðunartekjur hins við útreikning á fjárhæð tekjutryggingar. Gert er ráð fyrir að þessi aðgreining komi til framkvæmda í tveimur áföngum. Fyrsti áfangi verði á árinu 2009 en þá skiptast tekjurnar þannig að lífeyrisgreiðslur lífeyrisþegans hafa 80% vægi og lífeyrisgreiðslur makans 20% vægi. Annar áfangi verði síðan 1. janúar 2010 en þá verði alveg skilið á milli lífeyrissjóðstekna hjóna. Með þessu er komið til móts við þær kröfur að tekjur maka lífeyrisþega hafi ekki áhrif á bætur lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins. Í greinargerð með frumvarpinu er sýnt með dæmum hvernig breytingarnar koma einhleypingum til góða sem lægstu tekjurnar hafa. Einnig koma fram mjög miklar kjarabætur hjá lífeyrisþegum sem eiga maka.

4. Tillögurnar snúa í fjórða lagi að því að draga úr tengingu vegna atvinnutekna þannig að vægi atvinnutekna lífeyrisþegans verði 75% og atvinnutekna makans 25% við útreikning á tekjutryggingu. Gert er ráð fyrir að dregið verði úr tengingu við atvinnutekjur makans í tveimur áföngum. Fyrsti áfangi verði á árinu 2009 en þá skiptast atvinnutekjur þannig að atvinnutekjur lífeyrisþegans hafa 65% vægi og atvinnutekjur makans 35% vægi. Annar áfangi verði 1. janúar 2010 en þá verði hlutföllin 75% á móti 25%.

Með þessu er einnig komið til móts við þær kröfur að tekjur maka hafi ekki áhrif á bætur lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins. Hið sama gildir hér og um lífeyrissjóðstekjur, ágóðinn af breytingunum skilar sér fyrst og fremst til þeirra sem eru með lægri tekjurnar. Í greinargerð með frumvarpinu er sýnt með dæmum hvernig frítekjumark atvinnutekna hefur áhrif til hækkunar en þar kemur fram að 50 þús. kr. atvinnutekjur hjá einhleypingi gefa samtals 20% hækkun en 11% ef ekkert frítekjumark væri. Einnig eru dæmi sem sýna mikla kjarabót hjá lífeyrisþegum sem eiga maka.

5. Tillögurnar snúa í fimmta lagi að því að setja 300 þús. kr. frítekjumark á ári vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Gert er ráð fyrir að á árinu 2009 verði frítekjumarkið 200 þús. kr. á ári en verði hækkað í 300 þús. kr. á árinu 2010. Með þessari breytingu er komið til móts við kröfur Landssambands eldri borgara um að eldri borgarar geti stundað atvinnu án þess að það skerði bæturnar frá Tryggingastofnun ríkisins.

6. Tillögurnar snúa í sjötta lagi að því að láta frestun á töku ellilífeyris hjá Tryggingastofnun ríkisins leiða til allt að 30% hækkunar bóta. Gert er ráð fyrir að heimild til frestunar komi til framkvæmda 1. janúar 2007 og feli í sér 0,5% hækkun á ellilífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót fyrir hvern frestunarmánuð til 72 ára aldurs eða eins og áður sagði að hækkunin verði að hámarki 30%. Þessi krafa hefur verið ofarlega á baugi hjá Landssambandi eldri borgara og er með frumvarpinu komið til móts við hana.

Atvinnuþátttaka eldri kynslóðarinnar á Íslandi er eitt af sérkennum íslensks samfélags og meðal þess sem veldur því að ráðstöfunartekjur þeirra sem eru 65 eða 67 ára og eldri eru hér hærra hlutfall af öllum tekjum þeirra sem yngri eru en tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Með frumvarpinu er fylgiskjal sem sýnir tekjuþróun aldraðra með hliðsjón af þróun verðlags og tekjuþróun annarra hópa á tímabilinu 1991–2004. Upplýsingarnar eru settar fram með sama hætti og gert var í álitsgerð starfshóps stjórnvalda og Landssambands eldri borgara frá árinu 2002 en sú álitsgerð fylgdi frumvarpi sem varð að lögum nr. 149/2002.

Fyrir þá sem hlut eiga að máli er það ótvíræður hagur að innrétta atvinnulíf og samfélag með þessum hætti og fullkomlega eðlilegt. Breytingin sem hér er lagt til að taki gildi um næstu áramót þýðir að fyrir utan þá almennu stefnu að gefa mönnum kost á að vinna lengur batnar afkoma þeirra eftir að þeir kjósa að taka lífeyri.

7. Í sjöunda lagi snúa tillögurnar að því að fella á brott heimild í lögum um málefni aldraðra til að verja fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnanaþjónustu aldraðra. Gert er ráð fyrir að breytingin verði í tveimur áföngum, árin 2007 og 2008. Með breytingu þessari mun fjármagn til uppbyggingar í öldrunarþjónustu aukast um rúmlega 200 millj. kr. á ári. Á árinu 2007 verði tilfærslan að hálfu en árið 2008 að fullu. Er talið að þessi breyting fjármagni hlut ríkisins af byggingarkostnaði 60–65 rýma á næstu fjórum árum.

8. Að lokum gerir frumvarpið ráð fyrir að öryrkjar njóti góðs af framangreindum breytingum. Heildarkostnaður ríkissjóðs, uppsafnaður vegna lífeyristrygginga til ársins 2010 vegna samkomulags ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara, er áætlaður 26,7 milljarðar kr. Tekur sá kostnaður bæði til elli- og örorkulífeyrisþega og einnig sérstakra hækkana lífeyris á árinu 2006. Stærsti hluti kostnaðarins fellur þó til ellilífeyrisþega, samtals 18 milljarðar kr. til ársins 2010.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir tveimur atriðum sem ekki tengjast samkomulagi ríkisstjórnarinnar um Landssamband eldri borgara. Þessi atriði snerta slysatryggingar almannatrygginga.

Í fyrsta lagi eru samkvæmt núgildandi lögum friðargæsluliðar íslenska ríkisins erlendis einungis tryggðir ef þeir slasast meðan þeir eru að sinna starfi sínu. Þeir eru því ekki tryggðir allan tímann sem þeir eru staddir á ófriðarsvæðum. Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að persónulegt gildissvið slysatrygginga samkvæmt almannatryggingalögum verði víkkað út og að íslenskir friðargæsluliðar fái sömu réttarstöðu og sjómenn og verði tryggðir allan sólarhringinn, hvort sem þeir eru beinlínis við störf eða ekki.

Í öðru lagi er í 6. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að allir háskólanemar sem stunda verklegt nám verði slysatryggðir samkvæmt almannatryggingalögum. Lög nr. 74/2002 víkkuðu út gildissvið slysatrygginga almannatrygginga þannig að fyrir utan nemendur við iðnnám í löggiltum iðngreinum urðu einnig slysatryggðir háskólanemar og nemar í starfsnámi sem stunda nám í heilbrigðisgreinum og raunvísindum þegar þeir sinntu verklegu námi.

Með frumvarpi þessu er gildissviðið enn víkkað út og sá hópur sem fellur undir slysatrygginguna stækkaður.

Í 18. gr. frumvarpsins er kveðið á um endurútgáfu laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, og laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra. Er gert ráð fyrir að lög þessi verði gefin út með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Við útgáfuna skal uppfæra allar fjárhæðir og tekjumörk sem breytt hefur verið með reglugerðum og miða við útgáfudag laganna. Brýn þörf er að gefa þessa mikilvægu lagabálka út með framangreindum hætti og ættu lögin að verða skýrari og aðgengilegri bæði almennum borgurum og fagfólki fyrir vikið.

Virðulegur forseti. Ég tel að lokum rétt að greina frá því að ég hef í dag undirritað reglugerð sem breytir reglugerð nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Reglugerðin er nátengd frumvarpinu og er henni ætlað að mynda framkvæmdina hjá Tryggingastofnun ríkisins að því er varðar ofgreiddar tekjutengdar bætur. Leitað var eftir áliti starfshóps sem í sátu fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Tryggingastofnunar ríkisins, ríkisskattstjóra, Landssambands eldri borgara og Öyrkjabandalags Íslands á því hvernig hægt væri að bæta og milda framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig var leitað eftir áliti nefndar forsætisráðherra sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stýrði. Í framhaldi af því voru lagðar fram tillögur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið bar undir samtök aldraðra og öryrkja. Þær tillögur voru síðan samþykktar á fundi ríkisstjórnarinnar 25. apríl sl.

Tryggingastofnun ríkisins er skylt samkvæmt lögum að greiða réttar bætur til réttra aðila og á réttum tíma. Til að stofnunin geti framkvæmt þessa skyldu sína þarf hún á hverjum tíma að hafa réttar upplýsingar um þau atriði sem skipta máli við ákvörðun bótaréttar og útreikninga bóta. Ef um er að ræða tekjutengdar bætur greiðir stofnunin bætur á grundvelli áætlunar og samtímaeftirlits með tekjum lífeyrisþega sem síðan eru gerðar upp árlega við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Við það uppgjör koma í ljós van- eða ofgreiðslur. Stofnunin greiðir þær bætur sem upp á vantar og innheimtir ofgreiðslur, eins og lögin kveða á um. Við þessa framkvæmd fer Tryggingastofnun eftir framangreindri reglugerð en ýmis nýmæli eru í henni. Sem dæmi um þau nýmæli er kveðið á um að falla skuli frá innheimtu á ofgreiddum bótum sem nema lægri fjárhæð en 20 þús. kr. á ári. Einnig segir í reglugerðinni að þrátt fyrir ofgreiðslu bóta skuli alltaf greiða út elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyri sem lífeyrisþegi á rétt á nema lífeyrisþeginn semji um annað.

Þá er í reglugerðinni kveðið á um að ef sýnt er fram á að innheimta ofgreiðslna verði til þess að einstaklingur hafi heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en félagsmálaráðuneytið telur vera lágmarksframfærsluþörf, sem er núna 88.873 kr. á mánuði, skuli Tryggingastofnun að ósk bótaþegans lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur bótaþegans nái þeirri fjárhæð. Ég tel að reglugerðin sé til mikilla bóta fyrir alla aðila og komi til móts við kröfur samtaka aldraðra og öryrkja um að milda framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum og innheimtu á ofgreiddum bótum.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið forsögu og efni frumvarps þessa í stórum dráttum og tel mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt nú á haustþingi. Það er m.a. nauðsynlegt vegna þess að í frumvarpinu eru fjölmörg ákvæði sem miðað er við að taki gildi 1. janúar 2007. Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.