Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 16:18:20 (1343)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:18]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel fulla ástæðu til að vekja athygli á mikilvægum upplýsingum sem fram komu í máli hæstv. heilbrigðisráðherra í lok ræðu hennar. Hún sagði frá því að hún hefði í dag undirritað reglugerð er varðar framkvæmd Tryggingastofnunar vegna ofgreiddra bóta. Þetta mál hefur verið töluvert í umræðunni upp á síðkastið. Við sem vorum í heilbrigðis- og trygginganefnd á síðasta kjörtímabili, eða hvort það var fyrr á þessu kjörtímabili, munum hvernig lögum var breytt sem leiddi til þess að Tryggingastofnun var falið að skoða nánar tekjuviðmiðun eða öllu heldur hvernig standa ætti að því að skoða tekjur lífeyrisþega, bæta þeim ef um vangreiðslur hefði verið að ræða og aftur hvernig ætti að mæta því þegar um ofgreiðslu bóta væri að ræða.

Mig langar að fá hæstv. ráðherra til að segja okkur nánar frá þessari reglugerð. Ég tel að hún sé mjög merkileg. Sérstaklega langar mig að heyra hvernig sú framfærsluupphæð er fundin sem vísað var í hjá félagsmálaráðuneytinu. Hver er sú upphæð sem miðað er við að sé lágmarksupphæð, sem ekki má skerða?

Síðan tel ég líka fulla ástæðu til að fá upplýsingar um hver er áætlaður kostnaður ríkisins af þessari reglugerð. Hvernig verður tekið á ofgreiddum bótum? Er þar einhver fyrning á einhverjum ákveðnum árum og hvernig verður farið með eftirstöðvar ef það fer á milli ára? Hver telur hæstv. ráðherra að séu almennt áhrif þessarar reglugerðar (Forseti hringir.) á hag aldraðra?