Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 16:22:40 (1345)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:22]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra þessar upplýsingar og hlakka til að fá meira að heyra á eftir. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að rétt skuli vera rétt. Það á að greiða réttar bætur á réttum tíma og réttum aðilum, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra.

En ég vil í framhaldi af því spyrja: Mun Tryggingastofnun ríkisins taka upp nýjar aðferðir til að afla upplýsinga um tekjur lífeyrisþega á hverjum tíma þannig að ekki þurfi að koma til slíkrar ofgreiðslu eða vangreiðslu lífeyris sem valdið getur miklum óþægindum og mikilli óánægju meðal lífeyrisþega?

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. ráðherra um hvort tekið hafi verið á ábyrgð lífeyrisþega að veita réttar upplýsingar? Mun tekið á því ef upplýsingar reynast rangar ár eftir ár? Eða hvernig er það hugsað? Þetta er náttúrlega flókið mál. Auðvitað vill fólk veita réttar upplýsingar en margir lenda í þessum vandræðum vegna þess að þeir þekkja ekki kerfið og vita ekki hvað liggur undir, hvaða tekjur hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur.

Auðvitað á þetta að liggja alveg ljóst fyrir. Yfirleitt eru þetta tekjur sem koma einhvers staðar inn í kerfi ríkisins með einum eða öðrum hætti. Mun Tryggingastofnun fá heimildir til að fá slíkar upplýsingar beint, þannig að hægt sé að aðlaga þessar viðbætur lífeyrinum frá mánuði til mánaðar með hliðsjón af upplýsingum sem liggja fyrir um mánuðina á undan eða eitthvert tímabil þar á undan.

Þetta er náttúrlega alveg ófært eins og þetta hefur verið. Kannski sáum við þetta ekki fyrir þegar þessar breytingar voru gerðar á lögunum. Það er náttúrlega mikilsvert að haga málum með þeim hætti að fólk þurfi ekki að hafa óþarfa áhyggjur eða (Forseti hringir.) að því sé ekki valdið hugarangri að óþörfu.