Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 17:08:45 (1350)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:08]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem við höfum fyrir framan okkur er frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Það kemur í kjölfar samkomulags sem gert var milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara í sumar. Ég get ekki verið sammála því sem kom fram hjá síðasta ræðumanni að þetta sé eitthvert pínulítið skref sem tekið er. Ég tel einmitt að þarna sé stórt skref tekið í málefnum aldraðra. Þetta er niðurstaða samkomulags sem gert var milli ríkisstjórnarinnar og Landssambands eldri borgara, sem var lengi í undirbúningi og tekur á öllum helstu þáttum sem varða áhyggjuefni aldraðra í dag.

Sú aðferðafræði sem notuð er — þ.e. að gera samkomulag þar sem aðilar koma að sama borðinu, aðilar á vegum ríkisstjórnarinnar annars vegar og hins vegar á vegum Landssambands eldri borgara, þar sem rædd eru hin ýmsu áhyggjuefni og ýmis málefni sem á þeim brennur og komist er að ákveðnu samkomulagi — er til bóta og er í rauninni framhald af þeirri aðferðafræði sem lagt var upp með fyrir nokkrum missirum.

Á bls. 9 í frumvarpinu kemur fram það álit nefndarinnar að með tillögunum sem lagðar eru fram í fylgiskjali II með frumvarpinu er lagður grunnur að áætlunum um fjögurra ára samkomulag stjórnvalda og Landssambands eldri borgara og jafnframt kemur fram að lögð er áhersla á áframhaldandi samráð þessara aðila. Slíkt samráð verður áfram sem ég tel vera mjög mikilvægt.

Það kom strax fram þegar samkomulagið var undirritað að almenn ánægja væri meðal forsvarsmanna Landssambands eldri borgara með samkomulagið. Síðan hefur ýmis umræða verið uppi á borðinu í blöðum og í samfélaginu sem bendir til þess að sú ánægja sé kannski ekki eins mikil eins og verða vildi og margir vildu hafa séð samkomulagið öðruvísi eða að gengið væri lengra með einstaka þætti samkomulagsins.

Hins vegar er það þannig að þegar samkomulag er gert á milli aðila koma báðir fram með kannski ýtrustu kröfur en síðan felst í samkomulaginu að einhver millileið er farin. En ég er alveg á því að þau skref sem tekin voru með samkomulaginu voru stór. Enda kemur fram á bls. 9 í frumvarpinu og í athugasemdunum við frumvarpið að kostnaður vegna samkomulagsins til ársins 2010 er 18 milljarðar kr. sem skiptast milli þeirra rúmlega 30 þúsund eldri borgara sem nú eru á ellilífeyri og það eru 18 milljarðar til viðbótar við núverandi rétt. Einnig kemur fram á sömu blaðsíðu að strax á næsta ári er aukið fjármagn til þessa málaflokks vegna samkomulagsins sem snýr eingöngu að lífeyrisréttinum 3,7 milljarðar og 2008 4 milljarðar, 2009 rúmlega 4,3 milljarðar og 2010 tæpir 4,8 milljarðar. Því er ekki hægt að segja að þetta sé lítilvægt skref. Og þegar til viðbótar koma þær viðbætur til örorkulífeyrisþega þá eru þetta upphæðir upp á tæpa 27 milljarða á þessu fimm ára tímabili. Því til viðbótar kemur fram í athugasemdunum við frumvarpið að kaupmáttur lífeyrisþega á síðustu 12 árum hefur aukist um 50% hjá einstaklingum en kaupmáttur lífeyrisþega með maka hefur aukist um 80%, en á sama tíma hefur kaupmáttur launa hækkað um 40%. Það verður því ekki annað sagt en að það samráð sem hefur verið viðhaft milli aðila á þessum árum hafi skilað umræddum hópi ágætum árangri þótt auðvitað sé það svo að fólk vill alltaf gera betur og þá á ég bæði við eldri borgara og ríkisvaldið.

Í því samkomulagi sem gert var í sumar, undirritað í júlí, standa nokkrir þættir upp úr. Má þar fyrst telja að bótaflokkum verður fækkað og lífeyristryggingakerfið verður einfaldað. Það hefur þvælst fyrir okkur í þinginu hvað þetta kerfi, lífeyristryggingakerfið, er flókið og mikið hefur verið um það rætt að það mætti einfalda. Þarna eru tekin ákveðin skref í þá átt að einfalda kerfið en ganga þarf mun lengra. Má í rauninni segja að það sé það flókið að sérfræðinga Tryggingastofnunar þurfi til til að geta lesið úr því og varla nokkur möguleiki fyrir einstaklinga sem ætla að sækja sinn rétt að lesa úr lögunum til að geta sótt hann.

Ég hef orðið vör við það á fundum, m.a. með lífeyrisþegum og sjúklingum, að þeir átta sig ekki alltaf á rétti sínum en þegar farið er nánar ofan í það kemur í ljós að þegar lagður er saman réttur þeirra úr lífeyrissjóðum, réttur þeirra úr almannatryggingakerfi og réttur þeirra í sjúkrasjóði sem er á vegum verkalýðsfélaga, þá lítur þetta betur út en menn töldu í fyrstu. Ástæðan fyrir því að þeir hafa ekki yfirsýn yfir þetta er sú að þetta er svo flókið kerfi að erfitt er að hafa yfirsýn yfir það.

Annað atriði sem skiptir verulegu máli er að dregið verður úr áhrifum tekna maka. Þetta hefur verið baráttumál eldri borgara og öryrkja um langt skeið og þetta mun koma til framkvæmda fyrst á árinu 2009. Þetta er í rauninni mikið réttlætismál, en aftur má líka taka fram það sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að það er ákveðið íhugunarefni að einstaklingur sem hefur gert samkomulag við maka sinn um að hann sé heima, yfirleitt er það reyndar konan sem er heima, en makinn sem er þá karlmaðurinn er vinnandi. Þegar viðkomandi kona verður 67 ára að aldri þá allt í einu stofnast réttur til almannatrygginga sem tryggir henni ákveðin laun umfram það sem samkomulag þeirra á milli hefur verið árum saman. En þetta er ákvörðun og ákveðin stefna sem er tekin. Við hana er í rauninni ekkert að athuga en hún felur í sér ákveðna grundvallarbreytingu í hugsun hvað almannatryggingakerfið stendur fyrir.

Á bls. 13 í frumvarpinu kemur fram hver áhrifin eru af því að draga úr tekjutengingu á milli hjóna. Fram kemur m.a. í töflu dæmi um ellilífeyrisþega í sambúð — maki er ekki lífeyrisþegi og með 150 þús. kr. tekjur á mánuði. Ef lífeyrisþeginn er ekki með laun hækka tekjur hans úr tæpum 68 þús. í 96 þús., um 28 þús. kr. eða 42%. En hafi hann sjálfur, lífeyrisþeginn, tekjur upp á 50 þús. hækka tekjur hans um 21 þús. kr. eða 19%.

Þarna má segja að áhrif þessara breytinga séu að koma fram í frumvarpinu, þær koma til framkvæmda á árinu 2009 og 2010, og munu sérstaklega gagnast konum og þær fái meira á milli handanna en hingað til hefur verið. Enda hefur þetta verið sérstakt áhyggjuefni og sérstakt ergelsi frá þeirra hendi að tengja tekjur sínar með þessum hætti við maka.

Annað dæmi er ellilífeyrisþegi í sambúð með engar tekjur en maki er með 150 þús. lífeyristekjur, að tekjur ellilífeyrisþegans hækka úr 57 þús. í um 111 þús. eða 95%. Í þessu er verið að skoða sérstaklega að lífeyrissjóðstekjur maka eru aftengdar tekjum ellilífeyrisþegans sem hefur þau áhrif að tekjur viðkomandi hækka.

Einnig kemur fram að hafi viðkomandi ellilífeyrisþegi í sambúð atvinnutekjur sjálfur upp á 50 þús. hækka tekjur hans. Voru þá heildartekjur hans á mánuði 95 þús. en fara upp í 146 þús. og mismunurinn er 50 þús. kr. sem er 53%. Því er ekki hægt að segja að þetta samkomulag sé ekki gott, en hins vegar villir það kannski um fyrir fólki að þetta kemur ekki til framkvæmda fyrr en 2009. Fólk sér því ekki alveg strax hverjar þessar breytingar verða.

Annað atriði sem varðar það sem við erum að fjalla um er að fjárhæð vasapeninga verður hækkuð um 25%. Þetta er mjög mikilvægt þeim sem eru á öldrunarheimilum og hafa engar tekjur. En það snertir líka mál sem ég hef hreyft hér á hinu háa Alþingi áður, en það er samræming á þjónustu sem veitt er á öldrunarheimilum. Það segir sig sjálft að vasapeningar sem eru um 25 þús. kr. — að þar sem einstaklingur er inniliggjandi á hjúkrunarheimili og þarf að borga sinn eigin þvott, eins og hefur komið fram áður, eða hann þarf að leggja fram ákveðna greiðslu fyrir þjónustu sem elli- eða hjúkrunarheimilið borgar ekki fyrir, það segir sig sjálft að í þessu felist ákveðin mismunun.

Þess vegna tel ég það mjög gott að nú verður farið í þá vinnu að fara að ráðleggingum Ríkisendurskoðunar varðandi þjónustu á öldrunarstofnunum, að skoða betur samræmingu á þeirri þjónustu og hvað það er sem fólk er að borga fyrir og hvað ekki.

Síðan eru það atriðið sem varðar sveigjanleg starfslok, þ.e. að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris. Þetta er mjög mikilvægt atriði og hefur verið til umræðu á hinu háa Alþingi um nokkuð langt skeið. Hefur hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson m.a. rætt þetta. Hérna er verið að fara ákveðna leið sem lífeyrissjóðirnir hafa jafnframt farið, þ.e. að frestun á töku lífeyris leiðir til aukins réttar í kerfinu. Einstaklingur sem heldur áfram starfi til sjötugs og frestar því að sækja um lífeyri frá almannatryggingakerfinu getur í rauninni hækkað rétt sinn um 18% og ef hann frestar áfram til 72 ára aldurs getur hann hækkað rétt sinn um 30%. Þetta getur því bæði verið hagsmunamál hins aldraða sem vill halda virku starfi áfram í samfélaginu og um leið hefur hann þá tækifæri til að auka rétt sinn, sem er mikið ánægjuefni.

Nú hefur mikið verið rætt um það atriði sem er í frumvarpinu og var í samkomulaginu um að sett yrði frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Þetta er mál sem hefur mikið verið til umræðu og valdið miklu ergelsi hjá mörgum öldruðum sem segja að um leið og þeir eru farnir að afla sér tekna með einhverjum hætti, öldruðum býðst vinna hér og þar í stofnunum eða fyrirtækjum, eða þá með sjálfsaflafé — fólk vill geta aukið fjárráð sín með vinnu og um leið viðhaldið heilsu sinni og viðhaldið virkni í samfélaginu án þess að það leiði til skerðingar á lífeyri úr almannasjóðum. Þetta kemur til framkvæmda árið 2009. Verður þá miðað við frítekjumark um 200 þús. kr. En ári seinna, 2010, fer þetta upp í 300 þús. kr.

Það hefur verið gagnrýnt að þetta frítekjumark komi ekki til framkvæmda fyrr og vissulega má segja að þessi kostnaður sé í rauninni ekki mikill ef maður lítur á töflu á bls. 9 um hver kostnaðurinn er vegna samkomulags eldri borgara. Þá kemur í ljós að þegar þetta ákvæði kemur til framkvæmda á árinu 2009 leiðir frádráttur frá atvinnutekjum til 142 millj. kr. útgjaldaaukningar. Og svo aftur 2010 þegar 300 þús. kr. markið er komið, þá leiðir þetta til 208 millj. kr. aukningar.

Í rauninni má segja að ef farið verður í það að flýta þessu á einhvern hátt eða byrja með lægri upphæð, þá leiði það í sjálfu sér ekki til mikillar aukningar á fjármagni miðað við þá heildarupphæð sem við erum að tala um. En þetta er samkomulag sem varð með þessa niðurstöðu. En kannski mætti hugsa sér ákveðið svigrúm að flytja á milli vissa þætti eða skoða þetta með einhverjum öðrum hætti þannig að komið sé að einhverju leyti til móts við þessar kröfur eldri borgara og sem valda eiginlega mesta ergelsi meðal þeirra í dag. En aftur, þetta er samkomulag, það er kannski erfitt að fara að breyta því nema að aftur sé samkomulag um það.

Okkur þingmönnum barst fréttatilkynning frá Samtökum verslunar og þjónustu sem varðar nákvæmlega þetta atriði þar sem þeir eru með áskorun um óskertar aldurstengdar bætur launafólks. Ég er nú ekki sammála þessari yfirskrift. En hins vegar er ákveðið atriði sem er sannleikskorn í þessari ályktun. En þeir segja og benda á að síminnkað framboð íslensks vinnuafls hafi orðið í verslun og þjónustu á undanförnum missirum. Benda á hvað mikill skortur er á vinnuafli. Samtökin hafa þurft að leita til erlends vinnuafls sem hefur ekki tök á íslenskri tungu og benda á það ónýtta vinnuafl sem er í eldri borgurum en sem telja sér ekki fært að vinna vegna ákvæða almannatryggingalaga. Samtökin segja enn fremur, með leyfi forseta:

„Á hinn bóginn má líta til þess að í landinu er sífellt stærri hópur eldri borgara sem vill og getur unnið margvísleg störf í mismunandi starfshlutföllum, en fæst ekki út á vinnumarkaðinn vegna þess að með launuðu starfi skerðast aldurstengdar greiðslur hans. Á sama tíma eykst heilbrigði hópsins, lífaldur lengist og sífellt fleiri eru tilbúnir að stunda einhverja launavinnu.“

Í rauninni má segja að þetta ákvæði um frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega sé komið fram m.a. til að koma til móts við þessar kröfur og þá almennu umræðu í samfélaginu sem ég tel vera gott mál. Þetta er svona sem sumir mundu kalla „win win situation“ þar sem allir aðilar græða, þ.e. öldruðum er gert kleift að vinna sem, eins og hefur verið bent á, gæti aukið virkni þeirra og minnkað kostnað í heilbrigðiskerfinu. Það er öllum til bóta að geta haldið virkni og virkri þátttöku í samfélaginu.

Að lokum langar mig einnig að nefna það ákvæði sem hefur mikið verið til umræðu í þinginu um langt skeið. Það er að fjármagn í Framkvæmdasjóð aldraðra verði nú eingöngu notað til uppbyggingar öldrunarstofnana. Það skiptir miklu máli að það fjármagn verði notað til að koma til móts við uppsafnaða þörf fyrir hjúkrunarrými, en á Reykjavíkursvæðinu eru á milli 300 og 400 manns, eldri borgarar, sem eru á biðlista eftir hjúkrunarrými. Jafnframt er mikilvægt að auka aðgengi að aðstoð á heimili.

Jafnframt var í samkomulagi atriði sem varðar fjölgun starfsfólks í umönnunarstörfum. Það náttúrlega kemur ekki inn á það frumvarp sem við erum hér að fjalla um beint, en hins vegar má segja að sú ákvörðun sem var tekin nú fyrir stuttu um fjölgun hjúkrunarnema við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sé þáttur í samkomulaginu. En það er alveg ljóst að hjúkrunarfræðingar hér á landi eru of fáir og þjóðin er að eldast og aukin þörf fyrir þá stétt.

Allra síðast, þar sem tíma mínum er að ljúka, langar mig til að nefna það atriði sem beinist ekki að umræddu samkomulagi en varðar slysatryggingu nemenda. Þetta er mjög mikilvægt atriði því nemendur sem hafa verið m.a. í heilbrigðisgreinum og eru í starfsnámi á sjúkrahúsum hafa um nokkurt skeið ekki verið slysatryggðir. Það hefur skapað ákveðinn vanda því það er einmitt á þeim námstíma sem ákveðin slys verða. Þetta eru nemendur í þjálfun og eru að læra að meðhöndla þau hættulegu efni sem þeir þurfa að vinna með og eru að fóta sig í nýju umhverfi. Það er einmitt þá sem ákveðin slys hafa orðið. Með þessari breytingu eru allir háskólanemar sem stunda verklegt nám slysatryggðir samkvæmt lögum um almannatryggingar og þetta tel ég vera mjög mikilvægt atriði og mikið fagnaðarefni. Meðan ég var formaður Félags hjúkrunarfræðinga man ég eftir að þetta var eitt af þeim atriðum sem nemendur komu sérstaklega til félagsins til að ræða um því þetta skipti þá miklu máli.