Almannatryggingar og málefni aldraðra

Fimmtudaginn 09. nóvember 2006, kl. 17:57:41 (1356)


133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem hér hefur bæði verið mælt fyrir og mjög ítarleg umræða orðið um. Hv. þm. Þuríður Backman, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í heilbrigðis- og trygginganefnd, hefur farið yfir þetta mál í heild sinni og einstaka þætti þess. Ég vísa til ræðu hennar hvað varðar þessi mál almennt.

Það sem ég ætla fyrst og fremst að gera að umtalsefni eru einstakir þættir sem lúta sérstaklega að möguleikum elli- og örorkulífeyrisþega til að stunda áfram vinnu, fá áfram launatekjur án þess að þær skerði lífeyri þeirra. Það hefur verið aðall á Íslandi um áratuga bil og aldir að fólk sem vill vinna sé hvatt til þess og njóti samfélagslegrar hvatningar til að taka þátt í samfélaginu, leggja fram krafta sína til starfa svo lengi sem það vill og sem það má. Það er skylda okkar að búa þannig um hnúta að það sé hvatning til fólks til að svo megi verða. Það er þess vegna eitt af meginmálunum í t.d. tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem allir þingmenn stjórnarandstöðunnar, þ.e. þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins, hafa lagt fram. Það er mjög fróðlegt að bera saman annars vegar tillögur þessara flokka, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, í lífeyrismálum og hins vegar tillögur ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Það hefur verið farið ítarlega í gegnum þessi atriði. Það var t.d. minnst á tekjutryggingu aldraðra þar sem við, flokkarnir sem viljum skipta þessari ríkisstjórn út, leggjum það til að tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. og öryrkja 86 þús. frá 1. janúar 2007 en ríkisstjórnarflokkarnir leggja til 6–7 þús. kr. lægri upphæð. Dæmigert. Munurinn skýrist þó og kemur einna greinilegast fram þegar horft er á frítekjumarkið sem hefur verið baráttumál aldraðra og öryrkja, og reyndar líka okkar sem viljum standa við bakið á og styðja þá kröfu. Við í stjórnarandstöðunni, við í velferðarflokkunum, Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum, sem viljum styrkja og efla velferðarmálin leggjum til að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði strax frá 1. janúar árið 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Skoðað verði hvort nýta megi hluta þessa frítekjumarks fyrir tekjur úr lífeyrissjóði. Öryrkjar hafi val um þetta frítekjumark eða eldri reglu eftir því hvort þeim er hagstæðara.

Tillaga stjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, hljóðar hins vegar upp á allt annað. Hún hljóðar upp á að frá 1. janúar 2009 verði þetta frítekjumark 200 þús. kr. á ári, hjá okkur velferðarflokkunum 900 þús. kr. á ári frá 1. janúar 2007 en hjá stjórnarflokkunum 200 þús. kr. frá 1. janúar 2009. Ja, mikið er það nú rausnarlegt. Þeir þurfa ekki einu sinni að standa við það því að vonandi verður þessi ríkisstjórn þá komin frá. Og síðan vilja þeir að frítekjumarkið hækki upp í 300 þús. kr. á ári frá 1. janúar 2010. Himinn og haf skilur þessa flokka að, annars vegar ríkisstjórnarflokkana, Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, og hins vegar velferðarflokkana sem leggja fram allt aðra tillögu, vilja að frítekjumarkið hækki strax. Það eru margar ástæður fyrir því. Ég nefndi þá ástæðu áðan að það hefur verið aðall íslensks velferðarsamfélags að hver og einn fengi að taka þátt í samfélaginu, leggja fram krafta sína, taka þátt í atvinnulífinu án þess að vera refsað fyrir það. Vissulega er atvinnuframtíð fólks sem er í þessari stöðu, komið á aldur eða er öryrkjar, óviss hvað varðar aldur, heilsu og starfsgetu en það vill samt fá að leggja fram, svo lengi sem það hefur krafta til og tök á, framlag til eflingar fyrir samfélagið án þess að það skerði þá áunninn lífeyri þar sem það veit ekki í rauninni hvenær það getur ekki unnið meir.

Þetta er fyrst og fremst réttur þessa fólks, samfélagsréttur þess sem við í velferðarflokkunum viljum styðja og leggjum þess vegna þetta mál fram. Líka má horfa til þess hreint praktískt að einmitt í ástandi eins og er núna á atvinnumarkaðnum — við höfum verið að tala hér um að það hafi þurft að flytja inn í landið vinnuafl, sem við skulum kalla fólk, til að standa undir stóriðjustefnunni, til að standa undir þenslunni sem atvinnustefna þessarar ríkisstjórnar hefur skapað. Sú stefna hefur jafnframt leitt til þess að margt af því fólki sem við erum að tala um hefur misst vinnuna. Því hefur verið sagt upp vegna þess að það hefur ekki verið reiðubúið til þess að vinna hina löngu vinnudaga sem atvinnurekendur krefjast eða verkin þess boðin út. Tökum störf eins og í ræstingum, tökum störf eins og í mötuneytum, tökum störf í einmitt mörgum kvennastörfum — þar hefur fólki verið sagt upp, eldra fólki sem vill fá að starfa áfram en er einhverra hluta vegna ekki talið þénugt og er sagt upp, fer á lífeyri eða á aðrar bætur. Reyni það að halda áfram einhverjum ákveðnum hlut á vinnumarkaðnum er því refsað. Það er ekki þetta sem við viljum og það er svo brýnt, og brýnna nú en nokkru sinni áður, að ákvæði um frítekjumark vegna vinnu komi til framkvæmda strax, ekki aðeins gagnvart þessu fólki sem við erum að tala um sem eru sjálfsögð mannréttindi heldur er það einnig vegna atvinnuástandsins og stöðunnar í samfélaginu.

Þetta held ég að sé mjög mikilvægt að láta koma fram hér. Við fengum mjög mörg dæmi einmitt þegar Síminn var einkavæddur. Fólki sem hafði starfað þar áratugum saman, átti fá ár eftir til að vera komið á fullan ellilífeyri, var sagt upp, þokað burt í þeim hagræðingaraðgerðum sem þar voru í gangi. Þetta fólk er síðan meira eða minna réttlaust til þess að sækja aftur inn á vinnumarkaðinn eða halda vinnu sinni að hluta án þess að það skerði þá þann litla lífeyri sem það hefur. Ríkisstjórnin leggur til að frítekjumarkið taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009. Ímyndið ykkur hrokann. Ef það er í rauninni vilji af hálfu ríkisstjórnarflokkanna til að koma einhverju í framkvæmd ættu þeir að gera þetta strax. Það hefur komið fram að þetta er sáralítill kostnaðarauki en þetta er gríðarlegur samfélagsauki og réttindi og viðurkenning gagnvart því fólki sem hér á í hlut og skiptir þjóðarbúið gríðarlega miklu máli. Þarna sjáum við hinn raunverulega mun á afstöðu velferðarflokkanna og ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, varðandi þessi mál.

Það er mjög fróðlegt fyrir menn að sjá hér kjör ellilífeyrisþega eftir löndum. Við fengum þetta minnisblað frá samtökum eldri borgara í fyrradag og ég leyfi mér að vitna til þess, frú forseti:

„Ísland. Ellilífeyrir, grunnlífeyrir er lægstur á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd en ráðstöfunartekjur nokkuð háar vegna mikillar atvinnuþátttöku. Ellilaun skerðast frá fyrstu krónu sem ellilífeyrisþeginn vinnur sér inn aukalega. Skerðingar eru á bilinu 65–85% að meðtöldum sköttum.

Danmörk. Grunnlífeyririnn er 55 þús. kr. á mánuði sem skerðist fyrst eftir 440 þús. kr. mánaðartekjur, og tekjutryggingin sem er um 58 þús. kr. á mánuði skerðist eftir 59 þús. kr. atvinnutekjur á mánuði. Skerðingarhlutfall er 30% að viðbættum sköttum, atvinnutekjur skerða bætur almannatrygginga en ekki lífeyrissjóðstekjur.

Noregur. Í allflestum tilvikum mega menn fram að sjötugu hafa tvöfalda grunnupphæð í tekjur á ári sem eru rúmar 1,3 millj. íslenskar. Síðan greiða menn skatt af tekjum í réttu hlutfalli við eignir, þ.e. þrepaskipt skattkerfi. Eftir sjötugt mega menn hafa ótakmarkaðar tekjur án þess að grunnlífeyrir skerðist.“

Þetta eru upplýsingarnar sem við fengum frá samtökum eldri borgara.

Það er kannski talandi tákn um það hvernig þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hegða sér í lífeyrismálum að skoða hvað gerðist í Reykjavíkurborg nýverið varðandi hækkun á þjónustugjöldum eldri borgara. Við sem fylgdumst með kosningabaráttu sérstaklega Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar tókum eftir því að sérstök áhersla var lögð á að bæta kjör eldri borgara á allan hátt. Má segja að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins við síðustu borgarstjórnarkosningar hafi einmitt verið rekin töluvert á þeim grunni. Við fögnuðum þessu flest ef ekki öll, fögnuðum þeirri stefnubreytingu sem virtist vera að verða hjá Sjálfstæðisflokknum gagnvart eldri borgurum eins og hún birtist í kosningabaráttunni. En hvað kemur svo? Ég leyfi mér að vitna til Morgunblaðsviðtals við Margréti Margeirsdóttur frá 1. nóvember 2006, með leyfi forseta:

„„Við lýsum yfir miklum vonbrigðum og undrun með þessar hækkanir í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á undanförnum missirum um kjör eldri borgara. Þessi hækkun kemur hreinlega eins og blaut tuska framan í okkur,“ segir Margrét Margeirsdóttir, formaður Félags eldri borgara, og vísar þar til ákvörðunar velferðarráðs Reykjavíkurborgar um að hækka gjaldskrá velferðarsviðs borgarinnar um 8,8% frá og með næstu áramótum. Hækkunin var rædd á fundi framkvæmdastjórnar FEB í gær og mun félagið í framhaldinu senda frá sér ályktun þar sem henni verður mótmælt.

Segir Margrét ljóst að hækkunin muni koma allra verst við þá eldri borgara sem lakast eru settir og munar um hvaða upphæð sem er. Segir hún tímasetningu hækkunar einnig koma á óvart og að eðlilegra hefði verið af hálfu borgarinnar að bíða með hækkanir þar til ljóst væri hvernig rekstrarárið kæmi út í heild. Heimaþjónustan er greiðsluskyld fyrir alla sem hana nýta nema þá sem aðeins hafa bætur frá TR. Að sögn Margrétar á framkvæmdastjórnin fund með borgarstjóra nk. mánudag þar sem m.a. á að ræða hækkunina.“

Já, ég held að okkur öllum sem fylgdumst með kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins við borgarstjórnarkosningarnar í vor komi á óvart að svona fljótt eins og Margrét segir skuli hafa verið ráðist á eldri borgara með þeim hætti að hækka hjá þeim þessi gjöld. Þetta er kannski stefnan í hnotskurn, þetta er nákvæmlega eins og við sjáum hér muninn á þeim tillögum sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Samfylkingunni og Frjálslynda flokknum leggjum til varðandi kjör eldri borgara og öryrkja og svo brýnt að á verði tekið, þá koma ríkisstjórnarflokkarnir og segja: Jú, við erum reiðubúin svona 2009, 1. janúar 2009 kemur fyrsta skrefið að þessu frítekjumarki gagnvart atvinnutekjum og svo 2010, lágar upphæðir eftir tvö ár.

Frú forseti. Það er krafa okkar að þetta frítekjumark komi til framkvæmda strax frá áramótum sem og tillaga okkar um að hún verði 900 þús. kr. á ári. Það er bæði sanngirnis- og réttlætismál gagnvart því fólki sem hér á í hlut og einnig gríðarlega mikilvægt samfélagslega að þetta fólk geti verið á sanngjörnum kjörum og á sanngjarnan hátt þátttakendur eins og það hefur kraft til á hverjum tíma í atvinnulífi þjóðarinnar án þess að vera refsað fyrir. Frítekjumarkið er eitt af brýnustu málunum til að koma í framkvæmd strax.

Frú forseti. Varðandi önnur atriði sem þetta frumvarp tekur á vísa ég til umræðunnar hér og fulltrúa þeirra sem hafa tekið þátt í þessu af hálfu stjórnarandstöðunnar, af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar sem eru mjög samhljóða í þessu máli og einnig eins og tillaga okkar ber vott um, sameiginleg tillaga okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, um nýja framtíðarskipan í lífeyrismálum sem ég tel að sé tímamótaplagg og sýni á miklu raunsærri og manneskjulegri hátt hvert eigi að stefna í lífeyrismálum en frumvarp ríkisstjórnarinnar þó að í því séu að sjálfsögðu góðir punktar.